Ferill 435. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 733  —  435. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995.

Flm.: Kristín Halldórsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir.



1. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Það er skilyrði greiðslu bóta að brot, önnur en kynferðisafbrot gegn börnum, sem tjón er rakið til, hafi án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns.

2. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, svohljóðandi:
    Þegar um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum er að ræða er skilyrði greiðslu bóta að brot, sem tjón er rakið til, hafi verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi afbrotamanns. Umsókn um bætur skal hafa borist bótanefnd áður en fyrningarfrestur rennur út.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Kynferðisafbrot og annað ofbeldi gagnvart börnum eru andstyggilegustu glæpir sem um getur. Hrekkleysi barna og trúnaðartraust í garð fullorðinna gerir þau einstaklega varnarlaus gagnvart misnotkun sem þau eru alls ófær um að túlka og bregðast við. Afleiðingarnar eru skelfilegar og yfirleitt langvinnar og varanlegar. Langur tími getur liðið áður en brotaþoli nær að vinna úr reynslu sinni og herða sig upp í að leita réttar síns. Aukin fræðsla og opin­skáar umræður um þetta efni hafa opnað augu margra og auðveldað brotaþolum að átta sig á vanda sínum og möguleikum til úrbóta. Lagalegum úrræðum er hins vegar enn verulega ábótavant. Ofbeldisbrot af þessum toga hafa algjöra sérstöðu og verður að meðhöndla á sér­stakan hátt. Reynt hefur verið að bæta réttarstöðu brotaþola í slíkum málum á undanförnum árum en ljóst að betur má ef duga skal.
    Lögin um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota sem sett voru árið 1995 voru mikil réttarbót. Fyrir setningu þeirra laga urðu tjónþolar sjálfir að freista þess að sækja dæmdar bætur í greipar afbrotamannsins og oftar en ekki með litlum árangri. Nú eru slíkar bótagreiðslur á ábyrgð ríkisins sem síðan getur endurkrafið hinn dæmda og er eðlilega í betri stöðu til þess en tjónþoli. Enn er þó brotalöm í þessum efnum og þá fyrst og fremst þegar um er að ræða ofbeldi gagnvart börnum.
    Í skýrslu umboðsmanns barna frá 1997 um kynferðisafbrot gegn börnum og ungmennum er meðal annars fjallað um réttarstöðu barna og settar fram vel rökstuddar tillögur um lagabreytingar varðandi meðhöndlun kynferðisafbrotamála. Í skýrslunni er bent á að 6. gr. lag­anna um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota nái illa yfir kynferðisafbrot gegn börnum þannig að í raun eru þau í mörgum tilfellum útilokuð frá bótarétti. Ástæður þess eru nokkrar.
    Skýrslan vitnar í fjóra dóma í kynferðisbrotamálum. Þar féllu dómar í málum sem kærð voru sjö, átta, rúmum tveimur og sex árum eftir að brot voru framin (H1994:1874, H1995: 1631, H1996:2205, H1996:3940). Bótaréttur er í öllum þessum dómum útilokaður vegna núverandi ákvæðis 6. gr. laganna um að kæra þurfi að hafa borist innan tveggja ára frá því að brot var framið.
    Kynferðisafbrot gegn börnum eru oft framin á löngu tímabili og ómögulegt er að ætla börnum þá ábyrgð að gæta réttar síns. Oft er um misnotkun á trúnaðar- og tilfinningasam­bandi að ræða af hálfu brotamanna og því sérlega erfitt fyrir börn að rísa upp gegn þeim. Þar að auki er ekki óalgengt að börn verði fyrir beinum eða óbeinum hótunum frá brotamönnum. Að öllu samanlögðu gerir 6. gr. laganna eins og hún er nú orðuð óraunhæfar kröfur til barna sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi og því nauðsynlegt að breyta henni til þess að tilgangur laganna nái fram að ganga.
    Óumdeilt er að kynferðisbrot gegn börnum eru einhver ljótasti blettur á íslensku sam­félagi; það mat á að endurspeglast í íslenskum lögum. Því er sjálfsagt réttlætismál að þar sem ríkissjóður gengst í ábyrgð fyrir greiðslu á bótum til þolenda afbrota séu kynferðisbrot gegn börnum þar ekki undanskilin.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt 6. gr. núgildandi laga er það skilyrði fyrir bótagreiðslu að brot hafi án ástæðu­lauss dráttar verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns. Slík skilyrði eru ekki raunhæf þegar um er að ræða kynferðisafbrot gagn­vart börnum. Því er hér lögð til sú breyting á 6. gr. laganna að þessi skilyrði eigi ekki við þegar um slík brot er að ræða.

Um 2. gr.


    Með greininni er sú afstaða staðfest að kynferðisafbrot gagnvart börnum séu af þeim toga að þau verði að taka öðrum tökum en önnur afbrotamál. Brotaþolar í slíkum málum þurfi því ekki að uppfylla skilyrðið um kæru innan tveggja ára frá því að brot var framið. Ekki er heldur gert að skilyrði að brot af þessu tagi hafi verið kærð „án ástæðulauss dráttar“ eins og gildir um önnur brot, enda er það ákvæði til þess fallið að rýra rétt brotaþola til bóta í slíkum tilvikum.
    Árið 1998 var gerð sú breyting á almennum hegningarlögum að fyrningarfrestur í kyn­ferðisafbrotamálum gegn börnum telst frá þeim degi er brotaþoli nær 14 ára aldri (1. gr. laga nr. 63/1998). Frá 14 ára aldri brotaþola fyrnist síðan brotið á fimm, tíu eða fimmtán árum eftir alvarleika þess. Er þar um réttarbót að ræða frá fyrra ákvæði þar sem tillit er tekið til eðlis brotanna. Eðlilegast hefði verið að fresturinn miðaðist við sjálfræðisaldur, en fyrst þegar þeim aldri er náð er hægt að gera kröfu til ungmenna um fulla ábyrgð á eigin lífi. Í frumvarpinu er þó gert ráð fyrir sama fyrningarfresti og gert er í 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga til þess að gæta samræmis.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.