Ferill 561. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 908  —  561. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á áfengislögum, nr. 75 15. júní 1998.

Frá allsherjarnefnd.



1. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 5. mgr., svohljóðandi:
    Fyrir útgáfu leyfis til áfengisveitinga skal greiða til sveitarfélags sem hér segir:
     a.      leyfi til sex mánaða eða skemur 20.000 kr.,
     b.      leyfi til eins árs eða skemur 30.000 kr.,
     c.      leyfi til lengri tíma en árs og til og með tveggja ára 50.000 kr.,
     d.      leyfi til lengri tíma en tveggja ára 100.000 kr.

2. gr.

    Við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 5. mgr., svohljóðandi:
    Um gjald fyrir leyfi samkvæmt grein þessari fer skv. 6. mgr. 14. gr. og 4. mgr. 17. gr. eftir því sem við á.

3. gr.

    Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 3. mgr., svohljóðandi:
    Fyrir útgáfu leyfis samkvæmt þessari grein skal greiða til sveitarfélags 5.000 kr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla brott 20. og 21. tölul. 11. gr. laga um auka­tekjur ríkissjóðs, nr. 88 31. desember 1991, sbr. lög nr. 140/1995.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að gjaldheimta vegna leyfa til áfengisveitinga flytjist frá ríkis­sjóði til sveitarfélaga. Komið hefur í ljós að þau mistök voru gerð er áfengislögum var breytt á síðasta þingi að gjaldheimta vegna leyfisveitinga var ekki flutt frá ríki til sveitarfélaga um leið og leyfisveitingarnar voru fluttar til þeirra. Hefur þetta leitt til þess að gjaldheimtan hef­ur lagst niður, en slíkt vakti ekki fyrir löggjafanum er lögunum var breytt. Með frumvarpinu er stefnt að því að bæta úr þessu ástandi og þykir eðlilegt að leyfisveitingar verði háðar sömu gjaldtöku og áður var.