Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 12:51:19 (259)

1999-06-15 12:51:19# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[12:51]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því frv. til stjórnarskipunarlaga sem hér er til umræðu. Í því felast mikilvægar breytingar í rétta átt. Ég verð þó að lýsa yfir ákveðnum vonbrigðum mínum með að enn frekara jafnvægi skuli ekki hafa náðst með atkvæðisréttinn.

Réttur hvers manns til að kjósa sér fulltrúa á löggjafarþing landsins, Alþingi, er einn mikilvægasti hlekkurinn í lýðræðiskeðju okkar Íslendinga. Slíkur réttur er ekki og á ekki að vera verslunarvara í pólitísku dægurþrasi. Vissulega þarf að gæta að byggð í landinu og reyna að jafna aðstöðumun hinna dreifðu byggða landsins. En það verður ekki gert með því að meta kosningarrétt einstaklinganna á mismunandi hátt. Hann verður verður ekki metinn í krónum, vöttum eða kílóriðum. Kosningarrétturinn á að vera fyrirvaralaus.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að Róm var ekki reist á einum degi. Frumvarpið er hvað atkvæðavægi varðar skref í rétta átt, minnug þess að fyrir fáeinum árum þurfti nær fjögur atkvæði Reyknesinga á móti einu atkvæði Vestfirðinga. Ég styð þetta frv. sem virðist vera vel unnið og þaulhugsað af heilum hug, með von um að enn frekara jafnvægi atkvæðisréttar verði komið á fyrr en síðar.