Tillögur um aðgerðir vegna fíkniefnavandans

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 13:34:23 (140)

1999-06-14 13:34:23# 124. lþ. 4.1 fundur 46#B tillögur um aðgerðir vegna fíkniefnavandans# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[13:34]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Meira fjármagn og aðgerðir til að bregðast við aukinni fíkniefnaneyslu unglinga og löngum biðlistum eftir meðferð bar hátt í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningar. Það sama verður ekki sagt um ríkisstjórnina, hvorki fyrir né eftir kosningar. Það er hljótt á þeim bæ um ný úrræði.

Á útmánuðum var að mig minnir settur á laggirnar starfshópur nokkurra ráðuneyta til að skoða hvernig taka ætti á málum. Aðstoðarmaður félmrh. tjáði sig um skýrslu starfshópsins um páskaleytið. Í viðtölum við fjölmiðla kom fram hjá honum að skýrsla og tillögur hefðu verið lagðar fyrir ríkisstjórn og að fljótlega mætti vænta afgreiðslu þeirra og þar með aðgerða. Hann upplýsti að m.a. væri starfshópurinn með tillögur um sameiginlega bráðamóttöku fyrir barna- og unglingageðdeild og Barnaverndarstofu og jafnframt að tillaga væri um nýtt langtímameðferðarheimili. Enn hefur ekkert heyrst um afgreiðslu ríkisstjórnarinnar á tillögu starfshópsins. Ég spyr forsrh., oddvita ríkisstjórnarinnar, í fjarveru félmrh. þar sem þetta mál snýr að skýrslu sem lögð var fyrir ríkisstjórn: Hvað líður skýrslunni og tillögum fulltrúa ráðuneytanna og ætlar ríkisstjórnin að bregðast við þessum tillögum og þá hvenær?