Ferill 443. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 938  —  443. mál.



Svar



iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.

     1.      Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir skýrslu nefndar um atvinnurekstur kvenna frá nóvember 1998, sbr. lið 7.1 í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna?
    Helstu tillögur nefndarinnar voru annars vegar að komið yrði á fót miðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki þar sem hlut kvenna væri sérstakur gaumur gefinn og hins vegar að til kæmi stuðningur stjórnvalda við félag eða tengslanet kvenatvinnurekenda sem hefði að meg­inmarkmiði að efla samvinnu og samstöðu þeirra.
    Um mánaðamótin febrúar–mars tekur til starfa innan Iðntæknistofnunar Þjónustumiðstöð frumkvöðla og fyrirtækja sem veita á aðstoð litlum og meðalstórum fyrirtækjum og frum­kvöðlum. Þjónustumiðstöðin er vettvangur þeirra sem vilja eiga samstarf um að veita þjón­ustu á sviði nýsköpunar og atvinnuþróunar. Gert er ráð fyrir sérstökum stuðningi við atvinnu­rekstur kvenna innan miðstöðvarinnar og að hún safni upplýsingum um atvinnurekstur kvenna og greini þarfir atvinnurekenda fyrir leiðsögn og upplýsingar. Þá munu starfsmenn sérhæfa sig í atvinnurekstri kvenna og ráðgjöf til þeirra. Unnið verður að því að hvetja konur til að hasla sér völl sem atvinnurekendur og veita þeim aðstoð við stofnun og uppbyggingu fyrirtækja sinna. Á rekstraráætlun Iðntæknistofnunar fyrir árið 1999 eru eftirfarandi verkefni sem sérstaklega beinast að konum: Brautargengi, Norrænt samstarf (Kvinders rolle i værdi­skabningen í Norden) og Reynslunni ríkari. Þessi verkefni eru ýmist hafin eða í bígerð.
    Í ljósi niðurstaðna og tillagna nefndarinnar um að komið verði á fót tengslaneti eða félagi fyrir konur í atvinnurekstri skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra starfshóp í byrjun janúar 1999 sem hafa skyldi forgöngu um stofnun félags fyrir konur í atvinnurekstri. Félagið yrði stutt af stjórnvöldum fyrstu árin. Markmið og tilgangur þess væri að stuðla að samstarfi kvenna í atvinnurekstri innbyrðis og að mynda markhóp í viðskiptum við banka og lánastofn­anir. Þá starfaði tengslanet á vegum félagsins. Ráðgert er að halda stofnfund um miðjan apríl.

     2.      Hvað líður könnun á stöðu kvenna í iðnaði, sbr. lið 7.2 í framkvæmdaáætluninni? Hvenær er niðurstaðna að vænta?
    
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti vinnur að könnun á stöðu kvenna í iðnaði en kyngreindar upplýsingar á því sviði eru mikilvæg forsenda þess að hægt sé að byggja á staðreyndum við ákvarðanatöku um stuðningsaðgerðir. Það á einnig við um mælingar á árangri þeirra. Niður­stöðurnar verða bornar saman við þróun mála erlendis.

     3.      Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir niðurstöðum nefndar og starfshópa sem fjölluðu um upplýsingasamfélagið, með sérstöku tilliti til stöðu kynjanna, sbr. lið 7.4 í framkvæmda­áætluninni?
    
Eins og fram kemur í lið 7.4 í framkvæmdaáætluninni var eitt af meginmarkmiðum nefndarinnar og starfshópsins að nýta möguleika upplýsingatækninnar til að vinna gegn misrétti og tryggja jafnrétti óháð kyni, aldri og búsetu. Í þessu felst m.a. að auka fjarmenntun og at­vinnuþátttöku fólks með fjarvinnslu og hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því.

     4.      Hvaða reynsla er fengin af störfum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins hvað varðar sérstakan stuðning við atvinnusköpun kvenna og hvernig hyggst ráðherra beita sér til að efla þann stuðning, sbr. lið 7.7 í framkvæmdaáætluninni?
    Reynsla Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins af slíkum stuðningi við atvinnusköpun kvenna hefur verið góð þótt hafa verði í huga að sjóðurinn hefur einungis starfað í eitt ár og starfsemi og starfshættir eru enn í mótun. Í flestum tilfellum eru formlegir viðskiptavinir sjóðsins fyrir­tæki eða félagsform í einhverri mynd, en oft eru konur eigendur, stjórnarformenn og/eða for­svarsmenn þeirra. Eftirtektarvert er að konum fjölgar í hópi þeirra forsvarsmanna fyrirtækja sem leita til Nýsköpunarsjóðs eftir styrk til verkefna, ýmist beint eða í gegnum vöruþróunar- og markaðsdeild. Þar er miðað að því að greiða veg nýrra hugmynda og styrkja atvinnustarf­semi í landinu. Hins vegar er athyglisvert að í samkeppni sem nú stendur yfir á vegum Ný­sköpunarsjóðs um gerð viðskiptaáætlana, Nýsköpun '99, eru konur einungis 20% skráðra þátttakenda en hlutur karla er 71% og fyrirtækja 9%.
    Það er stefna iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis að sameina stuðningsaðgerðir þess við at­vinnulífið undir yfirstjórn „Átaks til atvinnusköpunar“ með fjárstuðningi frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Lítil og meðalstór fyrirtæki njóta því samhæfðra aðgerða ráðuneytisins og undirstofnana þess. Markmið átaksins er m.a. að stuðla að atvinnusköpun og aukinni sam­keppnishæfni atvinnulífsins, að samræma verkefni til hvatningar og stuðnings lítilla og með­alstórra fyrirtækja, svo og einstaklinga á sviði atvinnu- og nýsköpunar. Þá verður undir merkjum átaksins hvatt til aukins alþjóðasamstarfs fyrirtækja og útrásar þeirra á alþjóðamark­aði. Átak til atvinnusköpunar er ætlað konum jafnt sem körlum. Konur lögðu fram 16% um­sókna í verkefnið „Frumkvöðlastuðning“ á árunum 1996–98 og fengu 18% úthlutana. Sam­bærilegar tölur fyrir verkefnið „Snjallræði“ árin 1996–97 eru 16% umsókna og 5% úthlutana.

     5.      Er hafin könnun á stöðu jafnréttismála innan ráðuneytisins og hjá þeim stofnunum sem undir það heyra, sbr. lið 7.9 í framkvæmdaáætluninni? Ef svo er, hvað hefur hún leitt í ljós?

    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hefur ekki hafið könnun á sviði jafnréttismála innan ráðu­neytisins. Hins vegar hafa slíkar kannanir verið gerðar hjá Iðntæknistofnun og Löggildingar­stofu. Iðntæknistofnun hefur reglulega gert úttekt á jafnréttismálum hjá stofnuninni. Jafnrétt­iskannanir voru gerðar árin 1989, 1993 og 1995. Staða jafnréttismála var könnuð hjá Lög­gildingarstofu sumarið 1998 og var hún talin góð.

     6.      Hvað líður gerð jafnréttisáætlana hjá ráðuneytinu og þeim stofnunum sem undir það heyra, sbr. lið 7.9 í framkvæmdaáætluninni?
    
Jafnréttisáætlun innan iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis er í undirbúningi. Af undirstofnunum ráðuneytisins er Iðntæknistofnun eina stofnunin sem hefur gert jafnréttisáætlun. Ráðu­neytið mun beita sér fyrir því eftir sem áður að stofnanir sem undir það heyra geri einnig slík­ar jafnréttisáætlanir.