Ferill 571. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 937  —  571. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Flm.: Sighvatur Björgvinsson, Lúðvík Bergvinsson.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Á fiskveiðiárinu 1998/1999 skal úthlutað til viðbótar við leyfðan heildarafla skv. 3. gr. laganna 15.000 lestum af þorski. Aflaheimildir þessar skulu boðnar til leigu á markaði. Rétt til þessara aflaheimilda skulu einungis hafa bátar undir 10 brl., svo og dagróðrarbátar sem róa með línu eða net. Framsal þessara aflaheimilda er óheimilt en heimilt er að flytja þær yfir á næsta fiskveiðiár á grundvelli 10. gr. laganna.
    Tekjur ríkissjóðs af leigu þessara aflaheimilda skal ráðstafað þannig að þriðjungur gangi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til aðstoðar við þau sveitarfélög sem eiga í alvarlegum fjár­hagserfiðleikum vegna missis aflaheimilda úr byggðarlaginu, þriðjungur til Byggðastofnunar til að greiða fyrir nýsköpun í atvinnulífi á landsbyggðinni og þriðjungur í ríkissjóð.
    Ráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmd úthlutunar aflaheimilda og skil á þeim á grundvelli þessa bráðabirgðaákvæðis.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hrun stórs hluta strandveiðiflot­ans. Mörg skipa hans hafa yfir mjög litlum aflaheimildum að ráða en hafa getað bjargað sér á undanförnum árum með því að leigja til sín heimildir frá öðrum útgerðum. Eftir tilkomu Kvótaþings hefur framboð á aflaheimildum til leigu stórlega dregist saman og með minnk­andi framboði hefur leiguverð jafnframt hækkað svo mjög, að nær útilokað er að veiðarnar geti staðið undir sér. Útgerðir margra þessara skipa eru því komnar á heljarþröm.
    Strandveiðiflotinn gegnir því mikilvæga hlutverki umfram önnur veiðiskip að sjá land­vinnslunni fyrir hráefni. Samkeppnisstaða landvinnslunnar við verkun á hafi úti er af ýmsum ástæðum erfið og því hefur hún dregist mjög saman. Þessu til viðbótar berst nú stöðugt minni afli að landi vegna erfiðrar kvótastöðu strandveiðiflotans með þeim afleiðingum að hefð­bundin landvinnsla á fiski dregst stöðugt saman; fyrirtæki neyðast ýmist til þess að loka vegna hráefnisskorts eða draga mjög saman seglin og segja upp fiskverkafólki. Nýjustu dæm­in frá Breiðdalsvík og Ísafirði sýna svo ekki verður um villst hve ört sígur nú á ógæfuhliðina.
    Á sama tíma og þessi öfugþróun á sér stað er einstök fiskigengd, einkum af þorski, á grunnslóð, hinni hefðbundnu veiðislóð strandveiðiflotans. Stofnar innfjarðarrækju minnka ört t.d. í Húnaflóa og í Ísafjarðardjúpi, enda er rækjan mikilvæg fæða þorsksins sem eltir hana nú inn í fjarðarbotna. Mjög margir, þar á meðal fiskifræðingar, eru þeirrar skoðunar að rétt sé og skynsamlegt að auka nú sóknina í þorsk á grunnslóðinni, m.a. til þess að gæta jafnvægis í lífríkinu. Þau veiðarfæri sem þar eru fyrst og fremst notuð, ekki síst við veiðar á handfæri og línu, eru ekki stórvirk veiðarfæri eins og t.d. botnvarpa og geta ekki talist ógn­un við nokkurn fiskstofn. Ótti við að auknar veiðiheimildir til strandveiðiflotans ógni þorsk­stofninum við Ísland er að mati flutningsmanna ástæðulaus. Löngu áður en slíkt gerðist væru veiðar með slíkum veiðarfærum hættar að standa undir sér og veiðiskipum mundi því fækka af sjálfu sér.
    Eins og áður segir hefur strandveiðiflotinn löngum þurft að leigja til sín umtalsverðar veiðiheimildir. Flestir útgerðarmenn sem þar koma við sögu eru því ekki óvanir að greiða gjald fyrir veiðiheimildirnar. Margir þeirra hafa lýst því yfir að þeir séu ekki andsnúnir því að greiða einhverja leigu fyrir þær viðbótaraflaheimildir sem þeir þurfa sér til viðurværis, eins og þeir hafa raunar lengi gert. Nú eru hins vegar engar slíkar heimildir í boði á mark­aðnum og þá sjaldan eitthvað fæst er verðið ævintýralega hátt vegna lítils framboðs en mik­illar eftirspurnar.
    Flutningsmenn þessa frumvarps telja nauðsynlegt vegna atvinnuhagsmuna og að teknu til­liti til óvenjumikillar þorskgengdar á grunnslóð að bregðast við vanda strandveiðiflotans og landvinnslunnar. Þess vegna leggja þeir til að á yfirstandandi fiskveiðiári verði aflaheimildir í þorski auknar um 15 þús. tonn og þeirri aukningu ráðstafað á markaði til strandveiðiflotans einvörðungu. Öðrum útgerðum verði ekki heimilað að leigja sér fiskveiðikvóta af þeim aflaheimildum. Jafnframt verði lagt bann við að umræddar aflaheimildir, sem þannig verði leigðar, verði framseljanlegar. Þanni gæti sá, sem hefur leigt til sín heimildir en nýtir þær ekki sjálfur, ekki framleigt þær öðrum. Hins vegar gæti hann geymt þær eða hluta þeirra til næsta fiskveiðiárs.
    Í frumvarpinu er lagt til að þau 15 þús. tonn, sem aflaheimildirnar verði auknar um á yfir­standandi fiskveiðiári, verði boðin strandveiðiflotanum til leigu á markaði. Eðlilegt er að settar verði sérstakar reglur um þessi viðskipti, m.a. á þá lund að enginn einn aðili geti leigt til sín þorra kvótans. Er í frumvarpinu lagt til að sjávarútvegsráðherra setji slíkar reglur.
    Ómögulegt að að segja fyrir um hvert yrði líklegt leiguverð á þeim aflaheimildum sem hér er um rætt. Því ræður að sjálfsögðu markaðurinn sjálfur. Hins vegar má búast við að leigu­verð lækki langt niður fyrir það sem leiguverðið á þorskveiðiheimildum hefur verið á síðustu missirum þar sem í fyrsta lagi er um að ræða stóraukið framboð, verði frumvarpið samþykkt, og í öðru lagi eru leiguheimildirnar bundnar við strandveiðiflotann einan og hann því ekki í samkeppni um leigutökuna við t.d. öflugar útgerðir frystitogara.
    Þá er í frumvarpinu lagt til að tekjum af leigu umræddra aflaheimilda verði skipt þannig að þriðjungur þeirra renni til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til þess að veita aðstoð þeim sveit­arfélögum, sem eiga í fjárhagserfiðleikum eftir að hafa misst aflaheimildir úr byggðarlaginu, þriðjungur renni til Byggðastofnunar til þess að standa straum af kostnaði við átaksverkefni til þess að greiða fyrir nýsköpun í atvinnulífi á landsbyggðinni og loks renni þriðjungur í ríkissjóð. Þó að leiguverð fyrir þessar aflaheimildir verði mun lægra en tíðkast hefur við miklu minna framboð á undanförnum missirum má þó ætla að samanlagðar leigutekjur geti orðið umtalsverð fjárhæð. Verður þeim fjármunum ekki betur varið en með því að greiða úr fjárhagsvanda sveitarfélaga, sem orðið hafa fyrir miklu fjárhagslegu áfalli sakir taps á kvóta úr byggðarlaginu, svo og til þess að greiða fyrir átaksverkefnum til nýsköpunar á lands­byggðinni.