Ferill 198. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1136  —  198. mál.




Skýrsla



forsætisráðherra um stöðu, aðbúnað og kjör öryrkja, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)


Inngangur.
    Síðasta haust óskuðu nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar eftir skýrslu frá forsætisráð­herra um stöðu, aðbúnað og kjör öryrkja. Þjóðhagsstofnun vann skýrsluna. Upplýsingar hafa m.a. verið sóttar til Tryggingastofnunar ríkisins, fjármálaráðuneytis og heilbrigðis- og trygg­ingamálaráðuneytis.
    Eins og fram kemur í skýrslunni hefur hagur öryrkja sífellt batnað á undanförnum árum. Kaupmáttur bóta hefur aukist og þjónusta við öryrkja hefur aukist og orðið fjölbreytilegri. Á næstu árum þarf þó enn frekar að styrkja stöðu þessa hóps og þá sérstaklega með áherslu á endurhæfingu svo að flestir verði sjálfbjarga um tekjuöflun og til sjálfstæðs lífs.

1. Hækkun örorkulífeyris og tekjutryggingar síðustu fimm ár í samanburði við þróun lágmarkslauna, að teknu tilliti til eingreiðslna og tekjutryggingarauka.
    Síðastliðin fimm ár hafa lágmarkslaun hækkað verulega umfram almenn laun. Að baki þessari þróun liggur einkum það að samið hefur verið um eingreiðslur sem hafa vegið þungt hjá hinum lægstlaunuðu. Í síðustu kjarasamningum voru lægstu laun hækkuð verulega eða upp í 70 þús. kr. Frá 1993–98 hafa lágmarkslaun með eingreiðslum hækkað um 52% en launavísitala Hagstofu Íslands um 29,8%. Þannig hækkuðu lágmarkslaun um 17% umfram launavísitöluna. Hafa þarf í huga að afar fáir þiggja laun samkvæmt lágmarkstaxta og í raun var verið að færa taxta að raunverulegum launum. Bætur almannatrygginga hafa fylgt al­mennum kjarasamningum og því er nærtækara að miða við hvernig laun á almennuum mark­aði hafa þróast. Tafla 1 sýnir að laun á almennum markaði hafa hækkað um 25,4 stig eða ámóta og lágmarksbætur einhleypra.
    Tekið hefur verið tillit til umsamdra eingreiðslna við ákvörðun bóta almannatrygginga. Örorkulífeyrir og tekjutrygging hafa hækkað um 17,4% á þessu tiltekna árabili. Þegar heim­ilisuppbótum er bætt við nemur hækkunin 24,3%. Heimilisuppbótin hækkaði um rúm 40% 1. júní 1997, en á móti var dregið úr heimild til niðurfellingar á áskriftargjöldum að Ríkisút­varpinu og fastagjaldi símans.
    Kaupmáttur lífeyrisþega sem nýtur óskertra heimilisuppbóta hefur hækkað um tæp 14% en kaupmáttur grunnlífeyris og tekjutryggingar örorkulífeyrisþega hefur hækkað um 7,5%.
    Í töflu 1 eru þessar vísitölur sýndar og forsendur í viðaukatöflu V.I.1. Eingreiðslur eru meðtaldar í tölum um laun og bætur.

Tafla 1. Vísitölur launa og bóta.
1993 = 100



Lágmarks-laun

Launa-vísitala
Launavísitala
miðað við almennan markað
Grunnlífeyrir og tekjutrygging
Með heimilis­uppbótum
1993 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0
1994 101,0 101,2 100,9 99,4 99,4
1995 107,2 105,8 105,2 102,1 102,4
1996 114,2 112,5 110,7 106,2 106,5
1997 129,3 118,6 117,2 114,3 110,6
1998 152,1 129,8 125,4 124,3 117,4

2. Fjöldi öryrkja sem njóta fullrar tekjutryggingar. Samanburður við aðrar Norðurlandaþjóðir.
    Tekjutryggingin var lögfest árið 1972. Á þeim rúmlega aldarfjórðungi sem liðinn er hafa geysilegar breytingar orðið á lífeyriskerfi landsmanna. Þar ber auðvitað langhæst hversu hin­um almennu lífeyrissjóðum hefur vaxið fiskur um hrygg. Af þessum ástæðum segir þróunin frá 1972 lítið. Hlutfall þeirra sem fá fulla tekjutryggingu hefur farið lækkandi meðal annars vegna hærri lífeyris frá sjóðunum. Tekjutrygging var hugsuð sem tímabundið úrræði sem smám saman viki fyrir greiðslum úr lífeyrissjóðum eftir því sem þeir efldust, sérstaklega á það við um ellilífeyri. Með hækkandi örorkugreiðslum úr lífeyrissjóðum má búast við að hlutfall þeirra sem njóta fullrar tekjutryggingar lækki í samræmi við uppbyggingu almanna­trygginga.
    Undanfarin ár hefur verið leitast við að draga úr jaðaráhrifum í almannatryggingakerfinu, meðal annars með því að færa fastagjald af síma og afnotagjald Ríkisútvarpsins inn í heim­ilisuppbót og með því að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga skerðir ekki lengur bætur almanna­trygginga. Þá voru frítekjumörk nýverið hækkuð verulega þannig að jaðaráhrifin koma fram við mun hærri tekjur en áður og hafa þar af leiðandi áhrif á færri lífeyrisþega. Þetta er jafn­framt meiri hvati til að afla eigin tekna en var fyrir breytinguna.
    Tryggingastofnun hefur ekki haldbærar eldri tölur en frá 1993 og eru þær sýndar í töflu 2.

Tafla 2. Fjöldi öryrkja með fulla tekjutryggingu.



Fjöldi með fulla
tekjutryggingu
Örorkulífeyris-
þegar alls
Hlutfall með óskerta tekjutryggingu, %
1993 2.902 5.963 48,7
1994 3.067 6.540 46,9
1995 3.319 7.175 46,3
1996 3.368 7.577 44,5
1997 3.483 7.776 44,8
1998 3.396 7.980 42,6

    Þótt greina megi ákveðin líkindi með lífeyriskerfum Norðurlandanna er fjölmargt sem skilur á milli. Nefna má að í Danmörku eru örorkugreiðslur einvörðungu frá almannatryggingum, í Noregi er engin tekjutenging, en aftur eru reglur í Finnlandi þannig að þegar örorku­lífeyrir frá lífeyrissjóði fer yfir ákveðið mark falla örorkugreiðslur almannatrygginga alveg niður. Því er afar vafasamt að bera saman fjölda þeirra sem fá óskertar bætur á Norðurlönd­um.

3. Fjöldi öryrkja á vinnumarkaði og á atvinnuleysisskrá.
    Helsta heimildin um atvinnuþátttöku landsmanna og starfshlutfall er vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands. Sú könnun er byggð á úrtaki og þar kemur ekki fram hvort menn eru ör­yrkjar eða ekki. Þó svo væri gæfi það ekki marktækar upplýsingar um starfshlutfall öryrkja. Nokkra vísbendingu um atvinnuþátttöku öryrkja má fá úr skattframtölum. Samkvæmt athug­un Þjóðhagsstofnunar fengu 37,8% öryrkja atvinnutekjur á árinu 1997, sjá nánar í töflu V.II.9 í viðauka. Í ljósi þess að meðalatvinnutekjurnar eru lágar eða sem svarar 36.500 kr. á mánuði er líklegt að starfshlutfall flestra sé lágt. Þá er þess einnig að gæta að margir ör­yrkjar vinna á vernduðum vinnustöðum.
    Þjóðhagsstofnun athugaði einnig hversu margir öryrkjar hefðu talið fram atvinnuleysis­bætur fyrir árið 1997. Niðurstaðan var sú að 4,5% öryrkja höfðu fengið atvinnuleysisbætur að meðaltali 190 þús. kr. á árinu. Vinnumálastofnun félagsmálaráðuneytisins sér um atvinnu­leysisskráningu. Engar upplýsingar er þar að fá um fjölda öryrkja á atvinnuleysisskrá og því ekki hægt að gera þróun undanfarinna fimm ára skil.

4. Meðalmánaðargreiðslur ríkisins til öryrkja á síðasta ári.
    Ríki og sveitarfélög inna af hendi ýmsar greiðslur til öryrkja. Þar munar auðvitað mest um greiðslur almannatrygginga. Samkvæmt bráðabirgðatölum um greiðslur almannatrygg­inga til örorkulífeyrisþega námu þær 4.912 millj. kr. á árinu 1998 og meðalfjöldi lífeyrisþega var 7.870. Meðalgreiðslur á mann námu því 52.000 kr. á mánuði. Nánari skipting eftir teg­und greiðslna kemur fram í töflu V.I.2 í viðauka.
    Örorkustyrkþegar voru 1.617 talsins að meðaltali á síðasta ári. Greiðslur til þeirra námu alls 312,7 millj. kr. og komu því að jafnaði 16.100 kr. í hlut hvers þeirra á mánuði.
    Alls var greiddur endurhæfingarlífeyrir að fjárhæð 212,4 millj. kr. Skipist fjárhæðin milli 247 lífeyrisþega og meðalgreiðsla á mánuði var því 72.000 kr.

5. Hlutfall örorkulífeyrisgreiðslna ríkisins af vergri landsframleiðslu og útgjöld á íbúa samanborið við aðrar Norðurlandaþjóðir.
    Alls námu greiðslur vegna örorkulífeyris og tekjutryggingar 3.483 millj. kr. (þ.m.t. endur­hæfingarlífeyrir) árið 1998, sem er 0,62% af landsframleiðslu.
    Mismunur á útgjöldum vegna örorkulífeyris í einstökum löndum skýrist af fjölmörgum þáttum. Þar má nefna fjölda örorkulífeyrisþega, mismunandi skilgreiningu á örorku og loks lífeyris- og bótakerfi viðkomandi landa.
    Skilgreining örorku er mismunandi eftir löndum. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um að miða örorku við læknisfræðilega kvarða fremur en möguleika manna til að afla tekna eins og verið hefur um langt árabil. Bætur til öryrkja eru greiddar í tveimur flokkum eftir örorku­stigi, þ.e. örorkustyrkur og örorkulífeyrir. Til þess að eiga rétt á örorkulífeyri þarf viðkom­andi að vera metinn a.m.k. 75% öryrki, en rétt á örorkustyrk eiga þeir sem eru a.m.k. 50% öryrkjar. Mikill munur er á réttindum þessara hópa í almannatryggingakerfinu. Réttur ör­orkustyrksþega takmarkast við grunnlífeyri, bílakaupastyrk og bensínstyrk. Í Svíþjóð öðlast menn sem teljast 25% öryrkjar hins vegar rétt til örorkugreiðslna í hlutfalli við örorku. Miðað er við 40% örorku í Finnlandi, en í hinum löndunum er miðað við 50% örorku. Ítrekað er að skilgreining á örorku er mismunandi í löndunum og þarf að skoða hlutfall örorku í ljósi þess.
    Fjöldi öryrkja á Norðurlöndum er sýndur í töflu 3. Þar kemur fram að á árinu 1995 voru 5,4% Íslendinga á aldrinum 16–64 ára örorkulífeyrisþegar. Flestir örorkulífeyrisþegar voru í Finnlandi 9% og fæstir í Danmörku 4,3%. Næstfæstir voru þeir á Íslandi.

Tafla 3. Fjöldi öryrkja á Norðurlöndum 1995.


Hlutfall af íbúafjölda.


Ísland 1)
5,4%
Danmörk
4,3%
Finnland
9,2%
Noregur
7,4%
Svíþjóð
7,6%

1) Örorkulífeyris- og styrkþegar.


Heimild: Social Protection in the Nordic Countries 1996.



    Við þennan samanburð þarf að hafa fyrrgreindar skilgreiningar á örorku í huga. Í töflu 3 var miðað við öryrkja á aldrinum 16–64 ára. Við samanburð á örorkulífeyrisgreiðslum í töflu 4 þarf einnig að hafa í huga að eftirlaunaaldur er ekki sá sami í löndunum fimm því að réttur til örorkugreiðslna fellur niður þegar öryrki kemst á ellilífeyri. Finnar og Svíar komast á eftirlaun 65 ára, en miðað er við 67 ára aldur á Íslandi, Noregi og Danmörku.

Tafla 4. Örorkulífeyrir sem hlutfall af landsframleiðslu á Norðurlöndum 1996.



Ríki og lífeyrissjóðir, % Frá ríki, %
Ísland 1,49 1,01
Danmörk 2,35 1,78
Finnland 3,8 0,71
Noregur 3,11 0,93
Svíþjóð 2,75 0,79

Heimild: Social Protection in the Nordic Countries 1996.



    Einfaldur samanburður á félagslegum útgjöldum í hlutfalli við landsframleiðslu sýnir að­eins ófullkomna mynd. Á undanförnum árum hefur OECD einmitt brugðið ljósi á nettó fé­lagsleg útgjöld að teknu tilliti til skattlagningar á lífeyri og bætur. Að þessu athuguðu breyt­ist myndin af félagslegum útgjöldum verulega. Í þessum útreikningum kemur fram að félags­leg útgjöld á Norðurlöndunum eru hvað hæst meðal aðildarríkjanna í hlutfalli við landsfram­leiðslu áður en tekið er tillit til skatta. Danir og Svíar vörðu um 36% landsframleiðslu til opinberra félagsmála, en t.d. í Bandaríkjunum var hlutfallið 17% og 26% í Bretlandi. Þegar hins vegar tillit er tekið til skattlagningar félagslegra bóta jafnast þessi munur verulega. Net­tóútgjöld Dana nema samkvæmt OECD 24% af landsframleiðslu og Svía um 27%, en nettó­útgjöld Breta eru 24,5% og Bandaríkjamanna 24,5%. Í síðastnefnda landinu eru margvísleg félagsleg útgjöld á ábyrgð einkaaðila auk þess sem skattar á félagslegar bætur eru lágar. Ekki liggja fyrir viðlíka reikningar fyrir Ísland, en þetta er dregið fram hér til að undirstrika hversu takmarkaða sögu útgjöldin ein og sér segja.

6. Mánaðarlegur framfærslukostnaður örorkulífeyrisþega og tekjur hér á landi samanborið við örorkulífeyrisþega annars staðar á Norðurlöndum.
    Um þetta eru engar upplýsingar til, hvorki hér á landi né annars staðar á Norðurlöndum. Hér er væntanlega átt við einhvers konar lágmarksframfærslu. Það er hugtak sem er nánast óbrúklegt því að þarfir manna eru ólíkar og það sem einum finnst munaður finnst öðrum lífs­nauðsyn. Neyslukannanir sem gerðar eru hér á landi sem og annars staðar á Norðurlöndum eru byggðar á úrtaki allra heimila og gefa ekki marktækar niðurstöður um neyslu öryrkja.

7. Hlutfall öryrkja sem eiga einungis rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun eða sambærilegum opinberum aðilum og hlutfall öryrkja sem fá innan við 30 þús. kr. á mánuði í greiðslur frá lífeyrissjóðum.
    Ítarlega umfjöllun um þetta er að finna í viðauka II. Þar kemur fram að 57% öryrkja fá greiðslur úr lífeyrissjóði og 43% fá engar greiðslur. Skiptingu eftir fjárhæð greiðslna er að finna í töflu 5.

Tafla 5. Greiðslur úr lífeyrissjóði 1997.



Innan við 10 þús. kr. á mánuði 10–20 þús. kr.
á mánuði
20–30 þús. kr.
á mánuði
Meira en 30 þús. kr. á mánuði
Fjöldi
994 970 947 2.103
Hlutfall
19,8% 19,3% 18,9% 41,9%
Meðalgreiðsla, þús. kr. á mánuði
5,2 14,8 24,8 55,9

8. Skattbyrði örorkulífeyrisþega.
    Tekjuskattskerfið er þannig uppbyggt að þegar kaupmáttur vex hækkar skatturinn hlut­fallslega meira, en þegar kaupmáttur minnkar léttist skattbyrðin. Er kerfið hugsað til að vinna á móti hagsveiflum og jafna sveiflur í ráðstöfunartekjum einstaklinga. Þessi áhrif eru mjög áberandi í þróun undanfarinna ára þegar almennur kaupmáttur hefur vaxið hröðum skrefum. Skattleysismörk hafa tekið mið af verðlagsbreytingum en ekki almennum tekju­breytingum. Persónuafsláttur hefur lækkað um 1,7% frá 1993. Á móti vegur lækkun skatt­hlutfalls í staðgreiðslu um 2,32 prósentustig eða úr 41,34% í 39,02%. Í ársbyrjun 1999 lækkaði hlutfallið enn í 38,34%. Í tengslum við síðustu kjarasamninga var ráðist í breytingar á skattkerfinu sem miðuðu að því að lækka jaðarskatta. Þá skiptir breyting á skattalegri með­ferð lífeyrisiðgjalds miklu fyrir hinn almenna launþega. Hvað lífeyrisþeganna varðar skiptir frádráttur lífeyrsiðgjalds ekki eins miklu máli því þeir hafa yfirleitt litlar atvinnutekjur. Af þessum sökum er viðbúið að skattbyrði örorkulífeyriþega hafi þyngst á undanförnum fimm árum með vaxandi kaupmætti.
    Gróf áætlun var gerð um þróun tekjuskattsstofns örorkulífeyriþega árin 1993–98. Gengið var út frá meðaltekjum ársins 1997 samkvæmt skattframtali og tekjur annarra ára áætlaðar miðað við viðeigandi vísitölur eftir tekjuliðum. Áætluð skattbyrði þeirra er sýnd í töflu 6 en nánari sundurliðun er að finna í viðauka, töflu V.I.3.

Tafla 6. Áætlun um tekjur og skattar öryrkja 1993–98.
(Fjárhæðir í þús. kr. á ári. )

1993 1994 1995 1996 1997 1998
Einhleypir
Heildartekjur
832 841 858 892 944 1.011
Tekjuskattsstofn
832 841 857 887 938 1.004
Reiknaðir skattar
59 65 65 78 99 112
Vaxtabætur
9 10 10 12 13 13
Barnabætur
Nettóskattar
50 55 55 66 87 98
Ráðstöfunartekjur
783 786 803 826 857 912
Kaupmáttur ráðstöfunartekna, 1993 = 100
100,0 99,0 99,5 100,1 102,0 106,8
Einstæðir foreldrar
Heildartekjur
1.203 1.217 1.241 1.282 1.336 1.404
Tekjuskattsstofn
726 734 748 774 819 878
Reiknaðir skattar
15 20 20 30 49 62
Vaxtabætur
41 45 47 55 57 60
Barnabætur
248 249 255 256 256 256
Nettóskattar
-275 -274 -283 -280 -263 -253
Ráðstöfunartekjur
1.478 1.492 1.524 1.562 1.600 1.657
Kaupmáttur ráðstöfunartekna, 1993 = 100
100,0 99,5 99,9 100,2 100,8 102,7
Hjón
Heildartekjur
2.229 2.252 2.338 2.470 2.590 2.802
Tekjuskattsstofn
2.229 2.252 2.322 2.410 2.517 2.723
Reiknaðir skattar
351 368 386 422 468 502
Vaxtabætur
26 28 30 34 36 38
Barnabætur
29 29 30 30 30 30
Nettóskattar
296 311 326 357 402 434
Ráðstöfunartekjur
1.933 1.942 2.012 2.113 2.188 2.368
Kaupmáttur ráðstöfunartekna, 1993 = 100
100,0 99,0 100,9 103,6 105,4 112,2

9. Hlutfall greiðslna úr lífeyrissjóðakerfi eða öðrum sparnaðarformum til öryrkja í samanburði við greiðslur úr almannatryggingakerfi.
    Athugun Þjóðhagsstofnunar á skattframtölum örorkulífeyrisþega leiðir í ljós að 57% þeirra fengu greiðslur úr lífeyrissjóðum á árinu 1997 og var meðalgreiðsla til þeirra 385 þús. kr. eða um 32 þús. kr. á mánuði. Heildargreiðslur úr lífeyrissjóði námu 1.928 millj. kr., en greiðslur frá Tryggingastofnun til sömu örorkulífeyrisþega námu 3.925 millj. kr. samkvæmt skattframtölum þeirra. Hlutur lífeyrissjóðanna í lífeyri þessara öryrkja var því 32,9%.

10. Félagsleg aðstoð við öryrkja, fjárveitingar til hennar frá ríki og sveitarfélögum og hlutfall þeirra af landsframleiðslu samanborið við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.
    Gögn eru ekki tiltæk um hversu miklu er varið til félagslegrar aðstoðar til öryrkja sérstak­lega hjá ríki og sveitarfélögum. Örorkulífeyrisþegar eiga rétt á aðstoð samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og fatlaðir njóta félagslegrar aðstoðar frá ríki samkvæmt lögum um mál­efni fatlaðra (sbr. 13. kafla). Öryrkjar njóta enn fremur aðstoðar félagsþjónustu sveitarfélaga, þegar svo ber undir, en í gögnum þeirra kemur almennt ekki fram hvort aðstoð er veitt vegna örorku. Af gögnum Félagsþjónustunnar í Reykjavík má hins vegar ráða að fjöldi ör­yrkja á aldrinum 18–66 ára hefur farið hlutfallslega lækkandi miðað við sama aldurshóp allra þeirra er njóta fjárhagsaðstoðar. Ekki hafa fengist samsvarandi upplýsingar frá öðrum sveitarfélögum. Hafa verður í huga að umtalsverðar breytingar voru gerðar á reglum um fjár­hagsaðstoð á því tímabili sem hér er miðað við og tekjumörk fyrir aðstoð það lág að margir lífeyrisþegar sem áður áttu rétt á aðstoð misstu þann rétt. Viðmiðunarmörkin eru 53.596 kr. og hafa verið óbreytt síðan í apríl 1995.

Tafla 7. Fjöldi heimila er njóta fjárhagsaðstoðar Félagsþjónustunnar í Reykjavík.



1989 1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997
Allir 2.553 2.574 2.567 2.419 2.891 3.293 3.788 3.680 3.529
Þar af öryrkjar 546 549 568 475 490 552 564 532 472
Hlutfall,% 21,3 21,3 22,1 19,6 16,9 16,8 14,9 14,5 13,4

    Tafla 7 sýnir að fjöldi öryrkja sem notið hefur fjárhagsaðstoðar í Reykjavík hefur verið tiltölulega stöðugur. Hlutfall þeirra af heild fer lækkandi m.a. vegna vaxandi atvinnuleysis fram til 1995. Þá þarf einnig að hafa í huga að í ársbyrjun 1995 tóku lög um húsaleigubætur gildi og með tilkomu þeirra dró úr fjárhagsaðstoð vegna húsaleigu. Í desember árið 1998 fengu 590 öryrkjar húsaleigubætur í Reykjavík af alls 2.274 bótaþegum, eða 25,9% af heild.
    Samanburður við aðrar Norðurlandaþjóðir er óraunhæfur vegna takmarkaðra upplýsinga.

11. Tekju- og eignadreifing öryrkja í samanburði við aðra þjóðfélagshópa.
    Ítarlega er fjallað um þetta efni í viðauka II. Dreifing tekna öryrkja er verulega frábrugðin tekjudreifingu allra framteljenda. Helsti munurinn er sá að meiri jöfnuður er í tekjum öryrkja. Hins vegar er eignadreifingin mjög svipuð meðal öryrkja og annarra.

12. Aðstoð hjálparstofnana við öryrkja.
    Upplýsingar frá hjálparstofnunum sýna að öryrkjum sem leita til þeirra hafi fjölgað á síð­ari árum. Líklegt er að skýring þessa sé að nokkru leyti sú að reglum um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar og fleiri sveitarfélaga hefur verið breytt þannig að margir lífeyrisþegar eiga ekki lengur rétt á aðstoð frá félagsmálastofnunum. Þá hafði aukið atvinnuleysi áhrif á hag öryrkja eins og annarra. Ekki liggja fyrir athuganir eða tölulegar upplýsingar til að sýna þróunina en brýnt er að kanna aðstæður þess hóps sem hefur þurft að leita sér aðstoðar.

13. Árleg hækkun framlaga til Framkvæmdasjóðs fatlaðra og til reksturs stofnana og þjónustu við fatlaða og fjölgun vistrýma.
    Í töflu 8 er sýnt hvernig framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra og til reksturs stofnana fatlaðra hafa þróast frá 1990 til fjárveitinga þessa árs og eru tölurnar á föstu verðlagi. Fram kemur að verulegar sveiflur hafa verið í raunaukningu í framlögum til sjóðsins frá einu ári til annars, sem einkum skýrist af því að byggingarframkvæmdir hafa verið mismiklar. Hins vegar hefur verið mikill og stöðugur vöxtur í rekstri og þjónustu við fatlaða. Þannig aukast framlög ríkissjóðs til reksturs stofnana fatlaðra um 35% að raungildi frá árinu 1993–99.


Tafla 8. Framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra og til málefna fatlaðra 1990–99.
(Í millj. kr. á verðlagi ársins 1999.)

Framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra Framlög til reksturs stofnana fatlaðra
Millj. kr. Breyting frá fyrra ári Millj. kr. Breyting frá fyrra ári
1990 312 1.792
1991 311 -0,4% 1.928 7,5%
1992 401 28,6% 2.011 4,4%
1993 365 -9,0% 2.177 8,2%
1994 379 4,0% 2.227 2,3%
1995 583 53,9% 2.272 2,0%
1996 433 -25,7% 2.359 3,8%
1997 179 -58,6% 2.514 6,6%
1998 313 74,6% 2.853 13,5%
1999 235 -25,0% 2.937 2,9%

     Tafla 9 sýnir hvernig vistun fatlaðra hefur verið háttað undanfarin ár. Stefna stjórnvalda hefur verið sú að auka framboð vistrýmis í sambýlum og í félagslegum íbúðum en dregið er úr rýmum á vistheimilum, eins og taflan sýnir.

Tafla 9. Vistrými fatlaðra.



1991 1995 1999
Sambýli
226 314 434
Sjálfstæð búseta (félagslegar íbúðir o.fl.)
45 206 285
Vistheimili
294 247 194
Samtals
565 767 913

Heimild: Félagsmálaráðuneyti.



14. Örorkulífeyrisþegar á leigumarkaði.
    Engar upplýsingar eru til um hversu margir örorkulífeyrisþegar eru leigjendur. Hins vegar má athuga hversu margir þeirra eiga íbúðarhúsnæði. Samkvæmt athugun Þjóðhagsstofnunar áttu 40% einhleypra öryrkja fasteign og 89% hjóna. Með auknu framboði á félagslegu hús­næði má gera ráð fyrir að þeim öryrkjum sem teljast leigjendur fjölgi.

15. Skerðing eða svipting tekjutryggingar öryrkja vegna tekna maka.
    Í töflu 10 eru upplýsingar um fjölda giftra örorkulífeyrisþega sem fá ekki fulla tekjutrygg­ingu vegna tekna maka. Nánari sundurliðun eftir aldri og kyni er að finna í viðauka, töflu V.I.4. Ekki reyndist unnt að finna eldri tölur.

Tafla 10. Fjöldi öryrkja með skerta tekjutryggingu vegna tekna maka.



1995 1996 1997 1998
Fjöldi með skerðingu vegna tekna maka
1.664 1.892 2.150 2.335
Fjöldi alls með tekjutryggingu
5.906 6.283 6.327 6.464
Hlutfall með skerðingu, %
28,1 30,1 34,0 36,1

Heimild: Tryggingastofnun ríkisins.



    Taflan ber með sér að þeim giftu örorkulífeyrisþegum sem fá ekki fulla tekjutryggingu vegna tekna maka hefur fjölgað hlutfallslega á þeim fjórum árum sem hér eru lögð til grund­vallar. Þróunina má einkum rekja til vaxandi kaupmáttar og aukinnar atvinnuþátttöku.
    Í lok síðasta árs var gerð breyting á tilhögun á frítekjumörkum tekjutryggingar vegna tekna maka og kom sú breyting til framkvæmda 1. janúar sl. Frítekjumark vegna tekna hjóna þar sem annað er öryrki var hækkað úr 20.112 kr. í 40.224 kr. Það þýðir að þau fá óskerta tekjutryggingu við heimilistekjur allt að 90.504 kr. á mánuði í stað 40.224 kr. sem áður var. Heildartekjur hjóna þar sem annað er öryrki voru tæplega 2.650 þús. kr. árið 1997 og tekjur makans voru um 1.740 þús. kr. Áætlað er að þessi breyting muni auka tekjur hjóna þar sem annað er öryrki um 200 millj. kr. og þannig verði snúið við þeirri þróun sem lýst er í töflu 10 og hlutfallið lækki.
    Tafla 11 sýnir hvernig tekjur maka öryrkja dreifast. Taflan sýnir að lítil fylgni er milli tekna makanna og jafnframt að nokkur hópur maka öryrkja aflar hárra tekna en tekjur ann­arra eru aftur lágar.

Tafla 11. Tekjur giftra öryrkja og maka þeirra 1997.


(Tekjubil miðast við tekjur maka.)


Árstekjur,
þús. kr.
Fjöldi Meðaltekjur
maka
Meðaltekjur
öryrkja
0 54 0 533
1–200 198 95 556
200–400 187 304 505
400–600 209 497 550
600–800 259 701 615
800–1.000 322 900 621
1.000–1.200 318 1.098 635
1.200–1.400 271 1.300 551
1.400–1.600 243 1.499 579
1.600–1.800 227 1.701 504
1.800 og yfir 1.127 2.949 451
Samtals 3.415 1.589 534

16. Hámarkslífeyrir úr almannatryggingakerfinu samanborið við aðrar Norðurlandaþjóðir.
    Eins og fram kemur að framan eru lífeyriskerfi Norðurlanda um margt ólík og því segir takmarkaða sögu að draga fram hámarkslífeyrisgreiðslur úr almannatryggingakerfi.

Tafla 12. Grunnlífeyrir og „tekjutrygging“ á Norðurlöndum.
(Ísl. kr. á mánuði miðað við jafnvirðisgildi gjaldmiðla.)

Grunnlífeyrir „Tekjutrygging“ Samtals
Ísland 13.373 26.615 39.988
Danmörk 35.016 34.712 69.728
Finnland 5.815 27.199 33.015
Noregur 28.806 17.729 46.535
Svíþjóð 22.516 13.020 35.536

Heimild: Social Protection in the Nordic Countries 1996, NOSOSCO, 1998.



    Taflan gefur ekki góða mynd af stöðu öryrkja í þessum löndum. Ástæða þess er fyrst og fremst sú hversu mikill munur er á uppbyggingu lífeyriskerfa og þá einkum er varðar þátt al­mannatrygginga annars vegar og lífeyrissjóða hins vegar. Til þess að bera saman þessi lífey­riskerfi er nauðsynlegt að setja fram „dæmigerð tilvik“, sem sýna hvernig kerfin starfa nú.
    Dæmi um Ísland er unnið þannig að gert er ráð fyrir að maður afli meðallauna (um 125 þús. kr.) frá tvítugu til fimmtugs og hann verði þá öryrki. Gert er ráð fyrir að hann hafi greitt af þessum launum í lífeyrissjóð samkvæmt þeim reglum er í gildi voru hjá almennu lífeyriss­jóðunum 1996. Árlega vann hann sér rúmlega 2,5 lífeyrisstig á starfsævi sinni og örorkulíf­eyrisréttindin eru byggð á framreikningi til 67 ára aldurs. Þetta gefur viðkomandi rétt á ör­orkulífeyri sem nemur um 87 þús. kr. á mánuði. Samanburður við greiðslur til öryrkja úr líf­eyrissjóði sem fram koma í þessari skýrslu benda til þess að margir öryrkjar hafi ekki sinnt um að greiða í lífeyrissjóði á starfsævi sinni. Iðgjald til lífeyrissjóðs, 4% af tekjum, eru talin með sköttum áður en til örorku kom.
    Sá samanburður sem fram kemur við önnur ríki Norðurlanda í töflu 12 sýnir að ráð­stöfunartekjur Íslendinga lækka minna en hinna þjóðanna. Lægri skattbyrði öryrkja í öllum löndunum má m.a. rekja til ýmissa tryggingagjalda sem einungis starfandi fólk greiðir.

Tafla 13. Ráðstöfunartekjur og skattar öryrkja í „dæmigerðum tilvikum“.


Fyrir örorku Eftir örorku Ráðstöfunartekjur eftir örorku sem hlutfall af ráð­stöfunartekjum fyrir örorku
Ráðstöfunar-
tekjur
Skattbyrði,
%
Ráðstöfunar-
tekjur
Skattbyrði,
%
Danmörk 105.685 44,8 90.519 17,9 85,6
Finnland 92.068 38,2 61.152 27,3 66,4
Ísland 94.727 24,8 85.508 18,6 90,3
Noregur 113.624 29,7 74.406 15,6 65,5
Svíþjóð 89.286 34,0 71.627 28,9 80,2

Heimild: Social Protection in the Nordic Countries, www.nom-nos.dk/nososco.htm ">www.nom-nos.dk/nososco.htm og Þjóðhagsstofnun.



    Í töflu V.I.4 í viðauka I er að finna nánari upplýsingar um þetta efni.

17. Áform ríkisstjórnarinnar um að treysta hag og aðbúnað öryrkja.
    Á undanförnum árum hefur hagur og aðbúnaður öryrkja batnað verulega. Er þar ekki síst að þakka þeim öra hagvexti sem hefur verið hér á landi. Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa verið að hækka langt umfram verðlag. Til að mynda jókst kaupmáttur lífeyrisþega sem nýtur óskertrar heimilisuppbótar um 14% á árunum 1993–98. Við bætist hækkun frítekjumarks sem ákveðið var um síðustu áramót auk 4% hækkunar bóta. Bætur til öryrkja hafa jafnan miðast við hækkun launa í landinu. Þannig mun áframhaldandi verðstöðugleiki og vöxtur í efnahagslífi landsmanna stuðla að því að kjör öryrkja verði enn betri en þau hafa verið.
    Auk þess sem bætur til öryrkja hafa hækkað á undanförnum árum hefur önnur þjónusta og niðurgreiðsla til þeirra aukist á liðnum árum. Þannig hafa t.d. húsaleigubætur skilað þessum hópi umtalsverðum ávinningi og mikil uppbygging hefur verið í málefnum fatlaðra í tíð núverandi ríkisstjórnar. Áfram verður unnið að því að tryggja þessum hópi og öllum öðrum landsmönnum sem besta heilbrigðisþjónustu.
    Leita þarf nýrra leiða til að auka fjölbreytni þjónustu við öryrkja svo að hver og einn geti fengið þann stuðning sem honum hentar best. Mikilvægt er að öryrkjar hafi sem mest val um þá þjónustu sem þeir þurfa hverju sinni. Því hefur á undanförnum árum verið lögð áhersla á að fjölga sambýlum fatlaðra enda það búsetuform sem mest spurn er eftir meðal fatlaðra. Á árunum 1991–96 tvöfaldaðist fjöldi sambýla fatlaðra í landinu. Síðan þá hefur þeim enn fjölgað og munu gera það á næstu árum. Þá hefur verið leitað nýrra leiða við rekstur og fjár­mögnun þjónustu við öryrkja. Sjálfseignarstofnanir og einkaaðilar hafa í ríkari mæli tekið að sér að annast afmarkaða þjónustuþætti. Framhald verður á þessari þróun á næstu árum.
    Endurhæfing öryrkja er mikilvæg til að fjölga þeim sem geta tekið upp fyrri lífshætti og orðið sjálfstæðir í tekjuöflun. Aukin áhersla hefur verið lögð á endurhæfingu að undanförnu og ljóst er að svo verður áfram. Áfram verður lögð áhersla á að fjölga atvinnuúrræðum fatl­aðra og á að þeir öðlist reynslu og þjálfun sem veitir þeim greiðari aðgang að almennum vinnumarkaði.
    Bótakerfi landsmanna er flókið í uppbyggingu og getur leitt til ósamræmis og getur fólk í sams konar aðstöðu fengið mismunandi bætur. Á næstu árum er mikilvægt að einfalda kerfið og gera það þá skiljanlegra fyrir almenning og þá sérstaklega þá sem það er ætlað. Þeir sem þurfa á stuðningi samfélagsins að halda eiga að hafa greiðan aðgang að slíkri þjón­ustu. Ljóst þarf að vera hvaða þjónusta er í boði. Það á ekki á að leggja á þá einstaklinga sem í hlut eiga mikla og oft flókna vinnu til að fá notið þess sem þeim er ætlað. Tryggja verð­ur jafnræði allra öryrkja.

18. Skattlagning greiðslna til öryrkja og aldraða úr lífeyrissjóðum.
    Í þarsíðustu kjarasamningum varð sátt um það á milli launþega, atvinnurekenda og ríkis­ins að iðgjöld í lífeyrissjóði skyldu vera að fullu frádráttarbær frá skattskyldum tekjum og að útgreiddur lífeyrir skyldi vera skattlagður eins og tekjur almennt. Á þetta fyrirkomulag þarf að reyna áður en ákvörðun er tekin um hvort snúa skuli frá þessari stefnu. Í lífeyrismál­um er mikilvægt að hafa í huga að verið er að leggja til hliðar peninga sem eiga að nýtast jafnvel mörgum áratugum síðar. Gæta þarf samræmis á milli þess sem gert er nú og þess sem verður þegar lífeyrissjóðakerfið hefur náð jafnvægi. Það var í slíku langtímasamhengi sem núverandi stefna var mörkuð.

Viðauki I.
Ýmsar töflur.

Tafla V.I.1. Lágmarkslaun og bætur almannatrygginga 1993–98.
Krónur að meðaltali á mánuði með eingreiðslum.

Lágmarks­laun Launa­vísitala Örorku­lífeyrir Tekju­trygging Heimilis­uppbót Sérstök heimilisuppbót Hámarksbætur til einhleyps1) Grunnlífeyrir og tekjutrygging
1993 47.940 100,0 12.329 25.924 8.572 5.896 52.721 38.253
1994 48.440 101,2 12.329 25.706 8.500 5.847 52.382 38.035
1995 51.403 105,8 12.822 26.330 8.706 5.989 53.847 39.152
1996 54.743 112,5 13.373 27.360 9.047 6.224 56.004 40.733
1997 61.972 118,6 14.243 28.074 11.578 6.387 60.282 42.318
1998 72.908 129,8 15.123 29.795 13.858 6.778 65.554 44.918

Vísitölur 1993 = 100.

Lágmarks­laun Launa­vísitala Örorku­lífeyrir Tekju­trygging Heimilis­uppbót Sérstök heimilis­uppbót Hámarksbætur til einhleyps 1) Grunnlífeyrir og tekjutrygging
1993 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0
1994 101,0 101,2 100,0 99,2 99,2 99,2 99,4 99,4
1995 107,2 105,8 104,0 101,6 101,6 101,6 102,1 102,4
1996 114,2 112,5 108,5 105,5 105,5 105,6 106,2 106,5
1997 129,3 118,6 115,5 108,3 135,1 108,3 114,3 110,6
1998 152,1 129,8 122,7 114,9 161,7 115,0 124,3 117,4

Kaupmáttur 1993 = 100.

Lágmarks­laun Launa­vísitala Örorku­lífeyrir Tekju­trygging Heimilis­uppbót Sérstök heimilisuppbót Hámarksbætur til einhleyps1) Grunnlífeyrir og tekjutrygging
1993 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0
1994 99,5 99,7 98,5 97,7 97,7 97,7 97,9 98,0
1995 103,9 102,5 100,8 98,4 98,4 98,4 99,0 99,2
1996 108,2 106,7 102,8 100,0 100,0 100,0 100,7 100,9
1997 120,4 110,5 107,6 100,8 125,8 100,9 106,5 103,0
1998 139,3 118,9 112,3 105,2 148,0 105,3 113,9 107,5

1) Tekur til örorkulífeyris og tekjutryggingar, heimilisuppbótar og sérstakrar heimilisuppbótar.

Tafla V.I.2. Greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins til öryrkja 1997–98.
Fjárhæðir í þús. kr.

1997 1998
Örorkulífeyrisþegar
Örorkulífeyrir 1.347.019 1.474.859
Tekjutrygging 1.860.288 2.008.025
Barnalífeyrir 513.761 556.048
Makabætur 20.333 20.066
Heimilisuppbót 256.781 312.110
Sérstök heimilisuppbót 43.500 49.410
Uppbætur 267.442 264.755
Bensínstyrkur 105.701 112.021
Vasapeningar 40.804 40.140
Bílakaupastyrkir 68.659 74.195
Samtals 4.524.288 4.911.629
Meðalgreiðsla á mánuði 377.024 409.302
Meðalfjöldi lífeyrisþega 7.646 7.870
Þús. kr. á lífeyrisþega á mánuði 49 52
Endurhæfingarlífeyrisþegar
Lífeyrir 60.123 63.419
Tekjutrygging 73.930 81.762
Barnalífeyrir 53.931 52.306
Makabætur 309 527
Heimilisuppbót 5.785 7.863
Sérstök heimilisuppbót 1.414 1.752
Uppbætur 3.448 3.830
Bensínstyrkur 1.548 986
Samtals 200.488 212.445
Meðalgreiðsla á mánuði 16.707 17.704
Meðalfjöldi lífeyrisþega 255 247
Þús. kr. á lífeyrisþega á mánuði 66 72
Örorkustyrkþegar
Örorkustyrkur 194.286 227.118
Barnalífeyrir 59.300 72.880
Bensínstyrkur 8.255 7.871
Bílakaupastyrkur 5.630 4.925
Samtals 267.471 312.794
Meðalgreiðsla á mánuði 22.289 26.066
Meðalfjöldi styrkþega 1.520 1.617
Þús. kr. á styrkþega á mánuði 15 16

Heimild: Tryggingastofnun ríkisins.



Tafla V.I.3. „Dæmigerð“ tilvik um mann sem verður
öryrki 50 ára miðað við hámarksréttindi.

Danmörk Finnland Ísland Noregur Svíþjóð
Einhleypur og barnlaus
1. Tekjur á mánuði fyrir örorku
Viðmiðunarlaun 191.465 148.919 125.917 161.721 135.348
Helmingur viðmiðunarlauna 95.728 74.459 62.958 80.861 67.674
75% af viðmiðunarlaunum 143.597 111.689 94.438 121.291 101.511
25% umfram viðmiðunarlaun 239.325 186.149 157.396 202.151 169.185
50% umfram viðmiðunarlaun 287.193 223.378 188.875 242.582 203.022
2. Ráðstöfunartekjur á mánuði fyrir örorku
Viðmiðunarlaun 105.685 92.068 94.727 113.624 89.286
Helmingur viðmiðunarlauna 61.643 54.012 59.635 61.044 47.186
75% af viðmiðunarlaunum 82.581 74.293 77.181 88.324 68.340
25% umfram viðmiðunarlaun 123.654 109.213 112.273 134.598 107.057
50% umfram viðmiðunarlaun 140.259 124.055 129.818 154.999 121.431
3. Örorkulífeyrir
Viðmiðunarlaun 110.286 84.139 105.001 88.206 100.697
Helmingur viðmiðunarlauna 110.286 55.630 91.600 52.184 60.900
75% af viðmiðunarlaunum 110.286 66.156 98.290 70.132 80.799
25% umfram viðmiðunarlaun 110.286 105.174 117.632 106.146 112.582
50% umfram viðmiðunarlaun 110.286 126.209 138.484 119.542 112.582
4. Ráðstöfunartekjur á mánuði eftir örorku
Viðmiðunarlaun 90.519 61.152 85.508 74.406 71.627
Helmingur viðmiðunarlauna 90.519 59.648 77.727 52.184 47.587
75% af viðmiðunarlaunum 90.519 59.662 81.611 64.289 58.655
25% umfram viðmiðunarlaun 90.519 72.114 92.841 87.186 79.394
50% umfram viðmiðunarlaun 90.519 82.472 104.948 96.417 79.394
5. Ráðstöfunartekjur eftir örorku sem hlutfall
af ráðstöfunartekjum fyrir örorku
Viðmiðunarlaun 86% 66% 90% 65% 80%
Helmingur viðmiðunarlauna 147% 110% 130% 85% 101%
75% af viðmiðunarlaunum 110% 80% 106% 73% 86%
25% umfram viðmiðunarlaun 73% 66% 83% 65% 74%
50% umfram viðmiðunarlaun 65% 66% 81% 62% 65%
6. Skattbyrði fyrir örorku
Viðmiðunarlaun 45% 38% 25% 30% 34%
Helmingur viðmiðunarlauna 36% 27% 5% 25% 30%
75% af viðmiðunarlaunum 42% 33% 18% 27% 33%
25% umfram viðmiðunarlaun 48% 41% 29% 33% 37%
50% umfram viðmiðunarlaun 51% 44% 31% 36% 40%
7. Skattbyrði eftir örorku     
Viðmiðunarlaun 18% 27% 19% 16% 29%
Helmingur viðmiðunarlauna 18% -7% 15% 0% 22%
75% af viðmiðunarlaunum 18% 10% 17% 8% 27%
25% umfram viðmiðunarlaun 18% 31% 21% 18% 29%
50% umfram viðmiðunarlaun 18% 35% 24% 19% 29%
Ath.: Viðmiðunarlaunin eru byggð á athugunum OECD, sjá Tax/benefit position of Employees 1995–96. Heimild: Social Protec­tion in the Nordic countries 1996, sjá www.nom-nos.dk/nosoco.htm. Heimild fyrir íslenska dæminu: Þjóðhagsstofnun.

Tafla V.I.4. Fjöldi örorkulífeyrisþega sem orðið hafa fyrir skerðingu eða sviptingu tekjutryggingar vegna tekna maka 1995–98.

         Með skerðingu
vegna tekna maka
Fjöldi örorku­lífeyrisþega með tekjutryggingu           Hlutfall með skerðingu vegna tekna maka
1995 Karlar Konur Alls Aldur Karlar Konur Alls
fæddir 1920–29 51 63 114 66– 75 137 202 339 33,6%
fæddir 1930–39 316 431 747 56–65 813 1.186 1.999 37,4%
fæddir 1940–49 153 227 380 46–55 505 649 1.154 32,9%
fæddir 1950–59 89 150 239 36–45 508 540 1.048 22,8%
fæddir 1960–69 54 104 158 26–35 420 420 840 18,8%
fæddir 1970–79 9 17 26 16–25 292 234 526 4,9%
Samtals 672 992 1.664 2.675 3.231 5.906 28,2%
1996 Karlar Konur Alls Aldur Karlar Konur Alls
fæddir 1920–29 7 13 20 67–76 19 29 48 41,7%
fæddir 1930–39 369 537 906 57–66 885 1.344 2.229 40,6%
fæddir 1940–49 173 272 445 47–56 550 711 1.261 35,3%
fæddir 1950–59 107 183 290 37–46 531 586 1.117 26,0%
fæddir 1960–69 66 125 191 27–36 434 456 890 21,5%
fæddir 1970–79 14 26 40 17–26 318 420 738 5,4%
Samtals 736 1.156 1.892 2.737 3.546 6.283 30,1%
1997 Karlar Konur Alls Aldur Karlar Konur Alls
fæddir 1930–39 398 577 975 58–67 862 1.320 2.182 44,7%
fæddir 1940–49 210 368 578 48–57 595 787 1.382 41,8%
fæddir 1950–59 113 233 346 38–47 578 656 1.234 28,0%
fæddir 1960–69 70 149 219 28–37 461 492 953 23,0%
fæddir 1970–79 10 22 32 18–27 309 267 576 5,6%
Samtals 801 1.349 2.150 2.805 3.522 6.327 34,0%
1998 Karlar Konur Alls Aldur Karlar Konur Alls
fæddir 1930–39 376 591 967 59–68 749 1.203 1.952 49,5%
fæddir 1940–49 234 421 655 49–58 655 846 1.501 43,6%
fæddir 1950–59 131 283 414 39–48 592 713 1.305 31,7%
fæddir 1960–69 72 181 253 29–38 483 509 992 25,5%
fæddir 1970–79 14 31 45 19–28 317 287 604 7,5%
fæddir 1980 -89 1 1 9–18 64 46 110 0,9%
Samtals 827 1.508 2.335 2.860 3.604 6.464 36,1%

Heimild: Tryggingastofnun ríkisins.



Viðauki II.
Tekjur og eignir öryrkja.
    Í gögnum skattyfirvalda má aðgreina þá öryrkja sem fengu greiddan örorkulífeyri eða örorkustyrk frá öðrum framteljendum. Hins vegar er engin leið að nálgast upplýsingar um tekj­ur öryrkja sem hafa of háar tekjur til að eiga rétt á þessum bótum. 1
    Ýmis vandkvæði koma upp þegar skattframtöl öryrkja eru skoðuð. Fyrst og fremst kemur í ljós að framtaldar tekjur margra eru óeðlilegar lágar og er þá litið til ýmissa þátta eins og lífeyris frá Tryggingastofnun. Einnig kemur í ljós óeðlilegur munur á framtöldum tekjum og tekjum samkvæmt staðgreiðslu hjá nokkrum hópi öryrkja.
    Helstu ástæðurnar fyrir því hversu margir eru með það sem telja verður óeðlilega lágar tekjur eru eftirfarandi.
          Framteljandi hefur látist á tekjuárinu og því ná framtaldar tekjur einungis til hluta ársins. Framtöl flestra þessara framteljenda fá sérmeðferð og eru merkt sérstaklega. En nokkuð er um að slíka merkingu vanti og því eru lágar tekjur oft eina vísbendingin um að framtal sé óeðlilegt.
          Framteljandi skilar ekki skattframtali eða skilar ófullnægjandi framtali. Skattstjórar áætla skattstofna þessara framteljenda en engar aðrar nothæfar upplýsingar um tekjur og eignir er að hafa úr þessum framtölum.
          Réttur öryrkja til lífeyris frá Tryggingastofnun fellur niður ef hann dvelur langdvölum á sjúkrastofnun. Ef viðkomandi öryrki hefur engar eða mjög lágar tekjur á hann rétt á vasapeningum frá Tryggingastofnun. Vasapeningar voru að hámarki um 136.217 kr. á árinu 1997 og töldu 109 framteljendur fram þessa fjárhæð sem greiðslu frá Trygginga­stofnun.
          Framteljandi búsettur erlendis en á eignir hér á landi. Í framtali viðkomandi öryrkja koma einungis fram upplýsingar um eignir en tekjurnar eru taldar fram þar sem hann er búsettur.
    Annað vandamál sem kemur upp er hvernig fara eigi með uppgefnar tekjur öryrkja sem eru á dvalarheimilum. Greiðslur Tryggingastofnunar vegna dvalarkostnaðar eru taldar fram með tekjum lífeyrisþegans þótt hann fái aldrei þær greiðslur sjálfur þannig að tekjur hans og enn frekar ráðstöfunartekjur eru mun hærri samkvæmt skattframtali en þær eru í raun og veru. Skattframtöl þessara framteljenda eru sérmerkt.
    Til þess að gefa sem gleggsta mynd af kjörum öryrkja var ákveðið að sleppa þeim fram­tölum sem eru með áætlaða álagningu eða framtölum sem fá sérmeðferð. Einnig er þeim sem eru á dvalarheimilum sleppt og loks er þeim sleppt sem eru með tekjur undir ákveðnum við­miðunarmörkum 2 en með því móti falla flestir lífeyrisþegar sem dvelja á stofnunum út. Rökin fyrir því að sleppa lífeyrisþegum sem dvelja á stofnunum eru þau að tekjur þeirra endurspegli ekki lífskjör nema að litlu leyti. Er þetta svipað því sem gert er víða erlendis en þar eru stofnanaheimili einatt ekki með í tekjukönnunum.
    Að teknu tilliti til framangreindra atriða nær athugunin á tekjum öryrkja til 8.763 fram­teljenda sem samsvarar um 89% þeirra sem fengu greiddan örorkulífeyri eða örorkustyrk á árinu 1997. Um 56% þeirra eru einhleyp og skipting kynjanna er þannig að konur eru um 59% og karlar um 41%. Tafla V.II.1 sýnir skiptingu öryrkja eftir aldri, en lítill munur er þar eftir kynjum.

Tafla V.II.1. Aldurssamsetning öryrkja 1997.


Samkvæmt skattframtölum.


Aldur Fjöldi Hlutfall
19 ára og yngri 165 2%
20–24 ára 372 4%
25–49 ára 3.614 41%
50–64 ára 3.355 38%
65 og eldri 1.257 14%
Samtals 8.763 100%

Heimild: Þjóðhagsstofnun.



    Tekjur öryrkja eru af ýmsum toga. Hér á eftir verður fjallað fjallað sérstaklega um nokkra þessara liða en fyrst verður þó fjallað um heildartekjur öryrkja, dreifingu þeirra og saman­burð við aðra framteljendur.

Heildartekjur.
    Tafla V.II.2 sýnir heildartekjur öryrkja og allra framteljenda á aldrinum 26–65 ára. Rétt er að geta þess að fjármagnstekjur eru ekki meðtaldar. Ástæðan fyrir því er hversu misvel þær eru taldar fram.

Tafla V.II.2. Meðaltekjur öryrkja 1997.


Fjárhæðir í þús. kr.


Öryrkjar Allir 26–55 ára Hlutfall
Einhleypir 986,3 1.598,7 61,7%
Barnlausir 943,9 1.649,6 57,2%
Einstæðir foreldrar 1.336,4 1.367,3 97,7%
Hjón 2.585,8 3.805,7 67,9%
Bæði öryrkjar 1.943,8
Annað öryrki 2.643,4

Heimild: Þjóðhagsstofnun.



    Eins og sjá má í töflunni eru tekjur öryrkja, að einstæðum foreldrum undanskildum, mun lægri en tekjur þeirra sem eru á aldrinum 26–65 ára. Tekjur einhleypra öryrkja nema um 57% af tekjum allra einhleypra einstaklinga og tekjur hjóna með skerta örorku eru um 68% tekna allra hjóna. Hins vegar eru tekjur einstæðra foreldra ámóta hjá öryrkjum og öðrum.


Mynd V.II.1.



Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Heimild: Þjóðhagsstofnun.



    Dreifing tekna öryrkja er mun jafnari en allra framteljenda á aldrinum 26–65 ára, eins og sjá má á myndum V.II.1 og V.II.2. Af mynd V.II.1 má ráða að um 73% einhleypra öryrkja eru með árstekjur á bilinu 600–1.200 þús. kr. og fá þeir um 65% af tekjunum í sinn hlut. Þótt framteljendur á aldrinum 26–65 ára séu einnig flestir á sama tekjubili eru það þó einungis 32% og hlutur þeirra af tekjunum nemur um 18%. Þessa niðurstöðu má rekja til mikillar tekjutengingar bóta.

Mynd V.II.2.



Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Heimild: Þjóðhagsstofnun.

    Mynd V.II.2 sýnir tekjudreifingu hjóna þar sem a.m.k. annað er öryrki samanborið við dreifingu tekna allra hjóna á aldrinum 26–65 ára. Fjórðungur öryrkja hjóna er með árstekjur á bilinu 1,5–2 millj. kr. en algengustu tekjur annarra hjóna liggja á bilinu 3–3,5 millj. kr.

Ráðstöfunartekjur og skattbyrði.
    Hér að framan hefur verið fjallað um dreifingu heildartekna öryrkja en heildartekjurnar segja ekki nema hluta sögunar því að það sem skiptir í raun máli eru ráðstöfunartekjurnar þar sem búið er að taka tillit til skattgreiðslna, barna- og vaxtabóta. Skattkerfið á Íslandi er stigvaxandi og því er dreifing ráðstöfunartekna mun jafnari en dreifing heildartekna.
    Mynd V.II.3 sýnir heildartekjur, ráðstöfunartekjur og skattbyrði öryrkja. Þar má sjá að ráðstöfunartekjur einstæðra foreldra eru meiri en heildartekjur þeirra, þ.e. skattbyrði þeirra er neikvæð. Eins og við er að búast er skattbyrði hjóna þar sem einungis annað er öryrki mest og nemur hún 15% af tekjum þeirra. Til samanburðar má nefna skattbyrði allra hjóna er um 20,3%. Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um ráðstöfunartekjur og skattbyrði allra einhleypra og einstæðra foreldra.
    Myndin sýnir einnig glöggt hvernig skattkerfið jafnar tekjumuninn sem er á milli hjóna þegar annað er öryrki og þeirra hjóna sem bæði eru öryrkjar. Heildartekjur fyrri hópsins námu um 74% af tekjum þess síðarnefnda en hlutfallið er 81% þegar ráðstöfunartekjur þessara hópa eru bornar saman.

Mynd V.II.3.



Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Heimild: Þjóðhagsstofnun.


Samsetning tekna.
    Eins og áður segir eru tekjur öryrkja samsettar úr mörgum þáttum. Mynd V.II.4 sýnir hlut­fallslegt vægi ýmissa liða í heildartekjum öryrkja, eftir hjúskaparstöðu þeirra.
    Ástæðan fyrir því hversu mikið vægi liðurinn „aðrar tekjur“ hefur hjá einstæðum foreldr­um er sú að þar eru m.a. reiknaðar meðlagsgreiðslur með börnum þeirra.
    Eins og sést á myndinni er samsetning tekna hjóna þar sem annað er öryrki ólík tekjusam­setningu hinna hópanna á myndinni því að tekjur maka nema um 65% af heildartekjum hjón­anna.

Mynd V.II.4.



Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Heimild: Þjóðhagsstofnun.



    Þó að myndin sýni hlutfallslegt vægi einstakra liða í tekjum öryrkja þá er mjög breytilegt hversu margir hafa þessar tekjur og einnig hversu miklar þær eru. Því verður fjallað nánar um einstaka þætti í tekjum öryrkja.

Atvinnutekjur.
    Tæp 38% öryrkja telja fram atvinnutekjur og eru þær að meðaltali um 440 þús. kr., eða um 37 þús. kr. á mánuði. Verulegur munur er á atvinnuþátttöku og tekjum öryrkja eftir kyni. Um 45% karla telja fram atvinnutekjur, að meðaltali 522 þús. kr., en einungis um 32% kvenna er með atvinnutekjur og nema þær um 355 þús. kr. að meðaltali. Atvinnutekjur þeirra öryrkja sem eru giftir eða í sambúð eru um 550 þús. kr. en um 360 þús. kr. hjá einhleypum en lítill munur er hins vegar á því hversu stór hluti þessara hópa telur fram atvinnutekjur.
    Fjöldinn sem telur fram atvinnutekjur ætti að gefa nokkuð góða mynd af atvinnuþátttöku öryrkja en segir ekkert til um vinnutíma þeirra. Ef meðaltekjur þeirra eru bornar saman við tekjur annarra framteljenda er ljóst að stór hluti þeirra er ekki í fullu starfi.

Tafla V.II.3. Atvinnutekjur öryrkja 1997.


Aldur Hlutfall öryrkja með tekjur Meðaltekjur
19 ára og yngri 74,5% 212,0
20–24 66,7% 348,4
25–49 44,5% 447,6
50–64 30,6% 476,6
65 ára og eldri 24,3% 430,7
Samtals 37,8% 438,9

Heimild: Þjóðhagsstofnun.



Greiðslur úr lífeyrissjóði.
    Um 57% öryrkja fá greiðslur úr lífeyrissjóði og er hlutfallið svipað hjá báðum kynjunum. Eins og við er að búast, og sést glögglega á mynd V.II.5, er verulegur munur á greiðslum úr lífeyrissjóði eftir aldri. Innan við 7% þeirra sem eru yngri en 25 ára fá slíkar greiðslur en tæp 80% þeirra sem eru á aldrinum 65–67 ára. Þessi munur skýrist af atvinnuþátttöku fram að örorku.
    Greiðslur úr lífeyrissjóði nema að meðaltali 385 þús. kr. og eru greiðslur til karla mun hærri, 490 þús. kr., en til kvenna þar sem greiðslurnar eru 310 þús. kr. Eins og mynd V.II.5 sýnir eru greiðslurnar hæstar til þeirra sem eru á aldrinum 25–49 ára, 423 þús. kr.

Mynd V.II.5.



Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Heimild: Þjóðhagsstofnun.



    Í töflu V.II.4 er litið á það hvernig greiðslur úr lífeyrissjóði skiptast á milli þeirra öryrkja sem á annað borð fá greiðslur þaðan. Þar kemur meðal annars fram að um 42% þeirra fá yfir 360 þús. kr. á ári, eða 30 þús. kr. á mánuði, og eru þær greiðslur að meðaltali 670 þús. kr. Um 20% fá aftur á móti innan við 120 þús. kr. á ári.

Tafla V.II.4. Greiðslur úr lífeyrissjóði eftir hjúskaparstöðu.


Fjárhæðir í þús. kr.


    <120     120–240     240–360     360<
Hlutfall Meðal­greiðslur Hlutfall Meðal­greiðslur Hlutfall Meðal­greiðslur Hlutfall Meðal­greiðslur
Einhleypir 20,3% 61,9 18,3% 178,0 18,7% 299,5 42,7% 631,0
    Barnlausir 19,7% 61,9 18,4% 179,4 19,6% 299,6 42,2% 632,8
    Einstæðir foreldrar 24,7% 61,7 17,4% 166,4 11,5% 298,1 46,3% 618,6
Giftir eða í sambúð 19,3% 64,2 20,3% 179,6 19,1% 296,8 41,2% 709,1
Samtals 19,8% 63,0 19,3% 178,9 18,9% 298,1 41,9% 670,3

Heimild: Þjóðhagsstofnun.



Greiðslur frá Tryggingastofnun.
    Eins og fram kom hér að framan ná upplýsingar um tekjur öryrkja einungis til þeirra sem fengu greiddan örorkulífeyri eða örorkustyrk. Af því leiðir að allir sem þessi athugun nær til fá greiðslur frá Tryggingastofnun.
    Greiðslur frá Tryggingastofnun eru taldar fram á tveimur stöðum á skattframtali einstak­linga: Annars vegar sem „skattskyldar greiðslur frá Tryggingastofnun“ en til þess liðar telj­ast m.a. allar lífeyris- og bótagreiðslur og hins vegar sem „skattfrjálsar greiðslur frá Trygg­ingastofnun“ en undir þann lið heyra m.a. barnameðlög. Þessi umfjöllun tekur einungis til skattskyldra greiðslna, enda eru skattfrjálsu greiðslurnar að mestu óháðar því hvort framtelj­andi sé öryrki eða ekki.
    Tafla V.II.5 sýnir greiðslur frá Tryggingastofnun eftir hjúskaparstöðu. Rétt er að geta þess að innifalið í greiðslum til einstæðra foreldra eru mæðralaun, sem námu 40.170 kr. á ári með tveimur börnum og 104.459 kr. með þremur börnum. Lausleg áætlun sýnir að aðrar greiðslur frá Tryggingastofnun til þeirra hafi numið 480 þús. kr. að meðaltali.

Tafla V.II.5. Greiðslur frá Tryggingastofnun 1997.


Fjárhæðir í þús. kr. á ári.


Meðalgreiðslur
         Einhleypir 550,7
    Barnlausir 558,0
    Einstæðir foreldrar 490,0
         Giftir eða í sambúð 314,9
         Samtals 447,8

Heimild: Þjóðhagsstofnun.



    Eins og fram kemur í töflu V.II.6 eru greiðslur frá Tryggingastofnun hæstar til þeirra yngstu sem er í samræmi við að fæstir þeirra fá greiðslur úr lífeyrissjóði. Einnig kemur fram í töflunni að greiðslur til karla eru um 6% hærri en greiðslur til kvenna.

Tafla V.II.6. Greiðslur frá Tryggingastofnun, eftir aldri og kyni, 1997.


Fjárhæðir í þús. kr. á ári.


Aldur Karlar Konur Samtals
16–19 519,9 535,1 527,4
20–24 523,6 527,2 525,3
25–49 470,4 422,7 443,6
50–64 447,5 428,4 435,6
65 ára og eldri 439,8 470,7 459,0
Samtals 462,3 437,7 447,8

Heimild: Þjóðhagsstofnun.



    Vægi greiðslna frá Tryggingastofnun í heildartekjum öryrkja er mjög mismunandi. Um 15,5% einhleypra og einstæðra foreldra hafa engar aðrar tekjur en greiðslur Tryggingastofnunar en hjá um 35% þessa hóps er hlutur greiðslna Tryggingastofnunar innan við 50% af heildartekjum þeirra.

Atvinnuleysisbætur.
    Um 4,5% öryrkja fengu greiddar atvinnuleysisbætur á árinu 1997 og námu þær að meðal­tali 191 þús. kr. Skiptingin á milli kynja var þannig að 5,3% karla og 3,9% kvenna fengu slíkar bætur. Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um það hversu lengi þeir hafa verið á at­vinnuleysiskrá en bæturnar fara hækkandi eftir aldri og eru hæstar hjá þeim sem eru á aldrinum 65–67 ára sem bendir til þess að þeir hafi verið lengur á atvinnuleysisskrá en aðrir.

Eignir og skuldir.
    Tafla V.II.7 sýnir fasteignir öryrkja í samanburði við alla framteljendur á aldrinum 26–65 ára. Þar kemur m.a. fram að um 40% einhleypra öryrkja eiga fasteign en 54% allra framtelj­enda á aldrinum 26–65 ára. Minni munur er á hlutfallinu hjá hjónum þar sem um 89% ör­yrkja eiga fasteign en 92% heildarinnar. Meiri munur er hins vegar á verðmæti fasteigna hjóna en einhleypra.

Tafla V.II.7. Fasteignir í árslok 1997.


Fjárhæðir í þús. kr.


         Öryrkjar     26–65 ára
Hlutfall þeirra sem eiga fasteign Meðaleign Hlutfall þeirra sem eiga fasteign Meðaleign
Einhleypir 40,4% 4.557,5 54,2% 5.127,0
    Barnlausir 38,5% 4.359,2 51,8% 4.972,6
    Einstæðir foreldrar 56,4% 5.674,4 65,3% 5.698,3
Hjón 89,0% 7.440,5 91,6% 8.544,8
    Bæði öryrkjar 73,2% 6.592,4
     Annað öryrki 90,4% 7.502,1

Heimild: Þjóðhagsstofnun.



    Ekki eru fyrirliggjandi neinar upplýsingar um það hversu stór hluti þeirra öryrkja sem ekki eiga fasteign eru í leiguhúsnæð en gera má ráð fyrir að a.m.k. hluti einhleypra öryrkja búi hjá foreldrum.
    Af töflu V.II.8 má ráða að eignarskattsstofn öryrkja er lægri en allra framteljenda. Hjá einhleypum er munurinn 15% en 10% hjá hjónum. Ef litið er á skuldir kemur í ljós að hjá hjónum eru skuldir öryrkja um 20% lægri en hjá öllum framteljendum. Aftur á móti er óveru­legur munur á skuldum einhleypra og að teknu tilliti til þess að eignarskattsstofn öryrkja er lægri má reikna með að þeir séu skuldsetnari en aðrir framteljendur.

Tafla V.II.8. Eignarskattsstofn og skuldir í árslok 1997.
Fjárhæðir í þús. kr.

    

    Eignarskattsstofn, þús. kr.     Skuldir, þús. kr.

Öryrkjar
Allir framteljendur Öryrkjar Allir framteljendur
Einhleypir 2.775 3.235 2.602 2.760
    Barnlausir 2.844 3.334 2.215 2.281
    Einstæðir foreldrar 2.165 2.297 4.304 4.207
Hjón 7.063 7.911 3.951 4.983
    Bæði öryrkjar 5.458 3.414
    Annað öryrki 7.190 3.995

Heimild: Þjóðhagsstofnun.



    Af mynd V.II.6 má ráða að ekki er verulegur munur á dreifingu eignarskattsstofns hjóna. Þó er meiri samþjöppun eignarskattsstofns öryrkja á bilinu 4–8 millj. kr. en hjá hjónum í heild.

Mynd V.II.6.




Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu


Heimild: Þjóðhagsstofnun.



Ýmsar töflur um tekjur og eignir öryrkja 1997.

Tafla V.II.9. Atvinnutekjur eftir hjúskaparstöðu.


Fjárhæðir í þús. kr.



Fjöldi
    Með atvinnutekjur Meðaltekjur
Fjöldi %
Einhleypir 4.940 1.930 39,1 360,9
    Barnlausir 4.406 1.735 39,4 361,9
    Einstæðir foreldrar 534 195 36,5 351,9
Giftir eða í sambúð 3.823 1.381 36,1 547,8
Samtals 8.763 3.311 37,8 438,9

Tafla V.II.10. Atvinnutekjur eftir kyni og aldri.
Fjárhæðir í þús. kr.

Með atvinnutekjur
Karlar Fjöldi Fjöldi % Meðaltekjur
19 ára og yngri 84 66 78,6 248,3
20–24 193 134 69,4 404,1
25–49 1.585 798 50,3 549,9
50–64 1.268 468 36,9 555,9
65 ára og eldri 476 164 34,5 496,3
Samtals 3.606 1.630 45,2 522,0
Með atvinnutekjur
Konur Fjöldi Fjöldi % Meðaltekjur
19 ára og yngri 81 57 70,4 170,0
20–24 179 114 63,7 283,1
25–49 2.029 811 40,0 347,0
50–64 2.087 558 26,7 410,1
65 ára og eldri 781 141 18,1 354,5
Samtals 5.157 1.681 32,6 358,2
Karlar og Með atvinnutekjur
konur Fjöldi Fjöldi % Meðaltekjur
19 ára og yngri 165 123 74,5 212,0
20–24 372 248 66,7 348,4
25–49 3.614 1.609 44,5 447,6
50–64 3.355 1.026 30,6 476,6
65 ára og eldri 1.257 305 24,3 430,7
Samtals 8.763 3.311 37,8 438,9

Tafla V.II.11. Greiðslur úr lífeyrissjóði eftir hjúskaparstöðu.
Fjárhæðir í þús. kr.

Lífeyrissjóðsgreiðslur
Fjöldi Fjöldi % Meðal greiðslur
Einhleypir 4.940 2.445 49,5 370,5
Barnlausir 4.406 2.158 49,0 371,2
Einstæðir foreldrar 534 287 53,7 365,2
Giftir eða í sambúð 3.823 2.569 67,2 398,0
Samtals 8.763 5.014 57,2 384,5

Tafla V.II.12. Greiðslur úr lífeyrissjóði eftir kyni og aldri.
Fjárhæðir í þús. kr.

Með greiðslur
Karlar Fjöldi Fjöldi % Meðalgreiðslur
19 ára og yngri 84 3 3,6 96,1
20–24 193 10 5,2 608,4
25–49 1.585 761 48,0 552,2
50–64 1.268 916 72,2 462,2
65ára og eldri 476 394 82,8 433,8
Samtals 3.606 2.084 57,8 489,9
Með greiðslur
Konur Fjöldi Fjöldi % Meðalgreiðslur
19 ára og yngri 81 7 8,6 123,9
20–24 179 16 8,9 272,8
25–49 2.029 978 48,2 322,8
50–64 2.087 1.342 64,3 311,1
65 ára og eldri 781 587 75,2 287,7
Samtals 5.157 2.930 56,8 309,6
Karlar og Með greiðslur
konur Fjöldi Fjöldi % Meðalgreiðslur
19 ára og yngri 165 10 6,1 115,6
20–24 372 26 7,0 401,9
25–49 3.614 1.739 48,1 423,2
50–64 3.355 2.258 67,3 372,4
65 ára og eldri 1.257 981 78,0 346,4
Samtals 8.763 5.014 57,2 384,5

Tafla V.II.13. Greiðslur frá Tryggingastofnun sem hlutfall af heildartekjum.
Einhleypir framteljendur (barnlausir og einstæðir foreldrar).


Hlutfall
    Karlar     Konur     Einhleypir, samtals

Fjöldi
Greiðslur frá
Trygginga­stofnun
Heildar-
tekjur

Fjöldi
Greiðslur frá
Trygginga­stofnun
Heildar-
tekjur

Fjöldi
Greiðslur frá
Trygginga­stofnun
Heildar-
tekjur
1–10% 96 121,1 1.988,3 82 101,8 1.903,6 178 112,2 1.949,3
11–50% 600 380,1 1.208,2 884 424,0 1.277,0 1.484 406,2 1.249,2
51–89% 904 606,5 860,5 1.123 630,1 921,2 2.027 619,6 894,1
90–99% 261 674,5 711,3 222 679,2 716,3 483 676,7 713,6
100% 362 661,0 661,0 406 678,4 678,4 768 670,2 670,2
Samtals 2.223 541,3 953,0 2.717 558,3 1.013,6 4.940 550,7 986,3

Tafla V.II.14. Atvinnuleysisbætur.
Fjárhæðir í þús. kr.


Fjöldi

Fjöldi
Með atvinnu­leysisbætur, % Meðalgreiðslur
Einhleypir 4.940 227 4,6 183,3
Barnlausir 4.406 198 4,5 184,0
Einstæðir foreldrar 534 29 5,4 178,6
Giftir eða í sambúð 3.823 168 4,4 200,5
Samtals 8.763 395 4,5 190,6

Tafla V.II.15. Atvinnuleysisbætur eftir kyni og aldri.
Fjárhæðir í þús. kr.

Karlar
Fjöldi

Fjöldi
Með atvinnuleysis­bætur, % Meðalgreiðslur
19 ára og yngri 84 4 4,8 49,3
20–24 193 8 4,1 89,9
25–49 1.585 82 5,2 172,6
50–64 1.268 79 6,2 241,7
65 ára og eldri 476 19 4,0 282,5
Samtals 3.606 192 5,3 205,9
Konur
Fjöldi

Fjöldi
Með atvinnuleysis­bætur, % Meðalgreiðslur
19 ára og yngri 81 2 2,5 23,8
20–24 179 8 4,5 118,7
25–49 2.029 97 4,8 185,3
50–64 2.087 73 3,5 168,0
65 ára og eldri 781 23 2,9 197,1
Samtals 5.157 203 3,9 176,2
Karlar og
konur

Fjöldi

Fjöldi
Með atvinnuleysis­bætur, % Meðalgreiðslur
19 ára og yngri 165 6 3,6 40,8
20–24 372 16 4,3 104,3
25–49 3.614 179 5,0 179,5
50–64 3.355 152 4,5 206,3
65 ára og eldri 1.257 42 3,3 235,8
Samtals 8.763 395 4,5 190,6

Tafla V.II.16. Samsetning heildartekna.


Atvinnutekjur
Greiðslur frá Tryggingastofnun Greiðslur úr lífeyrissjóði
Aðrar tekjur

Tekjur maka
Einhleypir 14,3% 55,8% 18,6% 11,3% ..
Barnlausir 15,1% 59,1% 19,3% 6,5% ..
Einstæðir foreldrar 9,6% 36,7% 14,7% 39,0% ..
Hjón, bæði öryrkjar 13,9% 46,4% 29,0% 10,7% ..
Hjón, annað öryrki 7,9% 11,0% 10,0% 5,3% 65,8%

Tafla V.II.17. Ráðstöfunartekjur.
Fjárhæðir í þús. kr.

Heildartekjur Skattar Vaxtabætur Barnabætur Ráðstöfunartekjur Skattbyrði
Einhleypir 986,3 100,2 17,4 27,6 931,2 5,6%
Barnlausir 943,9 100,8 12,6 855,8 9,3%
Einstæðir foreldrar 1.336,4 95,6 57,1 255,6 1.553,5 -16,2%
Hjón, bæði öryrkjar 1.943,8 183,5 32,0 28,7 1.821,1 6,3%
Hjón, annað öryrki 2.643,4 463,4 36,3 30,9 2.247,2 15,0%

    1 Árið 1997 féllu greiðslur örorkulífeyris niður ef tekjur voru hærri en xxx kr.
    2 Viðmiðunarmörkin voru sett sem 75% af samtölu óskerts örorkulífeyris og tekjutryggingar Tryggingastofnunar. Árið 1997 voru þessi mörk um 381 þús. kr. hjá einhleypum og um 722 þús. kr. hjá hjónum.