Byggðavandi og staða fiskverkafólks

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 14:48:41 (182)

1999-06-14 14:48:41# 124. lþ. 4.92 fundur 44#B byggðavandi og staða fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), Flm. KVM
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[14:48]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og hæstv. ráðherra fyrir svör sem mér finnst nú að hefðu mátt vera nokkuð skýrari og einarðari. Það er nefnilega þannig að fólkið sem er atvinnulaust núna á þessari stundu, þessu augnabliki hefur ekki neinn sérstakan tíma til að bíða eftir því að nefnd verði skipuð til að athuga hvað eigi að gera í málefnum sjávarútvegsins. Þannig er það einfaldlega. Það verðum við að hafa í huga.

Einn hv. þm. tók svo til orða að þetta væri vandi Vestfirðinga en ég vil leyfa mér að segja að þetta sé vandi landsbyggðarinnar allrar. Hann ræddi um pilsfaldakapítalismann, sem er alveg rétt að hefur verið ástundaður hér löngum, hefur náttúrlega verið ástundaður í þágu fárra einstaklinga en ekki fólksins í heild, sem má blæða á meðan menn eru í matadorleiknum.

Þess vegna segi ég að til þess að sjávarútvegurinn og fiskvinnslan megi eflast verður fólkið sem vinnur störfin að fá að koma meira inn í stjórnun fyrirtækjanna. Verkakonan á að fá að segja sitthvað um það hvernig stefnumótun á að vera í fyrirtækinu. Ég ítreka það sem ég hef sagt að ef verkafólkið hefði fengið að taka þátt í stjórnun fyrirtækjanna frá upphafi væru þau miklu betur sett en þau eru í dag. Afkoma þeirra er undir vinnuaflinu komin á þessum stöðum. Því hvet ég til þess að tekið verði á þessum málum fljótt og örugglega svo að fólkið sem er atvinnulaust og er að bíða eftir að fá vinnuna fái úrlausn sinna mála.