Ferill 515. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 829  —  515. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um fornleifauppgröft í Skálholti.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hefja nú þegar undirbúning að uppgreftri hinna fornu bæjarhúsa á biskupssetrinu í Skálholti í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku. Skal uppgröfturinn hefjast svo fljótt sem auðið er.

Greinargerð.


    Í Hungurvöku segir frá því er Ísleifur Gissurarson kom til Íslands árið 1056 eftir að hafa verið vígður biskup fyrstur íslenskra manna: „Síðan fór Ísleifur byskup þat sama sumar til Ís­lands og setti byskupsstól sinn í Skálaholti. Hann hafði nauð mikla á marga vegu í sínum byskupsdómi fyrir sakir óhlýðni manna.“ Eftir lát Ísleifs tók sonur hans, Gissur, við en um hann segir í Hungurvöku: „Hann hafði eigi allt land til ábúðar í Skálaholti fyrst nökkura stund byskupsdæmis síns, af því at Dalla, móðir hans, vildi búa á sínum hluta landsins, með­an hon lifði. En þá er hon var önduð ok byskup hlaut allt land, þá lagði hann þat allt til kirkju þeirar, er í Skálaholti er ok hann sjálfr hafði gera látið, þrítuga at lengd, ok vígði Pétri postula ok mörg gæði önnur lagði Gizurr byskup til þeirar kirkju bæði í löndum og lausafé ok kvað á síðan, at þar skyldi ávallt byskupsstóll vera, meðan Ísland væri byggt ok kristni má haldast.“
    Biskupar sátu í Skálholti þar til Hannes biskup Finnsson féll frá árið 1796, en þá var ástand biskupssetursins orðið afar bágborið. Í Suðurlandsskjálftanum mikla árið 1784 hrundu húsin í Skálholti og bjó Hannes biskup við heldur rýran kost síðustu æviár sín. Eftir hans dag var biskupsstóllinn fluttur til Reykjavíkur og biskupsdæmin tvö sameinuð. Árið 1802 var kirkja Brynjólfs biskups rifin og mun minni kirkja byggð í staðinn. Þar með urðu þáttaskil í sögu þessa mikla höfuðbóls, en þar höfðu biskupar þá setið í tæpa sjö og hálfa öld.
    Í Skálholti var höfuðkirkja biskupsdæmisins og þar sat biskup, oftast með fjölskyldu sína, þótt kaþólska kirkjan leyfði hvorki prestum né biskupum að kvænast eða halda hjákonur. Þar var skóli allt frá dögum Ísleifs biskups og því ávallt margt um skólapilta og kennara úr presta­stétt. Sagt er frá a.m.k. einni konu sem kenndi í Skálholti og eitthvað hefur verið um ein­setumenn og -konur undir verndarvæng biskups. Á biskupssetrinu þjónaði fjöldi karla og kvenna og þar hefur búskapur jafnan verið mikill enda mikið um gestakomur, auk þess sem heimamenn þurftu sitt. Eftir að Lútherstrú komst á eru þess dæmi að ungar stúlkur voru sendar til biskupsfrúnna til að læra hannyrðir og annað nytsamlegt enda voru margar þeirra annálaðar hannyrðakonur. Mikinn húsakost þurfti fyrir allt þetta fólk og þá starfsemi sem fram fór í Skálholti. Til er uppmæling af Skálholtsstað sem Steingrímur Jónsson, síðar biskup, gerði árið 1784. Teikning hans sýnir kirkjuna og biskupsgarðinn eins og hann var þá. Má þar m.a. sjá undirganginn milli kirkjunnar og biskupsgarðs, skólaskálann, skóla, konrektorshús, sjúkrastofu o.fl. Mun uppmæling Steingríms eflaust koma að miklu gagni við upphaf rannsóknarinnar.
    Á árunum 1954–58 fór fram mikil fornleifarannsókn í Skálholti, sem þeir Kristján Eldjárn, þáverandi þjóðminjavörður og síðar forseti Íslands, Hakon Christie fornleifafræðingur og Jón Steffensen, læknir og beinasérfræðingur, stýrðu. Rannsóknin náði aðeins til kirkjurústanna og ganganna sem fyrr eru nefnd og var þó ærið verk. Enn hafa rústir biskupsgarðsins ekki verið grafnar upp en það er gífurlega spennandi verk að kanna þennan höfuðstað Íslendinga um aldir og ekki ólíklegt að uppgröftur þar leiði í ljós margt nýtt um sögu kristnihalds í landinu, umfang biskupsstólsins og allt það sem fram fór á slíku stórbýli. Að mati flutnings­manns er verðugt verkefni í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitökunnar að kanna sögustaðinn mikla og jafnframt að nota tækifærið til að koma upp veglegu sögusafni í Skálholti, t.d. með því að byggja yfir rústirnar eftir að uppgreftri lýkur, líkt og gert var að Stöng í Þjórsárdal á sínum tíma. Þar má segja sögu staðarins í máli og myndum, tali og tónum og auðga hana með hlutum sem finnast í rústunum eða eftirlíkingum þeirra.
    Uppgröftur bæjarhúsanna í Skálholti er mikið og dýrt verk sem kallar á rækilegan undir­búning og mun taka mörg ár. Líklegt má telja að fornleifafræðingar á Norðurlöndum og jafn­vel víðar sýni þessu verkefni mikinn áhuga og hugsanlega verður hægt að fá styrki til verks­ins erlendis. Hér er því um kjörið samvinnuverkefni fleiri þjóða að ræða. Við vitum að byggð hefur verið í Skálholti frá því fyrir kristnitöku og að þar hefur verið samfelld búseta fram á þennan dag. Þar má því lesa úr jörðu margra alda sögu, allt frá víkingatímanum til þess tíma er biskupsgarðurinn var að hruni kominn.
    Þegar kirkjurústirnar í Skálholti voru kannaðar komu þar upp úr jörðu ómetanlegar forn­leifar, m.a. steinkista Páls biskups Jónssonar og sönnuðust þá fornar frásagnir um tilvist hennar. Ekki treystir flutningsmaður sér til að fullyrða að eitthvað sem jafnast á við kistu Páls komi upp úr rústum bæjarhúsanna, en líklegt verður að telja að margra alda byggð hafi skilið eftir margvíslegar leifar sem varpa ljósi á kirkjustarf, daglegt líf, mataræði, húsagerð, fatnað, innflutning og hvers kyns þjónustu í kringum þann fjölda fólks sem jafnan dvaldist í Skálholti.
    Rannsókn á rústunum í Skálholti og uppbygging á sögusafni í kjölfar hennar er verðugt verkefni, vilji þjóðin minnast kristnitökunnar og sögu sinnar með veglegum hætti og jafn­framt gefa sér og komandi kynslóðum góða gjöf.