Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 18:03:01 (136)

1999-06-10 18:03:01# 124. lþ. 3.1 fundur 4. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 124. lþ.

[18:03]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég er nokkuð hugsi á köflum vegna ræðuhalda hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Það er reynt að láta líta svo út sem við sem að þessari tillögu stöndum og sérstaklega við ræðumenn hér, ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, séum aleinir undir sólinni með sjónarmið okkar og viðhorf.

Talað er um órofa samstöðu 19 lýðræðisþjóða. Eru Grikkir hluti af þeirri órofa samstöðu 19 lýðræðisþjóða? Og eru efasemdir Tékka og Ungverja hluti af þessari órofa samstöðu? Hvað með síendurteknar tilraunir Frakka til að koma þessum málum í annan farveg en þau eru í? Hvað með það að skoðanakannanir í Grikklandi sýna að 90% grísku þjóðarinnar eru andvíg þessum loftárásum? Hvað með sæmilega áreiðanlega skoðanakannanir á Íslandi sem sýna að um helmingur íslensku þjóðarinnar er andvígur þessum loftárásum?

Er kannski hugsanlegt að einhverju leyti að við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs eigum okkur skoðanasystkin í samfélagi þjóðanna og að e.t.v. votti í einhverjum tilvikum fyrir því að við gætum haft eitthvað til okkar máls? Það er ekki að heyra á viðbrögðum hæstv. ráðherra. Ég skil að vísu mjög vel fyrstu ráðherrana í Íslandssögunni sem bera ábyrgð á því að Íslendingar bera pólitíska og stjórnskipulega ábyrgð á því að ráðist er með vopnum að annarri þjóð. Ég hefði ekki viljað vera í þeim sporum. Ég held að öllum sem í þeim sporum eru hljóti af eðlilegum ástæðum að vera mjög órótt.

Það sem fyrir okkur vakir er einmitt skoðanaskipti um þessi mál. Til þess er tillagan flutt og til þess eru umræður að menn rökræði málin. Oft kemur í ljós, ef menn láta það eftir sér að tala saman og hlusta --- þó ekki sé nema hlusta á málflutning þeirra sem hafa aðrar skoðanir en þeir sjálfir --- að þeir átta sig kannski á því að e.t.v. var tilveran ekki eins algerlega svart/hvít og þeir höfðu haldið. E.t.v. eru önnur sjónarmið til sem eiga við eitthvað að styðjast.

Einna dapurlegast finnst mér að lenda í rökræðum um þessi mál, ef rökræður skyldi kalla, þegar til stendur að afgreiða mann með röksemdafærslu af því tagi sem svolítið bar á bæði hjá hæstv. utanrrh. og forsrh. Ef maður gagnrýnir t.d. framgöngu NATO á Balkanskaga, þó ekki væri annað en það hvernig að ákvarðanatökunni var staðið, þ.e. að ekki var leitað álits öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir fram fyrir árásaraðgerðinni eða ef maður leyfir sér að gagnrýna, svo annað dæmi sé tekið, átta ára viðskiptabann á Írak sem hefur valdið gífurlegum hörmungum í því landi og veldur enn, barnadauða og hungri, þá er gengið út frá því að maður sé stuðningsmaður Saddams Hussein og að í málflutningi okkar og skoðunum að séum við að réttlæta eða verja gerðir Slobodans Milosevic. Er þetta nú ekki umræða á frekar lágu plani? (Gripið fram í.) Já, mér finnst hún á ákaflega lágu plani.

Hæstv. forsrh. taldi að hvergi á byggðu bóli nema hér gæti umræða af þessu tagi farið fram en þá held ég að hæstv. forsrh. fari mjög villur vegar. Það vill svo til að ég get upplýst hæstv. forsrh. um það að umræður af þessu tagi, opnar og hreinskilningslegar umræður, fara fram af miklu meiri þrótti en hér, víðast hvar í kringum okkur. Það eru mjög hávær skoðanaskipti, t.d. í Bandaríkjunum, um það hvort þarna hafi verið rétt að málum staðið. Leiðarar hafa verið skrifaðir í mörgum helstu stórblöðum Bandaríkjanna þar sem framganga NATO er mjög gagnrýnd, bæði þjóðréttarlega hliðin og einnig einfaldlega út frá því að þetta hafi verið röng aðferð, ekki árangursrík, og að aðrar leiðir hefðu verið vænlegri því fórnarkostnaðurinn sé of mikill.

Ég var staddur í Danmörku og Svíþjóð fyrir einum sex vikum síðan. Þá þegar geisuðu í báðum þeim löndum miklar umræður í þjóðþingunum og í fjölmiðlum, í umræðuþáttum, þar sem dregnir voru fram bæði stjórnmálamenn og sérfræðingar um málefni Balkanskaga, sagnfræðingar, þjóðréttarfræðingar og aðrir slíkir, sem rökræddu af miklum móð það sem þarna var að gerast. Það er því mikill misskilningur að halda því fram að það sé aðeins á Íslandi sem ekki ríki 100% samstaða um að NATO hafi 100% rétt fyrir sér, sé óskeikult og hafið yfir alla gagnrýni.

Ég held þvert á móti að mjög fáir reyni að stilla málum þannig upp nema æstustu stuðningsmenn þessara aðgerða á byggðu bóli sem ég hef enn þá fyrir hitt, séð eða heyrt til í umræðum um þessi mál, það sem ég hef fylgst með þeim, þ.e. hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. Íslands. Af einhverjum undarlegum ástæðum hefur þetta þróast þannig að forsvarsmenn þessarar vopnlausu smáþjóðar sem hingað til hefur státað sig af því að bera ekki ábyrgð á því að hafa nokkrun tíma borið aðra þjóð vopnum, hafa gerst áköfustu stuðningsmenn og talsmenn þessara atburða. Á því kann ég ekki skýringar.

Ég harma ummæli hæstv. forsrh. um Sameinuðu þjóðirnar. Mér finnst dapurlegt að heyra forsrh. Íslands gera jafnlítið úr Sameinuðu þjóðunum og hæstv. forsrh. gerði í máli sínu með því að láta m.a. að því liggja að Sameinuðu þjóðunum væri um að kenna að stríð geisaði á sex stöðum í Afríku. Eða til hvers átti sú tilvitnun að vísa?

Það er vissulega rétt að Sameinuðu þjóðunum hafa verið mislagðar hendur og þær hafa ekki náð að stilla til friðar alls staðar. En þær hafa líka mjög margt gott gert. Er þrátt fyrir allt til annað tæki betra en hin lýðræðislegu heildarsamtök þjóðanna til að að ræða slík mál?

Hvers vegna er farið fram hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Er það ekki augljóslega vegna þess að leikreglur Sameinuðu þjóðanna og það skipulag sem þar er fyrir hendi hefðu komið í veg fyrir árásirnar? Það lá fyrir að aðildarríki að öryggisráðinu hefðu beitt neitunarvaldi. Þess vegna var ákveðið að fara fram hjá því. Menn eru ansi sannfærðir um eigið ágæti og réttmæti ákvarðana sinna þegar þeir hunsa hina lýðræðislegu heildaruppbyggingu þjóðanna eins og Sameinuðu þjóðirnar eru við slíkar aðstæður.

Ég nefndi ÖSE áðan og ég fullyrði að ástandið væri mun skárra í Kosovo nú ef öryggisgæslusveitir ÖSE hefðu verið áfram í héraðinu --- þær fóru ekki þaðan fyrr en að loftárásirnar vofðu yfir --- sérstaklega ef ÖSE hefði fengið bæði fjárhagslegan og pólitískan stuðning til að reyna að leysa sitt hlutverk af hendi í Kosovo og annars staðar á Balkanskaga.

Vita menn t.d. ekki að ÖSE hefur verið í fjársvelti með starfsemi sína rétt eins og Sameinuðu þjóðirnar? Hverjir halda Sameinuðu þjóðunum í skuldakreppu aðrir en höfuðaðilarnir að þeim ákvörðunum sem hér hafa verið teknar, þ.e. Bandaríkjamenn? Það er útbreidd skoðun meðal þeirra sem fjalla um alþjóðastjórnmál í þessu samhengi að hrein pólitísk markmið séu að baki framgöngu NATO og áherslu Bandaríkjanna í þessu máli. Ég trúi því ekki að hæstv. ráðherrar hafi ekki heyrt um eða lesið slík sjónarmið. Þau hafa t.d. verið sett fram af málsmetandi stjórnmálamönnum í Bandaríkjunum og fræðimönnum við háskóla, bæði austan hafs og vestan. Þar eru menn að reyna að greina hin dýpri rök að baki því sem þarna hefur gerst.

Auðvitað er það þannig að út frá valdapólitískum og hernaðarpólitískum hagsmunum Bandaríkjanna þjónar það augljóslega þeirra markmiðum, eins og menn telja sig þekkja þau, að evrópskar stofnanir reynist þess ekki umkomnar að skakka þennan hildarleik og að Sameinuðu þjóðunum sé áfram haldið í þeirri kreppu fjársveltis og skorts á pólitískum bakstuðningi sem þær hafa því miður lengi verið haltar af. Hverjir geta þá sagt: ,,Vér erum hinir einu sem getum farið um heiminn og skakkað leikinn,`` aðrir en vesturveldin með Bandaríkin í broddi fylkingar? Er þá ekki skólabókardæmið að ganga upp, sönnun þess að svona sé þetta? Það telja margir.

Herra forseti. Því miður eiga hörmungar þjóða og þjóðarbrota á Balkanskaga sér langa sögu. Það er hlutverk sagnfræðinga frekar en okkar að reyna að rekja það. Seinni tíma saga þessara átaka tekur til þess tíma að fyrrum Júgóslavía tók að liðast í sundur á árunum upp úr 1990, aðallega á árunum 1991--1995. Þá urðu stríðsátök í Slóveníu, Króatíu og Bosníu-Hersegóvínu sem menn óttuðust frá byrjun að gætu breiðst út um allan Balkanskaga. Þá var Kosovo oft og iðulega nefnt og því miður hefur það síðan gerst sem margir óttuðust þá að átökin breiddust þangað.

Við skulum ekki halda að veruleikinn sé svo einfaldur að sökudólgurinn sé bara einn, þ.e. Slobodan Milosevic og illa innrætt serbnesk þjóð. Það lýsir a.m.k. afar lítilli söguþekkingu ef mönnum dettur í hug að reyna að greina rætur hins djúprætta og langvinna vanda sem sambúð þjóða og þjóðarbrota á Balkanskaga er undirorpin með því að kenna Serbum einum um.

Serbar eiga einnig um sárt að binda úr fyrri heimstyrjöldinni og seinni heimsstyrjöldinni. Það er ekki lengra síðan en nokkur ár að tvö til þrjú hundruð þúsund Serbar voru drepnir eða reknir út úr Kraijnahéraði og sviptir heimalandi sínu. Hvar var NATO þá? Með því ætla ég þó ekki að sakfella menn eða réttlæta eitt böl með því að benda á annað verra.

Vandamálið á Balkanskaganum er ekki Serbar, ekki serbneska þjóðin. Vandamálið er heldur ekki Kosovo-Albanar, Króatar, Slóvenar, Svartfellingar eða Makedónar. Vandamálið er ekki kristnir menn eða múslímar. Vandamálið er sambúð þessara hópa, sambúð þessara þjóða, þjóðarbrota og trúarhópa, sem á sér langa og blóðuga átakasögu. Það er skelfilegt að heyra menn reyna að afgreiða hlutina eins og gert var hér áðan, þ.e. skella allri skuldinni á einn aðila í þessum efnum. Það er ekki vænlegt til árangurs eða skilnings á vandamálinu.

Ég er sannfærður um það að þetta mál muni eiga sér mjög langan eftirleik. Auðvitað vonum við öll að til betri tíðar bregði og þarna verði ekki blóðug átök, þjóðernishreinsanir eða slátrun af því tagi sem nýliðin saga og síðustu ár bera með sér. En jafnvel þó að við verðum svo gæfusöm að svo verði ekki þá er enginn vafi á því að eftirleikurinn af þessu öllu saman verður mjög langur. Þá mun ýmislegt eiga eftir að koma á daginn sem nú er falið fyrir einhliða áróðursframsetningu stríðsaðilanna. Eins og alltaf gerist í átökum þá réttlæta menn gjörðir sínar, skella skuldinni á andstæðinginn og einfalda veruleikann fyrir sér með því að mála hann meira og minna í svart/hvítu.

[18:15]

Síst dreg ég úr því að það sé einnig gert hinum megin frá. Að sjálfsögðu hefur Milosevic og þeir sem að honum standa notað öll tækifæri sem þeir hafa fengið til þess að reyna að sverta ímynd Vesturlanda og gera út á þá staðreynd að þeir hafa átt í stríði, og það hafa þeir sannanlega átt, til þess að auka andúð á vesturveldum og réttlæta gjörðir sínar. Og hvort sem okkur líka betur eða verr --- og það líkar náttúrlega eðlilega hæstv. ráðherrum mjög mikið verr að þurfa að viðurkenna það --- þá hafa þjóðernishreinsanirnar að stórum hluta til farið fram í skjóli loftárásanna. Það liggur fyrir. Þó að þarna hefðu vissulega verið miklir þjóðflutningar frá því í janúar- og febrúarmánuði sl. þá hefur mestur þungi flóttamannastraumsins verið á tímum loftárásanna og menn óttast að langmestu glæpaverkin hafi verið framin á þeim tíma frá því að þær hófust, væntanlega þá vegna þess að Serbum finnst að þeir geti skákað í því skjólinu að þeir hafi átt í stríði, og menn réttlæta ýmislegt með stríði, ekki satt?

Vonandi tekst að gera þessi mál þannig upp í hinu alþjóðlega samfélagi að meinin geti síðan tekið að gróa og menn dragi þá til ábyrgðar sem þarna bera ábyrgð og stríðsglæpamenn hljóti makleg málagjöld. Að sjálfsögðu vonum við það öll. En við skulum ekki gerast svo hrokafull og sjálfsörugg hér á Vesturlöndum að vegna þess að við höfum átt í höggi við glæpamenn þurfum við ekki að réttlæta eigin gjörðir og ekki þurfi að uppfylla þær kröfur sem við eigum að gera, t.d. um lögmæti og þjóðréttarlega réttan framgang. Þá væri mjög illa komið ef menn lentu út á þeim hála ís að láta óvininum í þeim skilningi eftir að velja sér vígvöllinn. Ég vona að ekki þurfi að skilja orð hæstvirtra ráðherra þannig að NATO og aðildarríkjum þess hafi verið stætt á því að stytta sér leið í slíkum efnum vegna þess að þau áttu í höggi við Slobodan Milosevic. Þá væri mjög illa farið.

Herra forseti. Að minnsta kosti er það bjargföst sannfæring mín --- og þessar umræður sem ýmislegt mætti auðvitað um segja hafa ekki breytt því --- að umræður um þessi mál séu af hinu góða. Menn þurfa kannski að taka úr sér mesta hrollinn og æsinginn. En þegar menn komast niður á að ræða þessa hluti málefnalega þá held ég að það eigi við eins og yfirleitt að það sé af hinu góða að menn skiptist á skoðunum, sérstaklega ef menn hafa mismunandi skoðanir. Og það er mikill misskilningur hjá hæstv. utanrrh. að okkar skoðanir séu ekki lagðar hér undir eins og allt annað í þessum efnum. Að sjálfsögðu, ekki skorast ég undan gagnrýni á þau viðhorf eða þau rök sem ég hef sett fram. En ég vil fyrst og fremst að umræðan sé á þeim nótum að hún geti þjónað einhverjum uppbyggilegum tilgangi og ég er sannfærður um að það væri jákvætt skref að setja þessi mál í þann farveg sem tillagan gerir ráð fyrir.