Ferill 92. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1072  —  92. mál.




Nefndarálit



um till. til þá. um hvalveiðar.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Meiri hluti sjávarútvegsnefndar hefur tekið þá ákvörðun að afgreiða tillögu til þings­ályktunar um hvalveiðar í þskj. 92 eins og fram kemur í nefndaráliti hans í þskj. 1018.
    Minni hlutinn tekur undir það viðhorf að leggja beri áherslu á að nýta allar auðlindir sjáv­ar á íslensku hafsvæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lif­andi auðlinda, þar með taldra hvalastofna við Ísland.
    Minni hlutinn gerir á hinn bóginn eftirfarandi athugasemdir við þá afgreiðslu sem meiri hlutinn leggur til:
    Í fyrsta lagi gerir minni hlutinn athugasemdir við að meiri hlutinn skuli leggja til að Al­þingi álykti um að hafnar verði hvalveiðar án þess að skilgreina nánar hvenær veiðarnar skuli hefjast. Minni hlutinn telur að með því að standa þannig að ályktuninni sé verið að gera stjórnvöldum erfiðara fyrir en ella að vinna sjónarmiðum Íslendinga fylgi á alþjóðavettvangi. Sú aðferðafræði sem meiri hlutinn leggur til að beitt verði í þessu máli er ekki ólík því að lýsa yfir stríði án þess að afla sér þeirra tækja og tóla sem nauðsynleg eru til að heyja stríðið eða hafi nokkra áætlun sem að gagni gæti komið við slíkan stríðsrekstur. Íslendingar eru háð­ari viðskiptum með sjávarafurðir en nokkur önnur þjóð og byggja afkomu sína á verslun með þær víða um heim. Andstaða við hvalveiðar er meðal vinsælustu mála umhverfissamtaka og þeim vex ásmegin þegar umræða um hvalveiðar stendur sem hæst. Um árabil hafa umhverfis­samtök barist gegn hvalveiðum og notið til þess mikils fjárhagslegs styrks. Þá er til þess að líta að í nokkrum þeirra ríkja sem skipta okkur miklu máli í viðskiptalegu tilliti er stefna stjórnvalda styrkur fyrir þessi samtök.
    Í öðru lagi gerir minni hlutinn athugasemdir við að ekki skuli kveðið skýrt á um í tillög­unni á hvaða dýrum skuli hefja veiðar. Minni hlutinn telur að farsælla hefði verið að afmarka það, t.d. með því að hefja fyrst veiðar á hrefnu.
    Í þriðja lagi vekur minni hlutinn eftirtekt á því að óljóst er með öllu hvaða efnahagslegi ávinningur felst í því að hefja hvalveiðar, meðan jafnóljóst er og raun ber vitni hvort mögu­legt er að selja hvalaafurðir.
    Líta má á flutning tillögunnar og samþykkt meiri hlutans sem vantraust á ríkisstjórnina sem samþykkti vorið 1997 að gera tillögur nefndar sem starfaði undir forustu Árna R. Árna­sonar að sínum og í framhaldi af undirbúningsvinnu sem tillögurnar fólu í sér að taka ákvörðun um framlagningu þingsályktunartillögu. Lítið hefur verið unnið samkvæmt tillögum nefndarinnar. Þannig hefur ekki tekist að byggja NAMMCO upp eins og lagt er til né heldur verið kannað hvaða möguleika endurnýjuð aðild Íslands að Alþjóðahvalveiðiráðinu kunni að bjóða upp á. Engar áætlanir eru til um hvernig verði á sem hagkvæmastan og árangurs­ríkastan hátt staðið að fræðslu- og kynningarstarfi um málstað Íslands á erlendum vettvangi, þar á meðal gagnvart umhverfissamtökum.
    Í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum varðandi hvalveiðar og þeirrar að­ferðafræði sem meiri hlutinn leggur nú til telur minni hlutinn það ábyrgðarhlut að afgreiða málið á þennan hátt.

Alþingi, 9. mars 1999.



Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Svanfríður Jónasdóttir.