Ferill 509. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 821  —  509. mál.



Frumvarp til laga



um Háskóla Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



I. KAFLI
Hlutverk Háskóla Íslands.
1. gr.
Hlutverk.

    1. Háskóli Íslands skal vera vísindaleg rannsókna- og fræðslustofnun er veiti nemendum sínum menntun til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu.
    2. Háskóli Íslands skal einnig sinna endurmenntun þeirra sem lokið hafa háskólaprófi, miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar, allt eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum og öðrum reglum er gilda um skólann.

II. KAFLI
Stjórn Háskóla Íslands.
2. gr.
Stjórnskipulag háskólans.

    1. Háskóladeildir eru grunneiningar Háskóla Íslands. Um starfsemi deilda gilda ákvæði III. kafla laga þessara. Í Háskóla Íslands eru þessar deildir: Guðfræðideild, læknadeild, laga­deild, viðskipta- og hagfræðideild, heimspekideild, tannlæknadeild, verkfræðideild, raun­vísindadeild og félagsvísindadeild. Háskólaráð tekur ákvörðun um stofnun og niðurlagningu deilda. Leita skal umsagnar háskólafundar áður en deildir eru lagðar niður, nýjar stofnaðar eða aðrar breytingar gerðar á deildaskipan.
    2. Stjórn Háskóla Íslands er falin háskólaráði, háskólarektor og deildarfundum og deildar­forsetum. Í tengslum við stjórn háskólans er efnt til háskólafundar samkvæmt því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.
    3. Áður en lögum og reglum, er snerta háskólann eða háskólastofnanir, verður breytt eða við þau aukið skal leita umsagnar háskólafundar um breytingar eða viðauka, svo og um nýmæli. Nú varðar málefni sérstaklega eina deild og skal háskólaráð þá leita álits hennar áður en það lætur uppi umsögn sína. Varði mál sérstaklega háskólastofnun sem ekki heyrir undir deild skal háskólaráð leita álits hennar áður en það lætur uppi umsögn sína.
    4. Háskólaráð skal kveða nánar á um skipulag sameiginlegrar stjórnsýslu háskólans og stjórnsýslu deilda og stofnana. Leita skal umsagnar háskólafundar áður en slíkar reglur eru settar eða þeim breytt.

3. gr.
Hlutverk háskólaráðs.

    1. Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans. Háskólaráð fer með úrskurðar­vald í málefnum skólans og stofnana sem honum tengjast og fer með almennt eftirlit með starfsemi hans og rekstri samkvæmt því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum og regl­um settum með stoð í þeim.
    2. Háskólaráð hefur yfirumsjón með einstökum háskólastofnunum, fyrirtækjum, sjóðum og öðrum eignum háskólans.
    3. Háskólaráði er heimilt að stofna sérstaka rannsóknar- og þróunarsjóði. Skal um þá sett skipulagsskrá sem menntamálaráðherra staðfestir. Skipulagsskráin skal birt í B-deild Stjórn­artíðinda.

4. gr.


Skipan háskólaráðs.


    1. Í háskólaráði eiga sæti:
     1.      Rektor sem er sjálfkjörinn í ráðið og jafnframt forseti þess.
     2.      Fjórir fulltrúar kjörnir til tveggja ára úr hópi kennara í fullu starfi sem skipaðir eru eða ráðnir ótímabundið, og skal við kosningu þeirra gætt að því að einn fulltrúi sé af hverju eftirtalinna fræðasviða: hugvísindasviði, heilbrigðisvísindasviði, samfélagsvísindasviði og verkfræði- og raunvísindasviði.
     3.      Einn fulltrúi samtaka háskólakennara kjörinn til tveggja ára úr hópi kennara eða sérfræðinga í fullu starfi.
     4.      Tveir fulltrúar stúdenta kjörnir hlutfallskosningu til tveggja ára í sérstökum kosningum þar sem allir skrásettir stúdentar háskólans hafa kosningarrétt.
     5.      Tveir fulltrúar sem menntamálaráðherra skipar til tveggja ára í senn.
    2. Kjósa skal og tilnefna tvo varamenn fyrir hvern fulltrúa.
    3. Háskólaráð setur nánari reglur um kosningarrétt og kjörgengi, vægi atkvæða, undir­búning og framkvæmd kosninga kennara og stúdenta í ráðið. Leita skal umsagnar háskóla­fundar áður en slíkar reglur eru settar eða þeim breytt. Háskólaráðsfulltrúar kjósa úr sínum hópi varaforseta ráðsins.

5. gr.
Fundir háskólaráðs.

    1. Háskólaráð heldur fundi eftir þörfum. Æski helmingur fulltrúa í háskólaráði fundar er rektor skylt að boða til hans.
    2. Háskólaráð er ekki ályktunarfært nema sjö atkvæðisbærir háskólaráðsmenn sæki fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði rektors úr eða þess er gegnir forsetastörfum.
    3. Ef kjörinn háskólaráðsfulltrúi getur ekki sótt fund skal boða varamann hans til fundar­setu.
    4. Rektor boðar fundi háskólaráðs. Rita skal fundargerð. Háskólaráð setur reglur um undirbúning funda, fundarboð, fundarsköp, birtingu ákvarðana og annað er lýtur að starfs­háttum ráðsins og ekki er ákveðið í lögum þessum.

6. gr.
Rektor.

    1. Háskólarektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönn­um og stofnunum innan háskólans og utan. Hann hefur almennt eftirlit með allri starfsemi háskólans, þar með talið ráðningar- og fjármálum einstakra deilda og stofnana. Rektor á frumkvæði að því að háskólafundur marki heildarstefnu í málefnum háskólans. Á milli funda háskólaráðs fer rektor í umboði þess með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans.
    2. Rektor ræður starfslið sameiginlegrar stjórnsýslu háskólans og setur því erindisbréf eða starfslýsingar.
    3. Menntamálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs, að undangengnum almennum kosningum í háskólanum. Skal staðan auglýst laus til umsóknar. Háskólaráð setur reglur um hvernig staðið skuli að kosningu, tilnefningu og embættisgengi rektors. Leita skal umsagnar háskólafundar áður en slíkar reglur eru settar eða þeim breytt.

7. gr.
Hlutverk háskólafundar.

    1. Háskólafundur er samráðsvettvangur háskóladeilda og háskólastofnana. Háskólafundur vinnur að þróun og eflingu Háskóla Íslands og mótar og setur fram sameiginlega vísinda- og menntastefnu háskólans. Háskólaráð getur leitað umsagnar háskólafundar um hvaðeina sem varðar starfsemi háskólans og deilda hans.
    2. Háskólafundur er ályktunarbær um þau málefni sem honum eru falin samkvæmt lögum þessum eða reglum settum með stoð í þeim. Ályktanir háskólafundar skulu kynntar háskóla­ráði, rektor, deildarforsetum, forstöðumönnum háskólastofnana og öðrum þeim er þær kunna að varða. Ákvörðunum háskólaráðs eða annarra stofnana háskólans verður ekki skotið til háskólafundar.

8. gr.
Skipan háskólafundar.

    1. Á háskólafundi eiga sæti rektor og forsetar háskóladeilda. Þar sem eru 40 eða fleiri kennarar og sérfræðingar í fullu starfi í deild eða stofnunum sem heyra undir deild skal deildin eiga, auk deildarforseta, einn fulltrúa til viðbótar á háskólafundi og síðan einn full­trúa í viðbót fyrir hverja 40 starfsmenn í fullu starfi. Þá skal deild að auki eiga einn fulltrúa á háskólafundi úr hópi kennara eða þeirra sem gegna vísinda- og fræðistörfum í fullu starfi fyrir hverja 400 stúdenta sem skráðir eru til náms í deildinni tveimur mánuðum fyrir háskóla­fund. Fulltrúar deilda, aðrir en deildarforsetar, skulu kjörnir á deildarfundi. Auk framan­greindra eiga eftirtaldir aðilar sæti á háskólafundi, tilnefndir eða kjörnir til tveggja ára í senn: tveir fulltrúar samtaka háskólakennara kjörnir í skriflegri kosningu úr hópi félags­manna sem ekki gegna störfum deildarforseta, tveir fulltrúar starfsmanna við stjórnsýslu há­skólans kjörnir í skriflegri atkvæðagreiðslu, einn fulltrúi Landsbókasafns Íslands – Háskóla­bókasafns og tveir fulltrúar skipaðir af menntamálaráðherra. Auk þess skal eiga sæti á há­skólafundi einn fulltrúi samtaka stúdenta á móti hverjum fimm fulltrúum annarra aðila innan háskólans og skulu þeir kjörnir hlutfallskosningu í sérstökum kosningum til tveggja ára í senn.
    2. Rektor boðar háskólafund, er forseti hans og stýrir fundi. Ritari háskólaráðs er jafn­framt ritari háskólafundar.
    3. Háskólafund skal halda að minnsta kosti einu sinni á hverju missiri. Æski2/ 3hlutar fulltrúa á háskólafundi fundar er rektor skylt að boða til hans.
    4. Háskólafundur setur nánari reglur um skipan og fundarsköp háskólafundar. Í reglum skal m.a. kveða á um kosningu og setu fulltrúa annarra stofnana og samtaka á háskólafundi en þeirra sem taldir eru í 1. mgr. og um atkvæðisrétt þeirra.

III. KAFLI
Háskóladeildir og stofnanir.
9. gr.
Háskóladeildir og rannsóknastofnanir.

    1. Háskóladeildir eru grunneiningar háskólans. Innan þeirra fer fram kennsla, rannsóknir og stjórnun. Deildir eru sjálfstæðar um eigin málefni innan þeirra marka er sameiginlegar reglur háskólans setja. Reglubundið mat skal fara fram á starfsemi deilda í samræmi við ákvæði laga og reglna sem um það gilda.
    2. Við háskóladeildir er heimilt að starfrækja rannsóknastofnanir og rannsóknastofur sam­kvæmt nánari reglum sem háskólaráð setur. Háskóladeildum og stofnunum er heimilt að stunda þjónusturannsóknir og standa fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Hver deild eða rannsóknastofnun skal gera sérstakar samþykktir um slíkar þjónusturannsóknir og kennslu sem háskólaráð staðfestir.
    3. Hver deild semur kennsluskrá fyrir sig, og skal þar m.a. gerð grein fyrir skipan náms í deildinni, námsframvindu, hámarksnámstíma, prófgráðum, prófgreinum og prófkröfum, námskeiðum sem í boði eru og vægi þeirra, kennsluháttum, starfsþjálfun, missiraskiptingu, stjórn deildar og skiptingu í skorir og félagsmálum stúdenta. Árlega skal gefin út kennsluskrá fyrir háskólann í heild.

10. gr.
Stjórn deilda.

    1. Deildarfundur fer með ákvörðunarvald í málefnum hverrar deildar og er deildarforseti framkvæmdastjóri hennar. Deildarfundir geta framselt ákvörðunarvald sitt í einstökum málum eða málaflokkum til deildarráða. Deildarforseti á frumkvæði að mótun heildarstefnu fyrir deild, hefur eftirlit með starfi og stjórnsýslu deildar, ræður starfslið að stjórnsýslu hennar og ber ábyrgð á fjármálum deildar gagnvart háskólaráði og rektor.
    2. Háskólaráð setur nánari reglur um starfsemi deilda, stjórn þeirra, deildarráð, skiptingu deilda í skorir, námsnefndir, kjör deildarforseta og hlutverk þeirra og deildar- og skorarfundi. Leita skal umsagnar háskólafundar áður en slíkar reglur eru settar eða þeim breytt.

IV. KAFLI
Háskólakennarar og nemendur.
11. gr.
Háskólakennarar og sérfræðingar.

    1. Kennarar háskólans eru prófessorar, dósentar og lektorar, þar á meðal erlendir lektorar, aðjúnktar og stundakennarar. Kennara má ráða í hlutastarf í samræmi við reglur sem há­skólaráð setur. Heimilt er að tengja starf kennara tilteknu starfi utan háskólans eða starfi við stofnanir hans samkvæmt reglum sem háskólaráð setur.
    2. Heimilt er að ráða til háskólans eða stofnana hans fólk til vísinda- og fræðistarfa án kennsluskyldu. Skulu starfsheiti þeirra vera sérfræðingur, fræðimaður eða vísindamaður.
    3. Heimilt er að ráða kennara til háskólans tímabundinni ráðningu til allt að fimm ára. Um tilhögun slíkrar ráðningar skal háskólaráð setja reglur. Sama á við um þá sem eingöngu eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa.
    4. Háskólaráð setur almennar reglur um starfsheiti og starfsskyldur háskólakennara og þeirra sem ráðnir eru í starf sérfræðings, fræðimanns eða vísindamanns. Háskóladeild ákveður hvernig starfsskyldur einstakra kennara skulu skiptast. Háskólastofnun ákveður hvernig starfsskyldur sérfræðinga, fræðimanna og vísindamanna skulu skiptast samkvæmt þeim reglum sem háskólaráð eða deild hefur sett.
    5. Háskólaráð setur almennar reglur um leyfi kennara og þeirra sem ráðnir eru til vísinda- og fræðistarfa frá störfum, og skulu allar ákvarðanir deilda og stofnana um leyfi þeirra teknar á grundvelli slíkra almennra reglna.

12. gr.
Ráðning í kennara- og sérfræðingsstörf.

    1. Rektor ræður prófessora, dósenta, lektora, sérfræðinga, vísinda- og fræðimenn og for­stöðumenn háskólastofnana samkvæmt tillögu háskóladeildar eða stjórnar háskólastofnunar. Deildarforsetar ráða aðjúnkta, stundakennara og annað starfsfólk deildar og stofnana sem heyrir undir deild. Forstöðumaður háskólastofnunar sem ekki heyrir undir deild ræður annað starfsfólk stofnunar.
    2. Engan má ráða í starf prófessors, dósents, lektors, vísindamanns, fræðimanns eða sér­fræðings við háskólann eða háskólastofnun nema hann hafi lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafi jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Umsækjendur um þessi störf skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á starfssviði sínu. Hver háskóladeild eða háskólastofnun getur með samþykki háskólaráðs gert frekari mennt­unarkröfur.
    3. Rektor skipar þriggja manna dómnefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna kennarastarfi eða vísinda- og fræðistörfum. Háskólaráð tilnefnir einn nefndarmann, menntamálaráðherra annan og deild sú eða stofnun sem hann á að starfa við þann þriðja og skal hann jafnframt vera formaður dómnefndar. Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi eða hliðstæðu prófi úr háskóla. Háskólarektor skipar ritara dómnefnda sem fylgist með störfum nefndanna og er þeim til aðstoðar.
    4. Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það hvort ráða megi af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann sé hæfur til að gegna starfinu. Engum umsækjanda má veita starf nema meiri hluti dómnefndar hafi látið það álit í ljós að hann sé til þess hæfur að gegna því.
    5. Þegar álit dómnefndar liggur fyrir skal tillaga um veitingu starfsins ákveðin í samræmi við reglur hverrar deildar eða stofnunar sem háskólaráð hefur staðfest.
    6. Heimilt er, án auglýsingar, að flytja lektor í dósentsstarf, dósent í prófessorsstarf, sér­fræðing í starf fræðimanns og fræðimann í starf vísindamanns, enda liggi fyrir hæfnisdómur dómnefndar. Á sama hátt er heimilt, samkvæmt samkomulagi deildar og stofnunar, að flytja sérfræðinga, fræðimenn og vísindamenn í starf lektors, dósents eða prófessors, enda hafi þeir þá kennslu- og stjórnunarskyldu í deild.
    7. Háskólaráð setur nánari reglur um nýráðningar, auglýsingar um störf, umsóknir og meðferð þeirra, skipan og störf dómnefnda, framgang kennara, sérfræðinga og fræðimanna og tilflutning starfsmanna.
    8. Þegar sérstaklega stendur á getur háskólarektor, samkvæmt tillögu háskóladeildar og með samþykki háskólaráðs, boðið vísindamanni að taka við kennarastarfi við háskólann án þess að það sé auglýst laust til umsóknar.

13. gr.
Nemendur í Háskóla Íslands.

    1. Nemendur, sem hefja nám í Háskóla Íslands, skulu hafa lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu prófi frá erlendum skóla. Heimilt er að veita öðrum en þeim sem uppfylla fram­angreind skilyrði rétt til þess að hefja nám við háskólann ef þeir að mati viðkomandi deildar búa yfir hliðstæðum þroska og þekkingu og stúdentsprófið veitir. Háskólaráð skal setja sér­stakar reglur um rétt þeirra til að stunda nám við háskólann.
    2. Háskólaráð setur, að fenginni tillögu deildar, nánari reglur um inntöku stúdenta í ein­stakar námsgreinar í grunn- og framhaldsnámi. Í reglum þessum skal m.a. heimilt að binda aðgang að námsgreinum frekari skilyrðum um undirbúning en fram koma í 1. mgr. og tak­marka fjölda stúdenta í grunn- og framhaldsnám.
    3. Við skrásetningu til náms greiðir stúdent skrásetningargjald, 25.000 kr. Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan auglýstra skrásetningar­tímabila. Háskólaráði er heimilt að verja hluta skrásetningargjaldsins til Félagsstofnunar stúdenta.
    4. Þeir einir teljast stúdentar við Háskóla Íslands sem skrásettir hafa verið til náms. Í reglum sem háskólaráð setur má kveða nánar á um árlega skrásetningu stúdenta.
    5. Háskóladeild er heimilt að meta nám sem stúdent hefur stundað utan deildarinnar, þ.m.t. við aðra innlenda eða erlenda háskóla, sem hluta af námi við deildina.

V. KAFLI
Kennsla, próf o.fl.
14. gr.
Háskólaár og missiri. Námseiningar, kennsla og kennsluhættir.

    1. Háskólaráð setur reglur um lengd háskólaárs og skiptingu þess í kennslumissiri. Heimilt er að ákveða mismunandi missiraskiptingu fyrir einstakar deildir. Fyrirlestrar, æf­ingar og námskeið í háskóladeildum eru fyrir skrásetta stúdenta, en kennara er heimilt að veita öðrum kost á að sækja slíka kennslu nema háskóladeild mæli öðruvísi fyrir.
    2. Kennsla í Háskóla Íslands skal fara fram í námskeiðum sem metin eru í einingum. Fullt nám telst 30 einingar á námsári að jafnaði og endurspeglar alla námsvinnu nemenda og við­veru í kennslustundum og prófum. Háskólaráð skal setja almennar reglur um mat námskeiða til eininga. Einstakar deildir skulu setja sér almennar reglur um kennslu og kennsluhætti.

15. gr.
Prófgráður, próf, námstími o.fl.

    1. Háskólaráð skal setja reglur um prófgráður, prófgreinar, próftíma, prófdómara, endur­tekningu prófa, viðurkenningu erlendra prófa, skiptingu fullnaðarprófs í fleiri en einn hluta, undirbúningspróf, einkunnir og annað er að prófum lýtur. Heimilt er í reglum háskólaráðs að kveða á um hámarkstímalengd í námi eða einstökum hlutum þess og um afleiðingar ef þeim ákvæðum er ekki fullnægt. Háskólaráð skal enn fremur setja almennar reglur um meis­tara- og doktorsnám, svo og um vörn sérstakra doktorsritgerða.
    2. Háskólakennarar standa fyrir prófum, en hver deild ræður tilhögun prófa hjá sér að svo miklu leyti sem ekki eru sett bindandi ákvæði um það í lögum eða reglum háskólaráðs. Sam­eiginleg stjórnsýsla háskólans annast skipulag og framkvæmd prófa.
    3. Stúdent á rétt til að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Vilji stúdent, sem ekki hefur staðist próf, þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi deildarforseta. Skal þá próf­dómari skipaður í hverju tilviki. Einnig getur kennari eða meiri hluti nemenda, telji þeir til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi.
    4. Háskólarektor skipar prófdómara að fengnum tillögum háskóladeildar. Þá eina má skipa prófdómara sem lokið hafa viðurkenndu háskólaprófi í þeirri grein sem dæma skal og njóta viðurkenningar á starfssviði sínu. Prófdómarar skulu skipaðir til þriggja ára í senn nema skipun sé skv. 3. mgr.

16. gr.
Veiting doktorsnafnbótar.

    Háskóladeildir hafa rétt til að veita doktorsnafnbót. Slíka nafnbót má veita í heiðursskyni, að undangengnu sérstöku doktorsnámi eða með vörn sérstakrar doktorsritgerðar. Doktors­nafnbót í heiðursskyni verður ekki veitt nema með samþykki3/ 4hluta allra atkvæðisbærra deildarmanna og með samþykki háskólaráðs.

17. gr.
Agaviðurlög.

    Rektor getur veitt stúdent áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu ef hann hefur gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum háskólans eða framkoma hans gagnvart starfsmönnum háskólans eða öðrum stúdentum er ósæmileg eða óhæfileg. Áður en ákvörðun um brottrekstur er tekin skal leita umsagnar háskóladeildar og gefa stúdent kost á að tjá sig um málið. Stúdent er heimilt að skjóta ákvörðun rektors til áfrýj­unarnefndar samkvæmt lögum um háskóla. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar rektors. Rektor getur að hæfilegum tíma liðnum heimilað stúdent sem vikið hefur verið að fullu úr skóla að skrá sig aftur til náms í háskólanum ef aðstæður hafa breyst. Stúdent er heimilt að skjóta synjun rektors um skráningu til áfrýjunarnefndar.

VI. KAFLI
Ákvæði sem varða fjárhag, fyrirtæki og stofnanir.
18. gr.
Gjöld fyrir þjónustu.

    1. Háskóla Íslands skal heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Honum er enn fremur heimilt að taka gjöld fyrir endur­menntun og fræðslu fyrir almenning. Háskólaráð setur nánari reglur um gjaldtöku og ráð­stöfun gjalda samkvæmt ákvæði þessu.
    2. Háskólaráði er heimilt að semja við stúdentaráð Háskóla Íslands, önnur félög stúdenta, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir hönd Háskóla Íslands enda sé farið að ákvæðum í 30. gr. laga um fjár­reiður ríkisins.

19. gr.
Ársfundur Háskóla Íslands, stofnanir, aðild að fyrirtækjum o.fl.

    1. Háskóli Íslands skal árlega halda opinn ársfund þar sem fjárhagur skólans og megin­atriði starfsáætlunar hans eru kynnt. Háskólaráð skal setja reglur um fyrirkomulag ársfundar.
    2. Háskóla Íslands skal heimilt með samþykki menntamálaráðherra að eiga aðild að rann­sóknar- og þróunarfyrirtækjum er séu hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með tak­markaða ábyrgð og stunda framleiðslu og sölu í því skyni að miðla, hagnýta og þróa niður­stöður rannsókna- og þróunarverkefna sem háskólinn vinnur að hverju sinni. Háskólaráð fer með eignarhlut háskólans í slíkum fyrirtækjum. Jafnframt er háskólanum heimilt að starfrækja stofnanir sem eru á verksviði hans og heyra beint undir háskólaráð.
    3. Háskóla Íslands er heimilt að semja við aðrar stofnanir og fyrirtæki sem tengjast starfs­sviði skólans um kennslu, rannsóknir og ráðningu kennara og annarra starfsmanna.

VI. KAFLI
Birting reglna, gildistaka o.fl.
20. gr.
Birting reglna.

    1. Reglur þær, sem háskólaráð setur samkvæmt lögum þessum, skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda.
    2. Háskólaráð skal gefa út handbók sem hefur að geyma ákvæði gildandi laga og reglna sem á hverjum tíma eru í gildi fyrir Háskóla Íslands.

21. gr.
Gildistaka o.fl.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma að fullu til framkvæmda 1. maí 1999 og falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 131 31. desember 1990, um Háskóla Íslands, með síðari breyt­ingum, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða í lögum þessum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Innan tveggja ára frá gildistöku laga þessara skulu menntamálaráðherra og heilbrigðis­ráðherra hafa komið sér saman um reglur um starfstengsl prófessora læknadeildar við heil­brigðisstofnanir. Þar til slíkt samkomulag hefur náðst skulu gilda um það efni ákvæði 38. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990.
    Starfandi háskólaráð skal setja reglur til bráðabirgða um kosningarrétt, undirbúning og framkvæmd kosninga kennara og stúdenta í háskólaráð, sbr. 3. mgr. 4. gr. þessara laga, þannig að nýtt háskólaráð geti hafið störf eigi síðar en 1. maí 1999. Jafnframt setur starfandi háskólaráð reglur fyrir háskólafund um fundarsköp, sbr. 4. mgr. 8. gr., og ákveður hvenær háskólafundur verður fyrst kallaður saman. Þessar reglur skulu endurskoðaðar er nýtt há­skólaráð hefur verið skipað og háskólafundur hefur verið skipaður.
    Núverandi rektor Háskóla Íslands situr út yfirstandandi kjörtímabil sitt, en að því loknu skal skipa rektor til fimm ára skv. 6. gr. laga þessara.
    Ákvæði reglugerðar fyrir Háskóla Íslands, nr. 98/1993, með áorðnum breytingum, og þeirra reglna sem háskólaráð hefur sett gilda, að svo miklu leyti sem þau fara ekki gegn þessum lögum, þar til háskólaráð hefur sett nýjar reglur samkvæmt ákvæðum þessara laga. Hið sama gildir um reglugerðir háskólastofnana sem nú eru í gildi og settar hafa verið með stoð í gildandi lögum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í samvinnu menntamálaráðherra og háskólarektors. Af hálfu menntamálaráðherra unnu að samningu þess Gunnar Jóhann Birgisson hæstaréttarlögmaður og Þórunn J. Hafstein, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu, og af hálfu háskólarektors Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Þórður Kristinsson, framkvæmdastjóri kennslusviðs Háskóla Íslands. Komst hópur þessi að sameiginlegri niður­stöðu um drög að frumvarpi til laga um Háskóla Íslands. Voru drögin send háskólaráði til umsagnar 2. október 1998 og var veittur þriggja vikna umsagnarfrestur. Rektor Háskóla Ís­lands óskaði eftir að veittur frestur yrði framlengdur til 19. nóvember og var fallist á það af hálfu ráðuneytisins. Umsögn háskólaráðs barst með bréfi rektors, dags. 20. nóvember 1998. Í umsögn háskólaráðs voru lagðar til nokkrar breytingar á drögunum. Var frumvarpið yfir­farið í menntamálaráðuneytinu og því breytt í einstökum atriðum með hliðsjón af umsögn háskólaráðs. Efnisleg afstaða ráðuneytisins var kynnt háskólarektor á fundi hans og mennta­málaráðherra 26. nóvember 1998.

2. Markmið með endurskoðun laga um Háskóla Íslands.
    Með frumvarpi þessu er stefnt að því að samræma lög um Háskóla Íslands, nr. 131/1990, lögum um háskóla, nr. 136/1997, en samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í þeim lögum skulu háskólar, sem nú starfa, innan tveggja ára frá gildistöku þeirra laga aðlaga starfsemi sína þeim. Segir enn fremur að á þeim tíma skuli einnig lokið endurskoðun á löggjöf um starfsemi þeirra. Þá hefur við samningu frumvarps þessa verið höfð hliðsjón af nýsettum lögum um Kennaraháskóla Íslands, nr. 137/1997, og frumvarpi til laga um háskólann á Akureyri, sem lagt var fram á síðasta þingi.
    Lög nr. 136/1997, um háskóla, setja háskólastofnunum almennan ramma um stjórnsýslu og fjárveitingar ríkisins, auk þess sem sett eru fram meginskilyrði sem skólastofnun þarf að uppfylla til þess að geta talist háskóli. Í þessu frumvarpi er tekið mið af þessum ramma, en að auki er leitast við að koma til móts við þau sérstöku sjónarmið sem fram hafa komið innan Háskóla Íslands varðandi stjórn stofnunarinnar, en meginnýmæli frumvarpsins felast einmitt í tillögum um nýja skipan þeirra mála. Sjónarmið Háskóla Íslands í þessu efni koma einkum fram í samþykkt háskólaráðs frá 9. október 1997. Í samþykktinni er lögð áhersla á háskóla­fund þar sem fulltrúar helstu faggreina og hópa háskólasamfélagsins eiga sæti. Í sam­þykktinni var lagt til að háskólafundur yrði æðsta stjórn háskólans. Hér er komið til móts við þetta sjónarmið þannig að greint er á milli framkvæmdastjórnar og stefnumótunar. Fram­kvæmdastjórn og æðsta ákvörðunarvald eru falin háskólaráði en stefnumótun háskólafundi. Er þetta í megindráttum í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað víða í nágranna­löndum okkar.
    Auk þessa hefur verið tekið mið af ýmsum hugmyndum sem fram hafa komið í umræðum innan Háskóla Íslands um nýja löggjöf fyrir háskólann og enn fremur verið höfð hliðsjón af erlendri löggjöf um háskóla og umfjöllun um hana.

3. Breytt lagaumhverfi Háskóla Íslands.
    Lagaumhverfi Háskóla Íslands, eins og annarra stofnana ríkisins, hefur breyst mjög á undanförnum árum. Má þar nefna lög um háskóla, nr. 136/1997, sem fyrr eru nefnd, lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991, stjórnsýslulög, nr. 37/1993, upp­lýsingalög, nr. 50/1996, og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Þetta breytta lagaumhverfi kallar á endurskoðun laga um Háskóla Íslands, sbr. einkum ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 136/1997.
    Fyrstu lög um Háskóla Íslands eru frá árinu 1909, en háskólinn tók til starfa árið 1911. Háskóli Íslands á sér því nokkuð langa stjórnunarhefð sem markar honum ákveðna sérstöðu. Stjórnskipulag háskólans hefur mótast í tímans rás, en grundvallaratriði þess hafa frá upphafi tekið mið af þeirri aldalöngu hefð að háskóli er samfélag þar sem þekkingarleit og þekk­ingarmiðlun eru höfuðmarkmiðin. Kjarninn í starfsemi stofnunarinnar eru kennsla og rann­sóknir. Grunneiningar háskólans, vettvangur kennslu og rannsókna, eru deildirnar. Sjálfstæði Háskóla Íslands í innri málum hefur ávallt verið talið mikilvægt og það hefur jafnframt mótað stjórnkerfið sem einkennist af fulltrúalýðræði. Mikilvægustu ákvarðanir eru teknar af fjölskipuðu stjórnvaldi (deildarfundum, háskólaráði) sem menn tilheyra stöðu sinnar vegna eða í umboði hópa innan samfélagsins. Þetta stjórnskipulag hefur í meginatriðum ríkt frá stofnun háskólans. Í núverandi mynd er háskólaráð í senn vettvangur umræðu og ákvarð­ana allra deilda háskólans. Þar eru öll mál rædd sem nauðsyn ber til, ákvarðanir teknar í sameiginlegum málum og úrskurðað í ágreiningsmálum. Í þessu frumvarpi er byggt á þessum sjónarmiðum, en þau nánar útfærð með það í huga að skjóta frekari stoðum undir lýðræði innan stofnunarinnar um leið og leitast er við að auka hagkvæmni og skilvirkni í allri stjórn­sýslu. Þetta er m.a. gert með því að skilja á milli stefnumótunar, sem verður falin háskóla­fundi, og framkvæmdastjórnar og ákvarðanatöku sem verður falin háskólaráði, rektor, deild­um, deildarforsetum og sameiginlegri stjórnsýslu.
    Gildandi lög um Háskóla Íslands eru að meginstofni frá árinu 1957. Á þeim lögum hafa verið gerðar ýmsar breytingar, þær mestu árið 1990. Voru lögin þá gefin út aftur í heild sem lög nr. 131/1990. Með breytingunum 1990 var skipulagi hinnar almennu stjórnsýslu breytt nokkuð og sjálfstæði deildanna aukið. Grundvallaratriðið í stjórnskipulaginu, þ.e. bein tengsl deilda og háskólaráðs, þar sem deildarforsetar skipa háskólaráð, hefur hins vegar ekki breyst frá því að háskólinn var stofnaður. Í þessu frumvarpi er þó lagt til að þessu verði breytt að talsverðu leyti. Er gert ráð fyrir því annars vegar að fulltrúar deilda í háskólaráði verði aðeins fjórir í stað þess að deildarforsetar allra deilda eigi þar sjálfkrafa sæti og hins vegar að seta í háskólaráði verði ekki lengur bundin við deildarforseta. Styðjast þessar breytingar m.a. við lög um háskóla, nr. 136/1997, og hugmyndir sem settar voru fram í skýrslu þróunar­nefndar Háskóla Íslands frá árinu 1994 og í úttekt Hagsýslu ríkisins á stjórnsýslu háskólans frá árinu 1996.
    Markmið laga um háskóla, nr. 136/1997, sem tóku gildi 1. janúar 1998, er að festa í sessi skipan þess skólastigs sem tekur við af framhaldsskólastigi. Í lögunum eru sett fram þau meginskilyrði sem stofnun þarf að uppfylla til þess að geta talist háskóli og til þess að geta veitt háskólagráðu við námslok. Lögin kveða einnig á um fjárveitingar ríkisins til háskóla sem skulu ákveðnar á grundvelli fjárhags- og starfsáætlunar hvers skóla. Fram kemur að menntamálaráðherra er heimilt að gera samning við viðkomandi háskóla um þjónustu og verkefni og greiðslur ríkisins fyrir þau í þeim tilgangi að skólarnir taki á sig aukna rekstrar­ábyrgð. Slíkur samningur á að tryggja að námsframboð viðkomandi stofnunar sé í samræmi við vilja stjórnvalda og ákvarðanir þar að lútandi séu teknar á grundvelli heildaryfirlits um þörf fyrir háskólamenntun í landinu. Gera lög um háskóla ráð fyrir að skilgreindar verði almennar hlutlægar grundvallarreglur sem fjárveitingar til háskóla skulu taka mið af, sbr. 20. gr. laganna. Gerð sérstakra reiknireglna vegna fjárveitinga til háskóla er nú á lokastigi og munu þar mótaðar meginreglur um fjárveitingar ríkisins til háskóla. Lögin um háskóla byggja enn fremur á því, sbr. 2. mgr. 1. gr., að nánari reglur um starfsemi háskóla sé að finna í sérlögum, reglugerðum, starfsreglum, samþykktum eða skipulagsskrám fyrir einstaka háskóla. Í frumvarpi því sem varð að lögum um háskóla segir að lögunum sé eingöngu ætlað að innihalda einfaldar meginreglur um starfsemi háskóla. Í II. kafla laganna er að finna ákvæði sem varða kennara og nemendur og í III. kafla um fyrirkomulag kennslu. Þá er í IV. kafla að finna ákvæði um stjórn ríkisháskóla þar sem settar eru fram meginreglur um stjórn þeirra. Í 10. gr. kemur fram að yfirstjórn hvers háskóla sé falin háskólaráði, rektor, deildar­fundum, deildarráðum og deildarforsetum, ef skóla er skipt í deildir. Í 1. mgr. 11. gr. kemur fram að háskólaráð sé æðsti ákvörðunaraðili innan hvers skóla, nema annað sé berum orðum tekið fram í lögunum sjálfum eða í sérlögum um hvern skóla. Í IV. kafla er enn fremur að finna ákvæði um skipan háskólaráðs, skipun rektors og hlutverk hans og stöðu deilda í stjórn­sýslu háskóla. Í V. kafla er að finna ákvæði um fjárhag háskóla og í VI. kafla er ákvæði sem lýtur að samstarfi háskóla.
    Lög um háskóla eru rammalöggjöf um háskólastigið hér á landi. Í þessu frumvarpi er leitast við að samræma einstök ákvæði frumvarpsins þeim lögum. Jafnframt er byggt á þeirri umræðu sem átti sér stað innan háskólans árið 1997 um rammalöggjöf þessa og þýðingu hennar fyrir sérlög um Háskóla Íslands. Verður vikið nánar að ákvæðum laganna eftir því sem við á í athugasemdum við einstakar greinar.

4. Sjálfstæði Háskóla Íslands og flutningur verkefna frá menntamálaráðuneyti.
    Eitt af meginmarkmiðum frumvarps þessa er að auka sjálfstæði Háskóla Íslands og er það í samræmi við lög um háskóla, nr. 136/1997. Kemur það m.a. fram í því að lagt er til að háskólinn fái aukið vald til þess að setja sjálfur reglur um ýmis framkvæmda- og útfærslu­atriði, án atbeina menntamálaráðherra. Í samræmi við þetta er gert ráð fyrir að nokkrir mála­flokkar, sem nú heyra undir menntamálaráðuneyti, færist til Háskóla Íslands. Má þar sem dæmi nefna ráðningar í störf, en í frumvarpinu er lagt til að háskólarektor ráði alla kennara háskólans og flesta aðra starfsmenn. Með því fyrirkomulagi hverfur ráðningarvaldið frá menntamálaráðherra til háskólans. Þetta er í samræmi við markmið laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Þá er og gert ráð fyrir því í frumvarpinu að há­skólaráð setji ýmsar sameiginlegar reglur sem varða starfsemi skólans og reglur um starf­semi deilda innan háskólans að fenginni umsögn háskólafundar, en samkvæmt gildandi lög­um setur menntamálaráðherra í reglugerð ýmsar af þessum reglum. Eykur þetta fyrirkomulag að sama skapi sjálfstæði háskólans gagnvart öðrum stjórnvöldum og ætti að vera til þess fall­ið að stuðla að skilvirkni í starfi hans. Bent er á að í ákvæðum frumvarpsins um skipan háskólafundar og háskólaráðs er gert ráð fyrir að fulltrúar þjóðlífs fái beina aðild að stjórn­un háskólans. Þessi hugmynd tengist m.a. tillögum um aukinn flutning verkefna frá mennta­málaráðuneytinu til háskólans. Þykir eðlilegt samfara slíkum verkefnaflutningi og þar með auknu sjálfstæði háskólans að stjórnkerfi hans verði gert sýnilegra og opnara. Þá má geta þess að þetta fyrirkomulag hefur víða verið tekið upp erlendis og þótt gefa góða raun. Er í frumvarpinu lagt til að menntamálaráðherra skipi þessa fulltrúa. Hliðstætt ákvæði um þjóð­lífsfulltrúa er jafnframt að finna í 13. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997.
    Við samningu frumvarpsins er við það miðað að í lögum sé mælt fyrir um grundvallar­skipulag Háskóla Íslands, en eðlilegt er, þegar haft er í huga hversu stór stofnun hann er í íslensku samfélagi, að þær reglur hvíli á traustri lagastoð. Þá er gert ráð fyrir að settar séu í lög ýmsar af þeim reglum sem varða inntökuskilyrði, hvers konar gjaldtöku, próf og kæru­mál stúdenta, svo og agaviðurlög, en mikilvægt er að meginreglur sem þetta varða séu að einhverju marki bundnar í lögum þar sem þær varða mikilvæg grundvallaratriði í starfsemi háskólans og sum atriði sem ákvæði frumvarpsins taka til, t.d. framkvæmd prófa og eink­unnagjöf, valda oft ágreiningi. Að öðru leyti setur háskólinn sjálfur þær reglur sem starfa skal eftir. Frumvarp þetta felur þannig í sér tillögur um flutning verkefna í ríkum mæli frá ráðherra til háskólans sjálfs. Með vísan til þessara almennu sjónarmiða er til dæmis fallið frá því að lögbinda að ákveðið hlutfall af skrásetningargjaldi geti runnið til stúdentaráðs Há­skóla Íslands. Lögbinding reglu af því tagi bryti í bága við þá viðleitni að veita Háskóla Ís­lands umboð til að taka ákvarðanir um slíka ráðstöfun á fjármunum án afskipta löggjafans. Öðru máli gegnir um hlut Félagsstofnunar stúdenta í skrásetningargjaldinu, ákvæðið um það er í samræmi við forsendur fyrir starfi stofnunarinnar sem er að finna í lögum um þá stofnun. Í 18. gr. frumvarpsins eru ný ákvæði um gjöld fyrir þjónustu, þ.e. heimild Háskóla Íslands til að taka gjald fyrir þjónustu utan lögbundinnar skyldu og jafnframt um heimild fyrir háskólaráð til að semja við félög, fyrirtæki og stofnanir um að greiða þeim fyrir sérgreinda þjónustu.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að háskólaráð setji m.a. reglur um eftirfarandi, í sumum tilvikum að undangenginni umsögn háskólafundar: a) um skipulag stjórnsýslu deilda há­skólans og sameiginlegrar stjórnsýslu, sbr. 4. mgr. 2. gr., b) um deildarskiptingu háskólans, sbr. 1. mgr. 2. gr., c) um undirbúning og framkvæmd kosningar kennara og nemenda í há­skólaráð, sbr. 3. mgr. 4. gr., d) um umsóknir um starf rektors, embættisgengi og um fram­kvæmd kosningar, sbr. 3. mgr. 6. gr., e) um stjórn deilda, sbr. 2. mgr. 10. gr., og f) um starfs­heiti og starfsskyldur háskólakennara og um leyfi kennara og sérfræðinga frá störfum, sbr. 4. og 5. mgr. 11. gr. Upptalningin er ekki tæmandi.
    Af þessu má sjá að um fjöldamörg atriði, sem menntamálaráðherra skipar nú í reglugerð, er háskólaráði ætlað að setja nánari reglur án atbeina ráðherra. Það er í samræmi við það markmið frumvarps þessa að auka sjálfstæði Háskóla Íslands að hann setji sjálfur reglur af þessu tagi innan þeirra marka sem lög heimila. Margar af þeim reglum sem háskólaráði er ætlað að setja eru til nú þegar, ýmist í reglugerðum menntamálaráðuneytis eða reglum sem háskólaráð hefur samþykkt. Má reikna með að á þeim verði að verulegu leyti byggt í fram­tíðinni með þeim breytingum sem ný lög um Háskóla Íslands kunna að gera ráð fyrir. Lagt er til að háskólaráð geti ekki sett eða breytt reglum er varða grundvallaruppbyggingu há­skólans án þess að leita fyrst eftir umsögn háskólafundar. Er þannig ætlast til að umræða um slíkar reglur fari fram á háskólafundi þar sem flestir hagsmunaðilar og fagaðilar innan há­skólans eiga fulltrúa.

5. Breytingar á stjórnskipulagi Háskóla Íslands.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkuð róttækar breytingar á æðstu stjórn háskólans. Gert er ráð fyrir að hún verði falin háskólaráði og rektor eins og fyrr segir. Stjórn deilda verði aftur á móti í svipuðu horfi og nú. Einnig er lagt til að í tengslum við stjórn skólans starfi háskólafundur sem hefur með höndum stefnumótun í málefnum háskólans. Það er einkum rammalöggjöf sú sem fram kemur í lögum um háskóla, nr. 136/1997, og þær meginhug­myndir sem sú löggjöf er byggð á sem tekið er mið af við smíði þeirra tillagna sem fram koma í þessu frumvarpi. Enn fremur er hér tekið mið af samþykkt háskólaráðs frá 9. október 1997, sem fyrr er nefnd, og viðteknu stjórnskipulagi deilda þar sem deildarfundur er æðsta stofnunin og deildarráð eins konar framkvæmdastjórn.
    Í frumvarpinu er lagt til að háskóladeildir verði áfram grunneiningar Háskóla Íslands, sbr. nánar 1. mgr. 2. gr. og ákvæði III. kafla frumvarpsins. Með sama hætti er lagt til að áfram verði heimilt að skipta deildum í skorir, þar sem það á við, sbr. nánar 2. mgr. 10. gr.
    Ákvæðum um starfsemi deilda er skipað í III. kafla frumvarpsins, og er meginmarkmið hans að styrkja grunneiningar háskólans, bæði fjárhagslega og faglega, m.a. með því að færa ákvörðunarvaldið sem næst vettvangi þannig að sem flestum málum, sem varða daglega starfsemi, sé ráðið til lykta í grunneiningum stofnunarinnar. Áhersla á sjálfstæði deilda og deildir sem grunneiningar í starfsemi háskólans er eðlileg þar sem í deildum fer fram kjarni þess starfs sem er meginhlutverk háskólans, þ.e. rannsóknir og kennsla. Á sama hátt er í frumvarpinu lögð áhersla á aukið fjárhagslegt sjálfstæði deilda. Í því sambandi er m.a. bent á ákvæði 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að háskóladeildum og rannsóknastofnunum sé heimilt að stunda þjónusturannsóknir og standa fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning gegn endurgjaldi, sbr. 18. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að hver deild setji sér sérstakar samþykktir um slíkar rannsóknir og kennslu sem háskólaráð staðfestir, m.a. um ráðstöfun tekna af slíkri starfsemi. Með þessu skapast svigrúm fyrir deildir til þess að afla sértekna og nýta þær eins og best samrýmist þörfum deildarinnar hverju sinni um leið og komið er til móts við þarfir samfélagsins fyrir fræðslu og menntun.
    Eins og fyrr segir eru í frumvarpi þessu lagðar til breytingar á æðstu stjórn háskólans sem í senn er ætlað að þjóna þeim markmiðum að auka lýðræði í stefnumótun og skilvirkni í dag­legum rekstri. Gert er ráð fyrir að sett verði á fót ný stofnun sem beri heitið háskólafundur. Háskólafundi er ætlað tvenns konar hlutverk, annars vegar stefnumótun í sameiginlegum málefnum háskólans og hins vegar að veita umsögn þegar meginreglur er varða stjórnskipu­lag háskólans eru settar. Framkvæmd stefnunnar sem háskólafundur mótar og dagleg fram­kvæmdastjórn háskólans verði í höndum háskólaráðs, rektors og sameiginlegrar stjórnsýslu. Háskólaráð verði fámennara en nú er. Háskólafundur verður eins konar þing háskólamanna þar sem saman koma fulltrúar einstakra deilda og stofnana háskólans, auk fulltrúa starfs­manna stjórnsýslunnar, stúdenta og þjóðlífs. Gert er ráð fyrir að háskólafundur komi saman í það minnsta einu sinni á hverju kennslumissiri og er miðað við að settar verði reglur um undirbúning hans, hvernig mál skuli fyrir hann lögð, rædd þar og afgreidd. Reglum þessum er ætlað að stuðla að vandaðri málsmeðferð og virku starfi háskólafundar. Á þessu þingi oddvita háskólasamfélagsins mætast á einum stað sjónarmið allra faggreina og hópa háskólasamfélagsins. Með þessu er m.a. komið til móts við óskir sem uppi hafa verið innan háskólans um að fjölga þurfi í háskólaráði frá því sem nú er til þess að oddvitar allra kennslugreina og hópa geti átt þar fulltrúa og tekið þátt í að móta stefnu og eiga aðild að ákvörðunum þess. Reglur 8. gr. frumvarpsins um skipan háskólafundar eru í samræmi við þetta.
    Hlutverk háskólafundar er nánar rakið í 7. gr. Af því ákvæði er ljóst að honum er fyrst og fremst ætlað að vinna að þróun Háskóla Íslands og stefnumótun í innri málefnum hans. Háskólafundi er aftur á móti ekki ætlað að fara með stjórnsýslulegt úrskurðarvald. Gert er ráð fyrir að með samþykktum sínum um stefnumörkun móti háskólafundur stefnu þá sem háskólaráði og rektor er ætlað að taka mið af.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að háskólaráð verði æðsta framkvæmdastjórn háskólans, ásamt rektor. Háskólaráð fer með æðstu stjórn í rekstri háskólans, sbr. nánar ákvæði 3. gr. frumvarpsins.
    Í samræmi við það sem fram kemur í 13. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997, er lagt til að háskólaráð verði nokkru fámennara en það sem nú starfar og þar verði ekki fleiri en 10 full­trúar. Er þetta m.a. byggt á því að með fámennara háskólaráði megi frekar stuðla að skil­virkni í starfi þess, en gert er ráð fyrir skýrri verkaskiptingu milli þess og háskólafundar. Í 4. gr. frumvarpsins er að finna reglur um skipan háskólaráðs. Gert er ráð fyrir að fagsvið, sem nokkrar deildir mynda saman, eigi fulltrúa í háskólaráði, ásamt fulltrúum þjóðlífs og stúdenta. Nánar verður vikið að skipan háskólaráðs í athugasemdum við 4. gr.

6. Önnur atriði.
     a.      Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að lög um Háskóla Íslands verði mun styttri en gildandi lög. Miðað er við að í lögum verði eingöngu að finna helstu grundvallarreglur um stjórnskipulag, stjórnsýslu, starfslið og nemendur skólans, en fyrirmæli um nánari útfærsluatriði verði að finna í reglum sem háskólaráð setur. Í sumum tilvikum er gert ráð fyrir umsögn háskólafundar áður en slíkar reglur eru settar eða þeim breytt.
     b.      Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðningar starfsfólks verði alfarið í höndum háskólans sjálfs, sbr. nánar ákvæði 12. gr. frumvarpsins, sbr. einnig 6. og 10. gr. Þetta er í sam­ræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
     c.      Ákvæði um skipun rektors og kosningu eru löguð að lögum um háskóla, nr. 136/1997, sbr. einkum 14. gr. þeirra laga. Þó er gert ráð fyrir að háskólaráð setji, að fenginni um­sögn háskólafundar, reglur um tilnefningu rektors og embættisgengi.
     d.      Sett eru skýrari ákvæði um inntökuskilyrði, sbr. 13. gr. Þau eru í samræmi við ákvæði laga um háskóla, nr. 136/1997, sbr. einkum 6. gr. þeirra.
     e.      Í lögum nr. 136/1997, um háskóla, er nákvæmlega tilgreint hvernig fjárveitingar til háskóla skulu ákvarðaðar. Gilda reglur þessar, sbr. 19.–23. gr. laganna, um Háskóla Íslands eins og aðra háskóla í landinu og er því ekki að finna sérstök ákvæði um fjár­veitingar í þessu frumvarpi.
     f.      Sett eru skýrari ákvæði um þjónustusamninga og aðild að fyrirtækjum en nú gilda, sbr. 2. mgr. 19. gr.
     g.      Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Háskóli Íslands hafi heimild til þess að semja við aðrar stofnanir og fyrirtæki sem tengjast starfssviði skólans, um kennslu, rannsóknir og ráðningu kennara og annarra starfsmanna, sbr. 3. mgr. 19. gr. og einnig 1. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 9. gr. Háskólinn hefur haft heimild til þess að gera slíka samninga við stofn­anir og hefur það gefist vel. Með frumvarpinu er lagt til að heimild þessi verði rýmkuð þannig að háskólanum verði einnig heimilt að semja við fyrirtæki og enn fremur til þess að gera samstarfssamninga um ráðningu kennara. Er það í samræmi við þá þróun sem orðið hefur á þessu sviði.

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í kaflanum er að finna ákvæði um hlutverk Háskóla Íslands. Lögð er áhersla á að Háskóli Íslands sé bæði vísindaleg rannsóknastofnun og fræðslustofnun, sbr. 1. mgr. 1. gr. Enn fremur er áréttað hlutverk Háskóla Íslands varðandi endurmenntun og kveðið á um þjónustu háskólans við þjóðfélagið í krafti þekkingar sinnar.

Um 1. gr.


    Ákvæði 1. mgr. greinarinnar er að efni og orðalagi samhljóða 1. gr. gildandi laga um Háskóla Íslands, sbr. einnig 2. málsl. 2. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997.
    Ákvæði 2. mgr. er nýtt miðað við gildandi lög. Þar er tekið af skarið um að það sé hlutverk Háskóla Íslands að sinna endurmenntun, almenningsfræðslu og þjónusturannsóknum innan þeirra marka sem samkeppnisreglur heimila. Endurmenntun og almenningsfræðsla hefur á undanförnum árum í reynd verið vaxandi í starfsemi háskólans, einkum á vettvangi Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands. Með ákvæði 2. mgr. 1. gr. er treystur lagagrund­völlur undir þennan mikilvæga þátt í starfsemi hans. Þá hafa stofnanir háskólans í vaxandi mæli fengist við þjónusturannsóknir, þ.e. rannsóknir sem unnar eru eftir beiðni aðila utan háskólans, hvort sem það eru opinberar stofnanir eða einkaaðilar. Mikilvægt er að treysta lagagrundvöll undir þessa starfsemi. Ákvæði um endurmenntunarhlutverk háskólans kemur í stað 4. mgr. 36. gr. gildandi laga um Háskóla Íslands.

Um II. kafla.


    Í þessum kafla er fjallað um stjórnskipulag Háskóla Íslands. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum í greinargerðinni hér að framan er gert ráð fyrir töluverðum breyt­ingum á æðstu stjórn háskólans. Er hér um að ræða ein mikilvægustu nýmæli frumvarpsins. Áréttað skal að tillögur þær sem fram koma í frumvarpinu taka mið af lögum um háskóla, nr. 136/1997, auk þess sem komið er á móts við samþykkt háskólaráðs frá 9. október 1997.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. segir að háskóladeildir séu grunneiningar Háskóla Íslands. Þetta er sama grund­vallarregla og fram kemur í 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. gildandi laga. Löng hefð er fyrir að skilgreina deildir sem grunneiningar Háskóla Íslands og er hér lagt til að svo verði áfram. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er eitt af markmiðum frumvarpsins að treysta sjálfstæði þessara grunneininga háskólans bæði faglega og fjárhagslega. Í III. kafla frum­varpsins er að finna nánari ákvæði um starfsemi deilda, en rétt þykir að setja hér fram þessa mikilvægu grunnreglu í stjórnskipan háskólans. Lagt er til að háskólaráð geti, að fenginni umsögn háskólafundar, breytt deildarskipan, þ.e. stofnað nýjar deildir eða lagt deildir niður. Með þessu er sjálfstæði háskólans aukið og honum veitt aukið svigrúm til þess að laga starf­semi sína að breyttum aðstæðum hverju sinni.
    Í 2. mgr. er lýst stjórnskipulagi Háskóla Íslands. Ákvæðið felur í sér mikilvæga breytingu frá gildandi lögum. Lagt er til að æðsta stjórn háskólans sé falin háskólaráði, háskólarektor og deildarfundum og deildarforsetum. Jafnframt er lagt til að í tengslum við stjórn háskólans starfi háskólafundur. Með þessu orðalagi er háskólafundi fengið ákveðið vægi við mótun háskólastarfsins. Um háskólafund og háskólaráð og önnur atriði sem lúta að breytingum á æðstu stjórn Háskóla Íslands er vísað til almennra athugasemda í greinargerð þessari.
    Í 3. mgr. kemur fram að áður en lögum og reglum er snerta háskólann er breytt skuli leita umsagnar háskólafundar. Þetta ákvæði er sambærilegt við 7. mgr. 2. gr. gildandi laga, nema hér er það háskólafundur sem veitir umsögnina, en ekki háskólaráð. Er það í samræmi við skilgreint hlutverk háskólafundar samkvæmt frumvarpinu. Ef málefni varðar einkum eina deild skal leita álits hennar sérstaklega. Ef málefni varðar háskólastofnun sem ekki heyrir undir deild á að leita álits stofnunarinnar.
    Samkvæmt ákvæðum 4. mgr. skal háskólaráð setja reglur um skipulag almennrar stjórn­sýslu háskólans, að fenginni umsögn háskólafundar. Í þeim skal kveða nánar á um verka­skiptingu háskólafundar, háskólaráðs og rektors og jafnframt um skipulag almennrar stjórn­sýslu háskólans og stjórnsýslu deilda og stofnana. Þar verði enn fremur kveðið á um ábyrgð, vald og verkaskiptingu milli háskólaráðs, rektors, deildarfunda, deildarforseta, deildarráða, skora og skorarformanna. Er með því horfið frá því fyrirkomulagi að lögbinda skipulag hinn­ar sameiginlegu stjórnsýslu skólans eins og nú er. Þykir hentugra að hægt sé að breyta skipu­lagi hennar án þess að lagabreyting þurfi að koma til.

Um 3. gr.


    Í greininni ræðir um hlutverk háskólaráðs. Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan há­skólans og fer með æðsta úrskurðarvald í málefnum hans. Háskólaráð fer með framkvæmda­stjórn háskólans, auk þess sem það á að hafa almennt eftirlit með starfsemi og rekstri hans, sbr. nánar ákvæði 1. mgr. Ákvarðanir háskólaráðs, í þeim málefnum sem ráðinu eru falin í lögum, eru endanlegar.
    Í 2. mgr. er að finna nánari ákvæði um hlutverk háskólaráðs, en meginhlutverk þess er að annast daglega framkvæmdastjórn ásamt rektor, að svo miklu leyti sem hún er ekki falin deildunum sjálfum eða stofnunum háskólans. Ekki þykir ástæða til að rekja hlutverk háskóla­ráðs lið fyrir lið í lagatextanum sjálfum, enda gert ráð fyrir að háskólaráð sjálft setji nánari reglur um hvernig það rækir hlutverk sitt, sbr. 4. mgr. 2. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. er ákvæði um að háskólaráði sé heimilt að stofna sérstaka rannsóknar- og þróun­arsjóði sem starfi samkvæmt skipulagsskrá sem menntamálaráðherra staðfestir. Þetta er hlið­stætt 5. mgr. 10. gr. laga um Kennaraháskóla Íslands, nr. 137/1997.

Um 4. gr.


    Í greininni er fjallað um skipan háskólaráðs. Í 1. mgr. kemur fram að í háskólaráði sitji tíu fulltrúar. Þetta er í samræmi við ákvæði IV. kafla laga um háskóla, nr. 136/1997, sbr. einkum 13. gr. Þar kemur fram að rektor er sjálfkjörin til setu í háskólaráði. Auk rektors eiga sæti í háskólaráði fjórir fulltrúar ótímabundið ráðinna kennara, einn fulltrúi samtaka há­skólakennara, tveir fulltrúar samtaka stúdenta og tveir fulltrúar menntamálaráðherra. Ákvæðið er að því leyti frábrugðið 13. gr. laga nr. 136/1997 að allir kennarar í fullu starfi, þar með taldir deildarforsetar, eru kjörgengir í háskólaráð. Þó er vakin athygli á þeirri meg­instefnu sem fram kemur í þeim lögum, að deildarforsetar sitji ekki í háskólaráði.
    Tekið er fram að við kosningu fulltrúa kennara í háskólaráð skuli að því gætt að einn full­trúi sé af hverju eftirtalinna fræðasviða: hugvísindasviði, heilbrigðisvísindasviði, samfélags­vísindasviði og verkfræði- og raunvísindasviði. Sama gildir um kjör varamanna þeirra. Þessi regla á að stuðla að því fulltrúar mismunandi fræðasviða eigi fulltrúa í háskólaráði og að með því megi treysta samfellu í starfi háskólans og tryggja þar faglega þekkingu á málefnum deilda. Kjörtímabil, annarra en rektors, er óbreytt frá því sem nú er, eða tvö ár.
    Í 3. mgr. eru ákvæði um að háskólaráð setji nánari reglur um kosningarrétt og kjörgengi, undirbúning og framkvæmd kosningar kennara og stúdenta. Gert er ráð fyrir að binda megi kosningarrétt og vægi atkvæða að einhverju eða öllu leyti við ákveðið starfshlutfall.

Um 5. gr.


    Í 1. mgr. greinarinnar ræðir um fundi háskólaráðs. Ákvæði greinarinnar eru að mestu samsvarandi þeim sem fram koma í 5. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Í greininni er að finna almennt ákvæði um hlutverk rektors. 1. mgr. er samsvarandi 3. mgr. 2. gr. gildandi laga um Háskóla Íslands. Þar er sett fram sú regla að rektor sé yfirmaður sameiginlegrar stjórnsýslu háskólans og að hann sé æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan.
    Í 2. mgr. kemur fram að rektor ræður starfslið sameiginlegrar stjórnsýslu háskólans og setur því erindisbréf eða starfslýsingar. Þá er rétt að nefna að í 1. mgr. 12. gr. kemur fram að háskólarektor ræður prófessora, dósenta og lektora. Samkvæmt þessu er hlutverk rektors við mannaráðningar aukið frá því sem gildandi lög gera ráð fyrir. Þetta er í samræmi við fyrirmæli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sbr. einkum 42. gr.
    Ákvæði 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins felur í sér verulegar breytingar frá því sem gert er ráð fyrir í gildandi lögum. Í 1. mgr. 3. gr. gildandi laga er gengið út frá því að rektor Háskóla Íslands sé kjörinn til starfans. Í 14. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997, er mælt svo fyrir að menntamálaráðherra skipi rektor til fimm ára í senn samkvæmt tilnefningu viðkomandi háskólaráðs eftir nánari ákvæðum í sérlögum um hvern skóla. Í 23. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi skyldur starfsmanna ríkisins, er jafnframt gert ráð fyrir því að embættismenn ríkisins séu skipaðir til fimm ára í senn. Í samræmi við þetta er tekið fram í 3. mgr. 6. gr. frum­varpsins að menntamálaráðherra skipi rektor til fimm ára í senn samkvæmt tilnefningu há­skólaráðs, að undangenginni kosningu í háskólanum. Enn fremur er í samræmi við ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 14. gr. laga um háskóla gert ráð fyrir að starfið sé auglýst til umsóknar. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að háskólaráð, að fenginni umsögn háskólafundar, setji reglur um hvernig skuli staðið að kosningu, tilnefningu og embættisgengi rektors. Þannig er ótvírætt, samkvæmt lagagreininni, að tilnefning í embætti rektors ræðst af almennum kosningum í háskólanum.

Um 7. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um hlutverk háskólafundar. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum hér að framan er miðað við að háskólafundur hafi einkum tvenns konar hlut­verki að gegna, sbr. og 1. mgr.: Annars vegar vinnur hann að þróun og eflingu háskólans, tryggir samráð og samstarf deilda og mótar heildarstefnu í málefnum háskólans í samráði við rektor og háskólaráð. Hins vegar veitir hann umsögn um meginreglur er varða innri starfsemi háskólans í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum. Framkvæmdastjórn er aftur á móti í höndum háskólaráðs, rektors, deildarfunda og deildarforseta og fer háskólaráð með æðstu framkvæmdastjórn í málefnum háskólans.
    Í 2. mgr. er tekið fram að háskólafundur sé ályktunarbær um þau málefni sem honum eru falin samkvæmt frumvarpinu. Sérstaklega er áréttað að ekki er ætlunin að háskólafundur fari með stjórnsýslulegt úrskurðarvald. Í frumvarpinu er lagt til að háskólafundur starfi í tengslum við stjórn skólans. Ástæða er þó til að leggja sérstaka áherslu á að háskólafundi er ekki ætlað að vera nýtt stjórnsýslustig innan háskólans sem taki við málum til afgreiðslu sem verið hafa til umfjöllunar og afgreiðslu í deild eða háskólaráði. Háskólafundur á að vera þing háskólasamfélagsins byggt á breiðum lýðræðislegum grundvelli sem á að tryggja að öll hin ólíku sjónarmið og ólíku hagsmunir einstakra fræðigreina innan háskólans fái að komast að og að tillit verði tekið til þeirra við grundvallarstefnumótun í starfi háskólans og við setn­ingu sameiginlegra reglna.

Um 8. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði um skipan háskólafundar. Miða þau að því að tryggja full­trúum mismunandi greina, fræðasviða og hópa innan háskólans hlutdeild í stefnumótun og ákvörðunum háskólafundar. Við ákvörðun á fjölda fulltrúa einstakra deilda er annars vegar tekið mið af fjölda fastra kennara eða sérfræðinga í deild eða stofnunum sem heyra undir þær og hins vegar af fjölda stúdenta í deild. Við það er miðað að samsetning háskólafundar endurspegli áherslur í starfi háskólans og stærð einstakra deilda. Háskólafundur setur nánari reglur um skipan og fundarsköp, sbr. 4. mgr. Þar er heimild til að gefa fleirum kost á setu á fundunum. Að öðru leyti gefa reglur 8. gr. ekki tilefni til sérstakra athugasemda.

Um III. kafla.


    Í þessum kafla er að finna ákvæði sem lúta að skiptingu háskólans í deildir og við það miðað að deildir háskólans séu grunneiningar hans, sbr. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Miða ákvæði kaflans að því að treysta faglegt og stjórnunarlegt sjálfstæði deilda.

Um 9. gr.


    Í 1. mgr. greinarinnar kemur fram sama mikilvæga meginregla og í 1. mgr. 9. gr. gildandi laga, þ.e. að háskóladeildir séu grunneiningar Háskóla Íslands. Ástæðan er sú að í deildum fer meginstarfsemi háskólans fram, þ.e. kennsla og rannsóknir. Löng hefð er fyrir þessari skipan, allt frá lögunum um stofnun Háskóla Íslands 30. júlí 1909, enda er þetta ein af stoðum sjálfræðis deildanna um fræðileg málefni, kennslu og rannsóknir (akademískt frelsi) og stjórnun. Í 1. mgr. er því einnig kveðið á um sjálfræði deilda um eigin málefni innan þeirra marka, sem sameiginlegar reglur háskólans setja. Ákvæði um reglubundið mat er óbreytt frá gildandi lögum.
    Í 2. mgr. er ákvæði um rannsóknastofur og rannsóknastofnanir, og er háskólaráði ætlað að setja þar um sérstakar reglur. Þessar reglur liggja fyrir að hluta, sbr. tillögu að ramma­reglugerð um stofnanir við deildir háskólans frá 18. desember 1997. Jafnframt er deildum og stofnunum, samkvæmt samþykktum sem háskólaráð staðfestir, heimilt að stunda þjónustu­rannsóknir og standa fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Í 18. gr. frumvarpsins er síðan að finna heimild til þess að taka gjald fyrir slíka þjónustu og kennslu. Með þessum ákvæðum er fengin skýr lagastoð fyrir starfsemi af þessu tagi sem skapar deildum nokkurt svigrúm til að afla sértekna og nýta þær eins og best samrýmist hagsmunum og þörfum deildarinnar eða stofnunarinnar hverju sinni.
    Í 3. mgr. er ákvæði um kennsluskrá og efni hennar. Það er að mestu leyti samhljóða 1. málsl. 16. gr. gildandi laga, en efnisatriðum sem eiga saman og eru á öðrum stöðum í gild­andi lögum, er bætt við upptalninguna, þ.e. skipan náms, námsframvindu, hámarksnámstíma, prófgráðum og prófgreinum.

Um 10. gr.


    Í 1. mgr. greinarinnar er mælt svo fyrir að stjórn deilda sé í höndum deildarfundar og að deildarforseti sé framkvæmdarstjóri í málefnum deildar. Þar er enn fremur áréttað að deildarforsetar eru yfirmenn stjórnsýslu deilda. Í greininni er verksvið deildarforseta skilgreint. Með þessu er lögð áhersla á leiðandi hlutverk deildarforseta við stefnumótun og áréttuð ábyrgð hans.
    Í gildandi lögum eru nokkuð ítarleg ákvæði um stjórn deilda. Í frumvarpi þessu er miðað við að ekki þurfi að lögfesta ítarlegar reglur um stjórn þeirra. Við það er miðað að háskóla­ráð setji reglur um stjórn deilda, deildarráð, skiptingu deilda í skorir, námsnefndir, kjör deildarforseta og kjörgengi og hlutverk, og deildar- og skorarfundi o.fl. Verður í slíkum reglum m.a. stefnt að því markmiði að auka sjálfstæði deilda í eigin málefnum. Ótvírætt er sem fyrr að deildarfundur er æðsta yfirstjórn deildar, sbr. 1. mgr. 10. gr., og því verða til­lögur til háskólaráðs um mikilvæg málefni er varða deild, t.d. um skorarskiptingu deildar, undirbúnar og ákveðnar í deild, sbr. einnig ákvæði 4. mgr. 2. gr.

Um IV. kafla.


    Í kaflanum er fjallað um háskólakennara og sérfræðinga og hvernig ráðningu þeirra er háttað. Eitt mikilvægasta nýmæli kaflans er að mannaráðningar eru í auknum mæli færðar til háskólarektors.

Um 11. gr.


    Í 1. málsl. 1. mgr. er skilgreining á því hverjir eru háskólakennarar, og er hann samhljóða 1. mgr. 10. gr. gildandi laga. Í 2. málsl. er tekið fram að háskólakennara og sérfræðinga megi ráða í hlutastarf í samræmi við reglur sem háskólaráð setur. Áhersla er á það lögð að um heimildarákvæði er að ræða sem vanda verður til um framkvæmd. Gera verður ráð fyrir að gætt sé sambærilegra hæfniskrafna og gerðar eru til þeirra sem gegna fullu starfi.
    Í 3. málsl. 1. mgr. er ákvæði um að heimilt sé að tengja starf háskólakennara og sér­fræðinga tilteknu starfi utan háskólans samkvæmt reglum sem háskólaráð setur. Heimildin er ekki bundin við, eins og í gildandi 2. mgr. 10. gr., að þar sé um að ræða tengsl við störf hjá opinberum stofnunum eingöngu. Þessi breyting er nauðsynleg til að auka svigrúm háskólans til að tengjast fleiri aðilum utan hans, enda vinnur háskólinn markvisst að því að tengja kennslu- og rannsóknastarfsemi sína atvinnulífi og annarri rannsóknastarfsemi í landinu. Ein leið til þessa hefur verið að fá til samstarfs sérfræðinga sem starfa á opinberum stofnunum utan háskólans og er algengast að sérfræðingar séu ráðnir sem stundakennarar. Æskilegra er þó í mörgum tilvikum að sérfræðingarnir og stofnun þeirra tengist háskólanum nánar og þeir séu með samkomulagi við stofnunina ráðnir til að gegna hlutastarfi dósents eða lektors með aðalstarfi sínu. Kostur við þetta ráðningarform er að sérfræðingarnir taka þá þátt í störfum deilda og eiga greiðari leið til að veita stúdentum aðgang að þeirri aðstöðu og sérþekkingu sem stofnun þeirra ræður yfir en er ef til vill ekki fyrir hendi hjá háskólanum sjálfum. Þetta hefur einkum verið gert í læknadeild þar sem sérfræðingar úr heilbrigðiskerfi sem gegna slíkum hlutastörfum eru rúmlega 50 talsins. Í öðrum deildum hefur þetta ráðn­ingarform verið nokkuð notað í viðskipta- og hagfræðideild og verkfræðideild og vaxandi áhugi er á fjölgun slíkra ráðninga eftir því sem háskólamenntuðum sérfræðingum fjölgar í stofnunum og fyrirtækjum og auðveldara verður að eiga samskipti með bættum samgöngum og fjarskiptum. Breytingin frá gildandi lögum, sem hér er lögð til, er til að heimila að slíkir sérfræðingar séu sóttir til allra innlendra stofnana og fyrirtækja sem ráða yfir eftirsóknar­verðri þekkingu og reynslu, auk þess sem æskilegt getur verið að sækja sérfræðinga til erlendra háskóla og stofnana. Meðan uppbygging kennslu var skammt á veg komin og prófessorar fáir þótti ekki rétt að heimila hlutastörf prófessora. Nú er hins vegar tímabært að heimila slíka ráðningu og nýta sér ágæta reynslu sem fengist hefur af því ráðningarformi, m.a. í Noregi.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að heimilt verði að ráða til stofnana háskólans fólk sem sinni vísinda- og fræðistörfum án kennsluskyldu. Er staða þeirra í flestu tilliti hin sama og staða háskólakennara, að öðru leyti en því að þeir hafa ekki kennsluskyldu eða stjórnunarskyldu í deild.
    Í 3. mgr. er lagt til að heimilt sé að ráða kennara og aðra til vísinda- og fræðistarfa tíma­bundinni ráðningu til allt að fimm ára í senn samkvæmt nánari reglum sem háskólaráð setur. Hliðstætt ákvæði um dósenta og lektora er í 4. mgr. 10. gr. gildandi laga. Heimild frumvarps­greinarinnar til tímabundinnar ráðningar er rýmri en heimild 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að því leyti til að í því lagaákvæði er miðað við tveggja ára ráðningartíma. Liggur það sjónarmið til grundvallar frumvarpsgreininni að starf háskólakennara og vísinda- og fræðimanna hafi þá sérstöðu að það réttlæti lengri ráðningar­tíma, m.a. þegar litið er til þess tíma sem þarf til undirbúnings starfi og þjálfunar í því.
    Samkvæmt 4. mgr. skal háskólaráð setja almennar reglur um starfsheiti og starfsskyldur háskólakennara og þeirra sem ráðnir eru í starf sérfræðings, fræðimanns eða vísindamanns, en skv. 1. mgr. 18. gr. gildandi laga, sbr. einnig 5. mgr. 10. gr. sömu laga, skal háskólaráð ákveða, að fenginni umsögn háskóladeildar, hvernig starfsskyldur einstakra háskólakennara skulu skiptast. Með lagaákvæði þessu eru völd háskólaráðs sem æðsta ákvörðunaraðila innan háskólans til að ákveða starfsskyldur starfsmanna áréttuð og ber að leggja ákvarðanir ráðsins til grundvallar við mat á launakjörum starfsmanna háskólans. Háskóladeildir skulu hins vegar á grundvelli þessara reglna ákveða hvernig starfsskyldur einstakra kennara skulu skiptast. Stjórn háskólastofnunar skal með sama hætti ákveða hvernig starfsskyldur sérfræð­inga, fræðimanna og vísindamanna skulu skiptast. Með þessu er ákvörðunin færð nær vett­vangi starfsins, til deildar eða stofnunar, eftir atvikum, sem ber ábyrgð á kennslu og rann­sóknum.
    Í 5. mgr. segir að háskólaráð skuli setja almennar reglur um leyfi kennara og sérfræðinga frá störfum og að allar ákvarðanir deilda og stofnana um leyfi þeirra skuli teknar á grundvelli slíkra almennra reglna. Er með þessu reynt að einfalda þá reglu sem fram kemur í 19. gr. gildandi laga.

Um 12. gr.


    Í 1. málsl. 1. mgr. greinarinnar kemur fram að háskólarektor ráði alla fasta kennara til starfa við háskólann og sérfræðinga, vísinda- og fræðimenn, en samkvæmt þeim reglum sem nú gilda ræður menntamálaráðherra prófessora, en háskólarektor dósenta og lektora. Í 2. og 3. málsl. segir að deildarforsetar ráði aðjúnkta, stundakennara og annað starfsfólk deilda og stofnana sem heyra undir deild og að forstöðumaður háskólastofnunar sem ekki heyrir undir deild ráði annað starfsfólk stofnunar. Hér er um að ræða mikilvæga breytingu þar sem ráðn­ingarvaldið er í auknum mæli fært frá ráðherra til háskólarektors eða forstöðumanna deilda eða stofnana háskólans. Ákvæði þetta tryggir sjálfstæði háskólans í starfsmannamálum. Þetta er í samræmi við fyrirmæli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sbr. einkum 42. gr., sbr. einnig athugasemdir við 6. gr. þessa frumvarps. Háskóla­stofnanir heyra ýmist undir deild eða háskólaráð. Þess vegna er hér kveðið á um skýrari reglur um ráðningar í starf.
    Í 2. mgr. eru settar fram almennar faglegar hæfniskröfur til þeirra sem starfa við há­skólann í föstum kennarastörfum eða eingöngu við vísinda- og fræðistörf. Þar kemur fram sú regla að engan megi ráða í starf kennara eða til vísinda- og fræðistarfa, nema hann hafi lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafi jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Skv. 2. málsl. skulu umsækjendur hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á starfssviði sínu. Í 3. málsl. kemur fram að hver deild getur með samþykki háskólaráðs sett frekari menntunarkröfur, t.d. kröfu um doktorspróf.
    Ákvæði 3. mgr. um skipun dómnefndar er efnislega í samræmi við 3. mgr. 11. gr. gildandi laga, einkum varðandi skipun nefndarinnar. Er við það miðað að rektor skipi alla nefndar­menn, en þeir séu tilnefndir þannig að háskólaráð tilnefni einn, menntamálaráðherra annan og viðkomandi deild hinn þriðja. Með þessu er skýrt kveðið á um það hver skipar nefndina annars vegar og hverjir tilnefna í hana hins vegar.
    Í 4. mgr. er kveðið á um það að dómnefnd skuli láta uppi rökstutt álit um það hvort umsækjandi sé hæfur til að gegna starfi. Bent er á að í 7. mgr. er gert ráð fyrir að háskólaráð setji m.a. nánari reglur um störf og starfshætti dómnefnda. Þar verði m.a. settar reglur um að hvaða marki heimilt sé að byggja á eldri dómnefndarálitum. Enn fremur er vakin athygli á ákvæði um ritara dómnefndar. Við það er miðað að rektor skipi einn ritara sem starfi með öllum dómnefndum sem hafi m.a. það hlutverk að samræma störf og vinnubrögð dómnefnda og stuðla þar með að skilvirkara og vandaðra starfi þeirra. Ákvæði 7. mgr. 12. gr. miðar að sama marki.
    Störf dómnefnda hafa oft orðið tilefni deilumála sem m.a. lúta að hæfi dómnefnda, með­ferð mála hjá dómnefndum o.fl. Þá hafa komið fram þau sjónarmið innan háskólans að dóm­nefndir og sú málsmeðferð sem þeim fylgi sé þung í vöfum og tafsöm. Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2087/1997 koma fram ýmsar upplýsingar um störf, starfshætti og stjórnsýslulega stöðu dómnefnda.
    Í áliti umboðsmanns eru enn fremur rakin sjónarmið sem snerta hlutverk, störf og starfs­hætti dómnefnda. Í áliti umboðsmanns um skýringu á 4. mgr. 11. gr. gildandi háskólalaga segir þetta:
    „Samkvæmt 4. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, skal dómnefnd láta uppi rökstutt álit á því, hvort umsækjandi sé hæfur til að gegna starfi. Gera verður glöggan greinarmun á því mati annars vegar, hvort umsækjandi verður talin uppfylla þau lágmarks­skilyrði, að teljast hæfur til að gegna starfi skv. 1. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990 og hins vegar því mati, hver þeirra umsækjenda, er uppfylli fyrrnefnda starfsgengisskilyrði, telst síðan hæfastur eða færastur umsækjenda til að gegna starfanum. Einungis þeir, sem ekki uppfylla lágmarksskilyrði 1. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, verða taldir óhæfir í skilningi laganna.“
    Þessi sjónarmið sem fram koma í áliti umboðsmanns eiga einnig við um 4. mgr. 12. gr. frumvarps þessa. Brýnt er að dómnefndir starfi samkvæmt þessum sjónarmiðum. Ákvæði 5. mgr. 12. gr. felur í sér að þegar álit dómnefndar liggur fyrir skal tillaga um veitingu starfsins ákveðin í samræmi við reglur hverrar deildar eða stofnunar sem háskólaráð hefur staðfest. Hér er opnað fyrir þann möguleika að deildir geti haft ólíkar reglur við gerð tillögu til rektors, svo sem atkvæðagreiðslu í deild eins og nú er, atkvæðagreiðslu í skor eða með því að sérstök stöðunefnd deildar ákveði. Háskólaráð skal staðfesta slíkar reglur.
    Ákvæði 6. mgr. 12. gr. eru efnislega samhljóða ákvæðum 6. mgr. 11. gr. gildandi laga að því viðbættu að málsgreinin tekur ekki bara til kennara, heldur einnig sérfræðinga, fræði­manna og vísindamanna. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að flytja bæði kennara og sérfræð­inga og fræðimenn milli starfsheita samkvæmt reglum sem háskólaráð setur. Að því er sér­fræðinga og fræðimenn varðar er þetta rýmkun á ákvæðum 6. mgr. 11. gr. gildandi laga. Að öðru leyti er hér í aðalatriðum gert ráð fyrir að framgangskerfið haldist óbreytt. Í 6. mgr. er enn fremur að finna heimild til þess að flytja sérfræðinga, fræðimenn og vísindamenn í kennarastörf, enda hafi þeir þá kennslu- og stjórnunarskyldu í deild. Gert er ráð fyrir að um þetta verði gert samkomulag milli deildar og stofnunar hverju sinni.
    Ákvæði 7. mgr. mælir svo fyrir að háskólaráð setji nánari reglur um nýráðningar, auglýs­ingar um störf, umsóknir og meðferð þeirra, skipan og störf dómnefnda og framgang kennara og sérfræðinga og tilflutning starfsmanna. Miðað er við að í reglurnar verði m.a. sett ítarleg ákvæði um auglýsingar þar sem starf verði eins nákvæmlega skilgreint og kostur er hverju sinni og það verði helsta viðmið dómnefnda við mat á hæfi umsækjenda til að gegna við­komandi starfi. Ætti þetta að stuðla að skilvirkara starfi dómnefnda.
    Skv. 8. mgr. 12. gr. getur háskólarektor, að fenginni tillögu deildar og með samþykki háskólaráðs, boðið vísindamanni að taka við kennarastarfi við háskólann, án þess að það hafi verið auglýst. Samsvarandi heimild er í 1. mgr. 12. gr. gildandi laga. Þessa heimild verður að túlka þröngt í ljósi almennrar reglu um að laus störf beri að auglýsa.

Um 13. gr.


    Greinin í heild er endurskoðuð 21. gr. gildandi laga, orðalag einfaldað og efnisatriði sett í efnislegt samhengi. Jafnframt hafa efnisbreytingar sem samþykktar voru í háskólaráði 4. febrúar 1993 verið felldar inn í greinina. Þær miða að því að veita skýrari og almennari heimildir en felast í núgildandi lögum til að kveða á um undirbúningsskilyrði í samræmi við námskröfur í einstökum deildum. Í stað réttar til skrásetningar er lögð áhersla á viðeigandi undirbúning sem skilyrði skrásetningar til náms. Þessi breyting er jafnframt í samræmi við ákvæði 6. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997.
    Í 1. mgr. er ákvæði um almennt inntökuskilyrði, þ.e. viðurkennt stúdentspróf frá íslensk­um skóla eða sambærilegt próf frá erlendum skóla. Hvað varðar ákvæði um sambærilegt próf frá erlendum skólum er Ísland aðili að norrænum samningi um aðgang að æðri menntun sem tók gildi 9. maí 1997 og samningi Evrópuráðsins og Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna um viðurkenningu á menntun og hæfi að því er varðar æðra skólastig á Evrópu­svæðinu sem undirritaður var í Lissabon í apríl 1997. Í 2. og 3. málsl. 1. mgr. er ákvæði um að háskólaráð setji reglur um heimild þeirra sem ekki hafa lokið stúdentsprófi til að stunda nám við háskólann. Að efni til er hér ekki um breytingu að ræða frá 21. gr. gildandi laga. Undir þessar reglur munu falla öll frávik frá almenna skilyrðinu í 1. málsl. 1. mgr., þ.m.t. ákvæði 2.–4. mgr. 21. gr. gildandi laga, um undanþáguheimildir frá stúdentsprófi.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að háskólaráð setji nánari reglur um inntöku stúdenta í einstakar námsgreinar, bæði í grunnnám og framhaldsnám. Í reglunum verður heimilt að binda aðgang að námsgreinum frekari skilyrðum um undirbúning en fram koma í hinu almenna skilyrði í 1. mgr. Þetta er í samræmi við ákvæði 6. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997, sem fyrr er greint. Deildir skilgreina þá nánar þann undirbúning sem þær telja nauðsynlegan í upphafi náms og gera þá kröfu við inngöngu að stúdent hafi auk almenns kjarna náð tilteknum árangri í einstökum greinum eða greinaflokkum á stúdentsprófi sem teljast óhjákvæmilegur undirbúningur að námi í viðkomandi deild. Jafnframt er í 2. mgr. heimild til að takmarka fjölda stúdenta sem teknir verða í grunn- og framhaldsnám. Samkvæmt heimildarákvæði 5. mgr. 21. gr. gildandi laga er fjöldatakmörkun ákveðin af háskólaráði, að fengnum tillögum hlutaðeigandi deilda sem hafa til þess heimild í reglugerð. Undanþága byggð á 5. mgr. gildandi lagagreinar hefur verið notuð til að setja í reglugerð ákvæði um heimild til tak­mörkunar á fjölda stúdenta á 1. námsári vegna skorts á aðstöðu til kennslu. Auk þessa er ljóst að háskólinn getur vegna skorts á aðstöðu þurft að takmarka fjölda þeirra sem hann tekur til framhaldsnáms að loknu grunnnámi til fyrstu háskólagráðu, en heimildir til þess eru alls ekki nægilega skýrar samkvæmt gildandi lögum. Með þessum breytingum eru heimildir skýrðar. Aftur á móti er ekki við það miðað að fjöldatakmörkunum verði beitt í ríkari mæli en verið hefur, enda er tilgangur fjöldatakmörkunar ekki að fækka þeim sem ljúka námi, heldur að skapa aðstæður til að sinna nemendum betur og gera nám þeirra árangursríkara.
    Í 3. mgr. 13. gr. er ákvæði um skrásetningargjald. Það er sambærilegt við ákvæði 6. mgr. 21. gr. gildandi laga, sbr. 1. gr. laga nr. 29/1996, en þó með tveimur breytingum.
    Í fyrsta lagi er lagt til að upphæð skrásetningargjaldsins, sem kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert, verði hækkuð úr 24.000 kr. í 25.000 kr. Er það gert til samræmis við 4. gr. laga um Kennaraháskóla Íslands, nr. 137/1997, og 4. gr. frumvarps til laga um Háskólann á Akureyri sem liggur fyrir Alþingi og verður því að teljast endurspegla vilja löggjafans um það efni. Skrásetningargjaldið og kostnaðarliðir sem undir það falla voru skýrðir í greinargerð með tillögu um lagabreytingu (nú 6. mgr. 21. gr., sbr. lög nr. 29/1996) sem háskólaráð samþykkti 25. ágúst 1995. Þar kom fram að gjaldið er bókfært hjá yfirstjórn háskólans í samræmi við fjárlög og stendur undir hluta kostnaðar við háskólastarfið. Þar má sem dæmi nefna margvíslega þjónustu sem stúdentum er veitt á námstímanum utan formlegra kennslustunda, svo sem skráningu þeirra í námskeið og próf, varðveislu upplýsinga um náms­feril stúdenta, upplýsingar um námsferil sem sendar eru stúdentum þrisvar á hverju háskóla­ári, auglýsingu og miðlun upplýsinga vegna skráningar, skipulag kennslu og prófa, kennslu­skrá, stúdentaskírteini og aðgang að þjónustu nemendaskrár, skrifstofu kennslusviðs, deilda­skrifstofum, alþjóðaskrifstofu, upplýsingastofu um nám erlendis, námsráðgjöf, bókasafni og tölvum og prenturum háskólans.
    Í öðru lagi, í samræmi við reglur er gilda um aðra háskóla og framhaldsskóla, er ekki lagt til að lögbundin sé greiðsluskylda stúdenta til eins félags umfram annað, þannig að hluti af skrásetningargjaldinu skuli fortakslaust renna til stúdentaráðs Háskóla Íslands. Hins vegar er í 18. gr. gert ráð fyrir að háskólaráð hafi heimild til þess að semja við félög stúdenta, stúdentaráð eða aðra um tiltekna þjónustu gegn greiðslu.
     Um Félagsstofnun stúdenta gilda lög nr. 33/1968 og reglugerð nr. 171/1968, sbr. reglu­gerð 267/1972 og 696/1981. Samkvæmt lögunum eiga menntamálaráðuneyti og stúdentar aðild að stofnuninni sem rekur ýmis fyrirtæki í þágu stúdenta. Skv. 1. tölul. 4. gr. laganna skal hluti af árlegum skrásetningargjöldum stúdenta renna til stofnunarinnar. Með reglugerð og síðar með lögum var ákveðið að hlutfallið yrði 13%. Félagsstofnun stúdenta hefur þannig lögbundnu hlutverki að gegna og lögbundið er að hluti af skrásetningargjaldinu renni til stofnunarinnar. Hér er lagt til að svo verði áfram en að hlutfallið verði ekki bundið við ákveðna prósentu.
    Í 4. mgr. er ákvæði um að þeir einir teljist stúdentar við Háskóla Íslands sem skrásettir hafa verið til náms og að háskólaráð setji reglur um árlega skráningu. Þetta er óbreytt ákvæði 7. mgr. 21. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að reglur um árlega skráningu verða settar af háskólaráði en eru nú í reglugerð.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að háskóladeild sé heimilt að meta nám sem stúdent hefur stundað utan deildarinnar, þ.m.t. við aðra innlenda háskóla eða erlenda, sem hluta af námi við deildina. Nauðsynlegt er að lögfesta þessa heimild þar sem heimildir til þessa samkvæmt gildandi lögum eru ekki alls kostar skýrar.

Um 14. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar setur háskólaráð reglur um lengd háskólaárs og skiptingu þess í missiri. Þar kemur enn fremur fram sú regla að sú kennsla sem boðið er upp á í há­skólanum sé fyrir skrásetta stúdenta. Einstökum kennurnum er þó heimilt að veita öðrum kost á að sækja slíka kennslu, nema háskóladeild mæli fyrir um á annan veg. Þetta er óbreytt ákvæði 20. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að hér er það háskóladeild en ekki háskóla­ráð sem ákveður hvort heimila skulu öðrum en skrásettum stúdentum að sækja kennslu. Með því er ákvörðun færð nær vettvangi þar sem deildin ber alfarið ábyrgð á kennslu og námi.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um námseiningar og er skilgreiningin í samræmi við viðtekna skil­greiningu, sbr. 33. gr. reglugerðar fyrir Háskóla Íslands og 1. mgr. 9. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997. Einstökum deildum er ætlað að setja reglur um kennslu og kennsluhætti. Háskólaráði er ætlað að setja almennar reglur um mat náms til eininga. Þar yrði m.a. kveðið á um viðmið um samnýtingu eininga til fleiri en einnar háskólagráðu til að tryggja samræmi í þeim efnum. Ákvarðanir um vægi einstakra námsgreina eru þó að sjálfsögðu á valdi deildar eins og verið hefur.

Um 15. gr.


    Í greininni eru dregnar saman reglur sem varða prófgráður, próf, framkvæmd prófa, próf­dómara og fleira úr 27.–29. gr. , 33. gr. og 35. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. er miðað við að háskólaráð setji nánari reglur um þessi efni, en nú er þessum reglum skipað í reglugerð sem menntamálaráðherra staðfestir. Ákvæðið felur í sér tilflutning á valdi frá menntamálaráðherra til háskólans sjálfs og deilda hans að því er varðar nám og próf.
    Ákvæði 2. mgr. samsvarar ákvæði 1. mgr. 28. gr. gildandi laga og hefur reynslan sýnt að brýnt er að enginn vafi leiki á um þetta atriði.
    Í 3. mgr. er ákvæði um rétt stúdents til að fá útskýringar á mati skriflegrar úrlausnar sinnar. Málsgreinin er samhljóða 2. mgr. 29. gr. gildandi laga og hefur reynslan sýnt að brýnt er að enginn vafi leiki á um þetta atriði.
    Í 4. mgr. er ákvæði um skipun prófdómara. Það samsvarar 3. mgr. 29. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að samkvæmt frumvarpinu er það rektor sem skipar prófdómendur en ekki menntamálaráðherra.

Um 16. gr.


    Efni greinarinnar er í samæmi við ákvæði 31. gr. gildandi laga og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 17. gr.


    Greinin er að mestu efnislega samhljóða 24. gr. gildandi laga. Helsti munurinn er sá að stúdent getur skotið ákvörðun um viðurlög til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um há­skóla. Með því er tryggt að stúdent geti skotið ágreiningsmálum sínum við háskólayfirvöld til sjálfstæðs úrskurðaraðila utan háskólans. Mikilvægt er að agaviðurlög styðjist við heim­ildir í lögum þar sem um íþyngjandi ákvarðanir getur verið að ræða af hálfu háskólayfir­valda.
    Af hálfu stúdentaráðs Háskóla Íslands hefur verið lögð áhersla á að sett yrði á stofn sérstök óháð kærunefnd fyrir skólann og málum mætti skjóta beint til hennar næðist ekki sátt um niðurstöðu innan deildar. Yrði nefndin endanlegur úrskurðaraðili innan háskólans. Í frumvarpinu er ekkert sem hindrar að slík óháð kærunefnd starfi innan Háskóla Íslands verði ákveðið að stofna hana þar. Á hinn bóginn þykir ekki fært að svipta stúdenta við Háskóla Íslands rétti til þess að skjóta máli sínu til áfrýjunarnefndar skv. 17. gr. frumvarpsins.

Um VI. kafla.


    Í kaflanum er að finna ákvæði um fjárhag háskólans, fyrirtæki í eigu hans og stofnanir sem undir hann heyra. Um fjárhagsmálefni Háskóla Íslands gilda ákvæði 19.–23. gr. laga um háskóla, nr. 136/1998. Í þessum ákvæðum eru tilgreindar þær forsendur sem ákvarðanir um fjárveitingar skulu miðast við. Mikilvægt er að gerð sé áætlun til lengri tíma um fjárveitingar til háskólans, enda hefur háskólinn barist fyrir því lengi að fjárveitingar til hans séu ákvarð­aðar á grunni reiknilíkans til lengri tíma en eins árs í senn. Þetta er í samræmi við þann samning sem unnið hefur verið að á milli menntamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands um menntun til fyrsta háskólaprófs og embættisprófs og um framhalds- og rannsóknarnám.

Um 18. gr.


    Í greininni er fjallað um annars vegar gjöld fyrir þjónustu sem Háskóli Íslands veitir og hins vegar gjöld sem Háskóli Íslands greiðir fyrir þjónustu.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að heimilt sé að taka gjald fyrir þjónustu sem háskólinn lætur í té. Hér er einkum átt við þjónustu sem háskólinn veitir og er fyrir utan hina lögboðnu þjón­ustu sem háskólanum er skylt að veita. Tekið er mið af 3. mgr. 19. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997. Háskólinn hefur ekki haft skýra heimild í lögum til að taka gjald fyrir margvíslega þjónustu, utan þeirrar þjónustu sem honum er skylt að veita lögum samkvæmt. Hann hefur möguleika á að veita og vill veita ýmsa þjónustu en getur það ekki vegna skorts á fé. Dæmi um slíkt gæti verið aukin þjónusta vegna tölvuaðgangs og innhringisambanda fyrir þá stúd­enta sem þess óska. Einnig gæti hér fallið undir gjaldtaka fyrir veitingu vottorða um náms­ástundun og próf sem eru utan reglulegrar upplýsingagjafar um þetta efni. Með þessu ákvæði er lagt til að þessi möguleiki verði rýmkaður, en um leið er lögð áhersla á að ákvarðanir um slík þjónustugjöld verða að byggjast á þeim kostnaði sem felst í því að veita þjónustuna. Enn fremur er lögð áhersla á að heimild 18. gr. tekur til þess að taka gjald fyrir endurmenntun. Háskólaráði er ætlað að setja reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjaldanna.
    2. mgr. er ætlað að tryggja með ótvíræðum hætti að háskólaráði sé heimilt að ganga til samninga við stúdentaráð eða önnur félög stúdenta um tiltekin afmörkuð rekstrarverkefni sem falla ekki undir þá lögmæltu þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Eins má fela fyrirtækjum, samtökum eða stofnunum að sinna þessum verkefnum. Hér undir geta fallið ýmis verkefni er varða til dæmis stoðþjónustu við stúdenta. Gert er ráð fyrir að það sé á valdi háskólaráðs að semja við félög stúdenta um þjónustu af þessu tagi.

Um 19. gr.


    Í 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um að Háskóli Íslands skuli árlega halda opinn ársfund þar sem fjárhagur háskólans og meginatriði starfsáætlunar hans eru kynnt. Þetta ákvæði er í samræmi við 23. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997. Lögð er áhersla á að ársfundur háskól­ans er opinn fundur sem hefur það hlutverk að kynna starfsemi hans fyrir stofnunum og fyrir­tækjum í þjóðfélaginu, sem og fjölmiðlum. Með þessu er leitast við að tengja starf háskólans þjóðlífinu. Ársfundur tekur ekki neinar ákvarðnir sem varða málefni háskólans. Háskólaráð skal setja reglur um fyrirkomulag ársfundar.
    Í 2. mgr. 19. gr. eru heimildarákvæði um aðild háskólans að fyrirtækjum. Þetta eru hliðstæð ákvæði og í 2. mgr. 36. gr. gildandi laga og 22. gr. laga um háskóla, nr. 36/1997. Háskóli Íslands hefur óskað eftir rýmkun á heimild til aðildar að fyrirtækjum sem ekki einungis fást beint við rannsóknir og þróun, heldur miðla afrakstri rannsókna og opna fleiri leiðir til náms, m.a. í tillögu sem fyrir liggur í frumvarpsformi og samþykkt var á fundi há­skólaráðs 4. mars 1993. Auk þess hlutverks háskólans að stuðla að vísindalegri fræðslu og rannsóknum hefur hann einnig það hlutverk að stuðla almennt að notkun þekkingar, eflingu menntunar og ræktun menningar þjóðarinnar, m.a. með endurmenntun og miðlun fræðslu til almennings, sbr. 2. mgr. 1. gr. þessa frumvarps. Hann á að leggja sitt af mörkum til þess að efla vitund um íslenskar rannsóknir og þekkingaröflun og miðla þekkingu til almennings. Háskólinn beinir auk þess erlendri þekkingu og hugmyndum inn í landið og eflir með því styrk þjóðarinnar til þess að takast á við ný viðfangsefni. Hann hefur ávallt leitast við að vera í framvarðasveit þeirra sem rækta sjálfstæða hugsun og tjáningu, bæði um einföld efni og flókin, innlend viðfangsefni jafnt sem erlend. Ýmsar leiðir eru færar til þess að sinna þeim hlutverkum sem hér eru nefnd umfram það sem gert er í hefðbundinni kennslu og rann­sóknum. Þess vegna er lagt til að heimild til aðildar að fyrirtækjum sé rýmkuð nokkuð frá því sem nú er skv. 36. gr. gildandi laga. Í 3. málsl. 2. mgr. er ákvæði sem heimilar háskól­anum að starfrækja stofnanir á verksviði sínu sem heyri beint undir háskólaráð. Í gildandi lögum er að finna hliðstæð ákvæði, en þau varða tilteknar stofnanir, sbr. 4. og 5. mgr. 36. gr. Í frumvarpinu er aftur á móti að finna almenna heimild þessa efnis.
    Í 3. mgr. er ákvæði sem heimilar háskólanum að semja við aðrar stofnanir og fyrirtæki sem tengjast starfssviði skólans um kennslu, rannsóknir og ráðningu kennara og annarra starfsmanna. Vísast til skýringa við 1. mgr. 11. gr. um þetta atriði.

Um 20. og 21. gr.


    Ákvæði greinanna þarfnast ekki skýringa. Þó er vakin athygli á að gert er ráð fyrir að reglur sem háskólaráð setur skuli birtar í B-deild Stjórnartíðinda.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Samkvæmt 2. og 3. mgr. 38. gr gildandi laga eru störf prófessora við læknadeild tengd störfum yfirlækna á sjúkrahúsum. Þessi tengsl háskólans við sjúkrahúsin eru einkar nauð­synleg í ljósi þess að háskólinn stendur fyrir öllu læknanámi í landinu. Klínísk þjálfun nem­enda fer fram á sjúkrahúsunum og rannsóknir innan læknadeildar eru stundaðar í nánum tengslum við rannsóknastofur og deildir sjúkrahúsanna, auk þess sem sumar rannsókna­stofurnar eru starfræktar af báðum aðilum sameiginlega. Mikilvægt er að þessi starfstengsl verði tryggð í samningi milli menntamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins.
    Af hálfu háskólaráðs hefur verið lagt til að heilbrigðisstofnanir verði skyldaðar til þess með lögum um Háskóla Íslands að veita stúdentum, kennurum og öðrum starfsmönnum háskólans aðstöðu til menntunar, þjálfunar, rannsóknarvinnu og faglegrar þróunar. Í þessu skyni skulu menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra gera samning við þær stofnanir sem skilgreindar verði sem háskólastofnanir og setja reglur um starfsaðstöðu stúdenta, kennara og annarra starfsmanna, svo og um stjórnun og rekstrarfyrirkomulag háskólaheilbrigðisstofn­ana. Jafnframt hefur háskólaráð lagt til að kveðið verði á um það í lögum um Háskóla Ís­lands að prófessorar skuli hafa starfsaðstöðu á þessum stofnunum og að jafnaði veita for­stöðu þeim sviðum og deildum sem tilheyra fræðasviði þeirra hvers um sig og skuli kveða á um í samningi hver sé staða og ábyrgð prófessora innan þessara stofnana.
    Svo sem fram kemur í ákvæði til bráðabirgða er menntamálaráðuneytið hlynnt því að samkomulag takist milli Háskóla Íslands og heilbrigðisstofnana um samstarf. Það er hins vegar ljóst að undirbúningur slíkrar samningsgerðar mun óhjákvæmilega taka nokkurn tíma. Ríkisstjórnin hefur veitt menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra umboð til þess að hefja viðræður milli menntamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, stjórnenda sjúkrahúsa og Háskóla Íslands og er ráðgert að slíkar viðræður hefjist hið fyrsta. Þangað til niðurstaða fæst að þessu leyti gildir bráðabirgðaákvæðið.
    Önnur ákvæði til bráðabrigða þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Háskóla Íslands.

    Frumvarpið felur í sér breytingar á gildandi lögum um skólann til samræmis við lög nr. 136/1997, um háskóla, en þau lög kveða á um að sérlög um einstakar háskólastofnanir verði endurskoðuð. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingum á verkaskiptingu og samskiptum milli menntamálaráðuneytisins og skólans. Stjórnendum skólans er falið að annast ýmis mál sem ráðuneytið hefur haft með höndum og varða innra starf hans, svo sem að setja ýmsar sameiginlegar reglur um starfsemi skólans. Þá er rektor falið að ráða prófessora, dósenta og lektora, auk þess að ráða starfsmenn sameiginlegrar stjórnsýslu skólans. Þær breytingar eru m.a. gerðar á stjórnkerfi skólans að vald og ábyrgð deilda á daglegri starfsemi og fjármálum er aukið, gert er ráð fyrir að háskólaráð verði fámennara en nú er og að haldinn verði há­skólafundur, eins konar stefnumótandi þing háskólamanna, minnst tvisvar á ári. Í frum­varpinu er gert ráð fyrir að skrásetningargjald hækki úr 24 þús. kr. í 25 þús. kr. til samræmis við lög um Kennaraháskóla Íslands og frumvarps til laga um Háskólann á Akureyri. Áætla má að tekjur skólans aukist um 4–5 m.kr. vegna þessa. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir heimild til að taka gjald fyrir þjónustu sem skólinn veitir og honum er ekki skylt að veita lögum sam­kvæmt, svo sem þjónusturannsóknir og endurmenntun. Gert er ráð fyrir að gjaldtakan standi undir kostnaði við að veita þjónustuna.
    Að því er séð verður hefur frumvarpið óveruleg áhrif á kostnað ríkissjóðs verði það að lögum.