Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 16:21:31 (203)

1999-06-14 16:21:31# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[16:21]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. telur æskilegt að til staðar sé öflugur ríkisbanki til þess að hafa hlutverk mótvægisins gagnvart ýmsum sterkum öflum í fjármálalífinu. Ég er þeirrar skoðunar að jafnvel sé rétt að markaðurinn sjái sjálfur um þetta. Ég tel að breytingarnar sem hafa orðið í samfélaginu innan lands og líka þær sem orðið hafa erlendis og ekki síst möguleikar Íslendinga á því að sækja eftir fjármagni erlendis séu þess eðlis að allt þetta geri það að verkum að ég er ekki eins hræddur við nákvæmlega þetta og ég var fyrir 10--15 árum þegar við hv. þm. vorum tiltölulega sammála um þetta. Ég held að alþjóðavæðingin, sem allir eru ekki jafnsammála í þessum sölum, hafi mjög molað stallinn undan þeim fjármálarisa sem við sáum glitta víða í.

Auðvitað er ljóst að þarna er ákveðin hætta fyrir hendi. Það má hins vegar reyna að draga úr henni með því að fara þá leið sem margir hafa nefnt, að búa svo um hnúta að þegar hlutir eru seldir í ríkisbönkunum þá sé það með þeim hætti að dreifingin sé sem víðtækust. Ég vek athygli á því að meira að segja hæstv. forsrh. vildi fara leið hinnar miklu forsjárhyggju og binda það í lög að ekki mættu nein bandalög eða einstaklingar eða einstakir aðilar eiga meira en 3--4% af bankanum, að mig minnir. Hann hefur því eiginlega gengið lengst í þessari forsjárhyggju og er út af fyrir sig sorglegt að hann skuli ekki vera hérna í þessari umræðu. Hann hefði ábyggilega getað tekið undir margt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur sagt í dag.