Ferill 447. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 852  —  447. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur um framkvæmdaáætlun ríkis­stjórnarinnar í jafnréttismálum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvað líður skipan nefndar sem kanna á stöðu kvenna innan fiskvinnslunnar, sbr. lið 11.1 í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynj­anna? Hvenær má vænta niðurstöðu úr könnuninni?
     2.      Hvað líður könnun á hlut kvenna sem sjálfstæðra atvinnurekenda í sjávarútvegi og tillögum um aðgerðir til að auka hlut þeirra, sbr. lið 11.2 í framkvæmdaáætluninni?
     3.      Hvað líður könnun á áhrifum langvarandi fjarvista sjómanna á líf þeirra og fjölskyldna þeirra, sbr. lið 11.3 í framkvæmdaáætluninni?
     4.      Er hafin könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og hjá þeim stofnunum sem undir það heyra, sbr. lið 11.5 í framkvæmdaáætluninni? Ef svo er, hvað hefur hún leitt í ljós?
     5.      Hvað líður gerð jafnréttisáætlana fyrir ráðuneytið og þær stofnanir sem undir það heyra, sbr. lið 11.5 í framkvæmdaáæltuninni?


    Alþingi samþykkti á sl. vori framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Framkvæmd jafnréttisáætlunarinnar er á ábyrgð ráðherra og þarf að gera ráð fyrir kostnaði sem verkefnunum fylgir í fjárhagsáætlun hvers ráðuneytis fyrir sig.
    Í áætluninni eru fimm afmörkuð verkefni sem vinna skal í sjávarútvegsráðuneyti á þeim fjórum árum sem áætlunin gildir. Á því rúma hálfa ári sem liðið er frá samþykkt áætlunarinn­ar er hafin vinna að einu verkefni; að kanna áhrif langvarandi fjarvista sjómanna á líf þeirra og fjölskyldna þeirra. Að undirlagi ráðuneytisins og karlanefndar Jafnréttisráðs var efnt til fundar með fræðimönnum við félagsfræðideild Háskóla Íslands í desemberbyrjun. Í fram­haldi af því hefur verið ákveðið að ráðuneytið fái fræðimenn þar til að kanna hvað er til af rannsóknargögnum um þetta efni og hvað megi af því nýta. Einnig hefur verið ákveðið að móta frekari rannsóknaráætlun. Þessi aðferð, þ.e. að byrja á að kanna hvað er til af rann­sóknum og hvert skuli stefna, virðist geta átt við fleiri verkefni á sviði ráðuneytisins, bæði hvað varðar stöðu kvenna innan fiskvinnslunnar og hlut kvenna sem sjálfstæðra atvinnurek­enda í sjávarútvegi. Í ráðuneytinu er stefnt að því að hefja vinnu við tvö verkefni í viðbót á fyrri hluta þessa árs, áður en eitt ár er liðið frá samþykkt Alþingis á fjögurra ára fram­kvæmdaáætlun í jafnréttismálum.