Byggðavandi og staða fiskverkafólks

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 14:45:57 (181)

1999-06-14 14:45:57# 124. lþ. 4.92 fundur 44#B byggðavandi og staða fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[14:45]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Vandi Vestfirðinga og landsbyggðarmanna er að sönnu mikill og viðvarandi síðustu árin og ekki alveg ljóst hvernig úr þessum mikla byggðavanda verður leyst á næstu árum ef menn líta eingöngu til fiskvinnslunnar og horfa eingöngu á þau úrræði að festa eigi kvótann við ákveðin svæði eða byggðatengja hann eins og talað er um í dag. Ég held nefnilega að það skipti í rauninni ekki neinu máli hvar kvótinn hefur lögheimili sitt heldur skipti öllu máli hvernig afkoma fyrirtækjanna er í útgerð og fyrirtækjanna í fiskvinnslu.

Staðreyndin er nefnilega sú að ef samgöngur eru þannig að hægt er að keyra fisk á milli landshluta nánast hvenær sem er allt árið um kring, þá breytir engu hvar kvótinn er staðsettur á landabréfinu.

Við vitum að fiskvinnslur á höfuðborgarsvæðinu, fiskvinnslur á Norðurlandi og víðar eru að kaupa fisk á fiskmörkuðum hvar sem er á landinu. Ég veit að á Suðurnesjum er keyptur fiskur á fiskmörkuðum frá Hornafirði, Ísafirði og Snæfellsnesi og hann fluttur einfaldlega með flutningabílum. Þetta er staðreynd og fiskurinn er fluttur til þeirra fiskvinnslustöðva sem geta keppt á markaðnum, geta keppt um þau tonn sem eru til sölu.

Þess vegna er það í mínum huga aðalatriðið að fyrirtækin geti losnað undan þeim pilsfaldakapítalisma sem hefur ríkt á mörgum þessum stöðum, t.d. á Vestfjörðum þar sem menn hafa nánast haldið lífi í fyrirtækjum með styrkjum frá Byggðastofnun og fleirum sem hefur að endingu ekki komið neinum verr en fólkinu sjálfu á þessum stöðum. Fyrirtækin hafa ekki náð að þroskast og þróast í þá átt sem eðlilegt má telja í nútímaþjóðfélagi.

Ég vona, herra forseti, að það náist að leysa þessi mál. Ég er einn af þeim sem telja nauðsynlegt að halda landinu í byggð og gera það á þann hátt að fólkið geti talist öruggt um eignir sínar.