1999-06-10 15:11:34# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[15:11]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Við fjöllum hér um samning sem, eins og segir í textanum, er samningur um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs ásamt þeim bókunum sem gerðar hafa verið á milli ríkisstjórnar Íslands, ríkisstjórnar Noregs og ríkisstjórnar Rússneska sambandsríkisins.

Þessi samningur hefur verið kynntur sem lausn á Smugudeilunni. Í nokkur ár hefur verið fjallað um möguleika þess að ná samningum og þar verið nefndar aðrar og hærri tölur en sú sem hér liggur fyrir, 8.900 lestir. Jafnframt hafa menn deilt um mögulegt gagngjald eins og það er kallað í tillögunni, en þetta er niðurstaðan núna. Verði þetta samþykkt liggur fyrir lausn á Smugudeilunni og þar með eru væntanlega úr sögunni önnur vandamál eða vandkvæði sem verið hafa í samskiptum þessara þjóða. Þar með skapast nýir möguleikar á viðskiptasamböndum, einkum við Rússland.

Þegar horft er til veiði undanfarinna ára og um hana fjallað eins og gert er í greinargerðinni, eru það vissulega háar tölur þegar talið er saman hversu mikinn afla Íslendingar hafa sótt í Barentshafið, eða á annað hundrað þúsund lesta samtals. Það sem nú er um að ræða eru 8.900 lestir eða 1,86% af heildarafla. Það er þá væntanlega breytileg tala, þessar 8.900 lestir. Eins og ég sagði gefur samningurinn fyrirheit umfram þær aflatölur sem hér eru nefndar. Hann gefur fyrirheit umfram þær 8.900 lestir sem fram koma í samningnum sjálfum. Hann gefur fyrirheit um samninga um frekari veiðiheimildir þar sem í texta samningsins kemur fram að gert er ráð fyrir samningum á milli einkaaðila sem kunna að fela í sér viðbótarveiðiheimildir. Kærkomið væri ef hæstv. utanrrh. fjallaði frekar um þá möguleika.

Sömuleiðis gefur samningurinn fyrirheit um aukin viðskipti landanna, eins og ég gat um áðan. Í 8. gr. er kveðið á um samstarf fyrirtækja í löndunum á sviði fiskveiða, vinnslu fiskafurða, markaðsmála og löndunar. Hygg ég að þar kunni að felast mestu verðmætin í þessum samningi fyrir okkur Íslendinga.

Í 3. gr. samningsins segir m.a., herra forseti, að kveðið skuli á um kvótaskipti og aðgang að fiskimiðum. Þar er komið gagngjaldið sem svo er nefnt --- veiðileyfagjald hefur það stundum verið kallað, herra forseti --- sem eins og fram hefur komið hefur stundum áður komið í veg fyrir að samningar næðust.

[15:15]

Reyndar er ekki gert ráð fyrir því að Rússland fái veiðiheimildir í íslenskri lögsögu. Það verður ekki greitt fyrir veiðiheimildirnar í rússnesku lögsögunni með veiðiheimildum í okkar lögsögu, heldur gert ráð fyrir því að 37,5% af þeim 4.450 lestum sem samið var um milli stjórnvalda ríkjanna, rúmlega þriðjungur, verði boðinn íslenskum aðilum til kaups á markaðsvirði.

Herra forseti. Það væri áhguavert einnig ef hæstv. utanrrh. gæti gefið okkur upplýsingar hér um markaðsvirðið. Hvert er markaðsvirði þeirra veiðiheimilda sem samið hefur verið um í rússnesku lögsögunni fyrst það liggur fyrir að þriðjungur þeirra verður boðinn til sölu. Er það það gagngjald sem um ræðir gagnvart Rússunum? Jafnframt væri gott að fá upplýsingar um hvernig þessar veiðiheimildir deilast milli íslenskra aðila, hverjir fá og við hvaða verði.

Nú hefur það komið fram að fyrrv. sjútvrh. muni hafa gefið út reglugerð áður en samningurinn hefur verið samþykktur. Ekki veit ég um réttmæti slíkra stjórnvaldsaðgerða en kannski einmitt vegna þessara spurninga hefði verið æskilegt að hæstv. sjútvrh. væri viðstaddur umræðuna, með fullri virðingu þó fyrir þeim hæstv. ráðherra sem situr í hans stað. Hvernig deilast þessar veiðiheimildir í rússneskri lögsögu á milli þeirra aðila sem þær fá og við hvaða verði? Verða allir þeir sem fá veiðiheimildir í rússnesku lögsögunni að greiða eitthvað á markaðsvirði eða allt? Spurningin er þá líka þessi: Gildir annað um þær veiðiheimildir sem fást í norsku lögsögunni? Fyrir þær er jú greitt með veiðiheimildum í íslenskri lögsögu. Þar kemur gagngjaldið með 500 lestum af löngu, keilu og blálöngu og 17 þúsund lestum af loðnu.

Svo ég óski enn eftir upplýsingum, herra forseti. Hvert er markaðsvirði þessara veiðiheimilda, svo að við fáum að vita um hvaða fjármuni hér er verið að tefla? Það hlýtur að liggja fyrir útreiknað þegar samningurinn er lagður fyrir þingið og ekki nema eðlilegt að þær tölur komi fram hér í umræðunni.

Í úthafsveiðilögunum, lögum nr. 151 frá 1996, eru ákvæði þess efnis að ráðherra geti bundið úthlutun aflahlutdeilda í veiði utan lögsögu Íslands því að á móti afsali viðkomandi útgerð sér veiðiheimildum innan lögsögu Íslands. Skipum sem fengu úthlutað aflahlutdeild í rækju á Flæmingjagrunni var gert að afsala sér aflahlutdeild sem úthlutað er á grundvelli laganna um stjórn fiskveiða sem nam 4% af þeirri rækjuhlutdeild sem úthlutað var á árinu 1997. Skipum sem fengu úthlutað aflahlutdeild í úthafskarfa var gert að afsala sér hlutdeild sem nam 8% af þeirri úthafskarfahlutdeild sem þeim var úthlutað. Heimildir skipa sem ekki höfðu veiðiheimildir í lögsögu Íslands voru skertar tilsvarandi í þeim tegundum sem var úthlutað. Þessi skip voru, herra forseti, látin greiða veiðileyfagjald fyrir þær heimildir sem þau fengu í úthafinu. Það er svo merkilegt að þó að við höfum ekki haft einurð í okkur til að láta útgerðina greiða fyrir veiðiheimildir í okkar eigin lögsögu þá höfum við tekið þá ákvörðun að það skyldi í einhverjum tilfellum gert ef þau veiddu í lögsögu annarra.

Vegna þessa spyr ég hvaða ákvarðanir hafi verið teknar í þessu sambandi. Verður þeim útgerðum sem fá veiðiheimildir innan norsku eða rússneksu lögsögunnar gert að skila á móti veiðiheimildum innan íslenskrar lögsögu, eins og heimild er gefin til í úthafsveiðlögunum?

Að lokum, herra forseti, vil ég bera fram eina spurningu: Þegar leyfilegur heildarafli þorsks í Barentshafi fellur niður fyrir 350 þús. lestir þá fellur kvóti Íslands niður. Hver er aðkoma okkar að rannsóknum og hverjar eru forsendur okkar til þess að meta eða hafa skoðun á forsendum leyfilegs heildarafla? Hvernig er samstarfi okkar vísindamanna og þeirra vísindamanna sem meta aðstæður háttað? Hver er möguleiki okkar á að koma við gagnrýni eða andmælum ef við óttumst að á okkur sé brotið?