1999-06-10 14:59:19# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., GÁS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[14:59]

Guðmundur Árni Stefánsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér dettur ekki í hug að gera athugasemd við fundarstjórn forseta en ég vil gera athugasemd við umgjörð umræðunnar eins og þeir tveir hv. þingmenn sem hér hafa áður talað hafa gert.

Lágmarkskrafa væri sú að sitjandi sjútvrh., sem mér skilst að sé samgrh., væri við umræðuna. Ég óska þess, ef niðurstaðan verður sú að þessi umræða fari fram þrátt fyrir réttmætar ábendingar, að hann verði þá kallaður til fundarins.

Raunar er umhugsunarefni, herra forseti, að í raun á fyrsta starfsdegi þingsins skulum við frá klukkan hálfellefu í morgun vera að ræða jafnstórt mál og stjórnarskrármálið er, þá hefur einn ráðherra, í þeim tilfellum sá ráðherra sem hafði forræði á málinu, forsrh., setið undir umræðum og tekið þátt í þeim. Hinir ellefu hafa ekki sést hérna. Mér finnst þetta satt að segja vond byrjun hjá nýjum ráðherrum, sem eru nú fimm talsins, og voru margir hverjir býsna virkir í þingstörfum á síðasta kjörtímabili, að þeir líti á það strax sem heilagt hlutverk sitt að vera ekki við umræðu um jafnviðamikið og mikilvægt mál sem stjórnarskrárbreytingar eru.

[15:00]

Ég vil koma því hér mjög ákveðið á framfæri að nýir ráðherrar og raunar eldri taki ekki upp þá háttu sem allt of algengir eru, að hæstv. ráðherrar sinni ekki þingstörfum, taki ekki þátt í almennum umræðum nema brýn þörf sé og málið beinlínis á þeirra forræði. Við eigum að taka hér upp betri háttu, það er nóg af ráðherrum, minna að gera væntanlega hjá hverjum um sig. Það var nú tilgangurinn og ráðherrar eiga auðvitað að laga störf sín að því og sinna þingskyldum sínum eins og aðrir hv. þingmenn.

Þessu vildi ég koma á framfæri en árétta þá ósk mína, sem er lágmarksósk, að sitjandi sjútvrh. verði viðstaddur umræðu um þessi mál.