Rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 13:49:45 (275)

1999-06-15 13:49:45# 124. lþ. 5.92 fundur 55#B rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[13:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er staðreynd að mörg hundruð milljónir ef ekki milljarða vantar inn í rekstur sjúkrahúsanna. Einnig er staðreynd að sumarlokanir á sjúkrahúsum skila ekki sparnaði þegar upp er staðið og allur kostnaður hins opinbera er tekinn saman.

Ég geri að umtalsefni hóp sjúklinga sem hefur ekki notið boðlegrar heilbrigðisþjónustu, þ.e. geðsjúk börn. Fyrir kosningar vakti Félag foreldra geðsjúkra barna athygli á alvarlegri stöðu þeirra. Barna- og unglingageðdeildin getur hvergi annað þörfinni. Bráðainnlagnir eru engar um helgar, börn lögð inn með fullorðnum geðsjúkum, börn sem reynt hafa sjálfsvíg lögð inn á almennar deildir og 90 börn á biðlista. Ástandið hjá þessu fólki er hræðilegt og það þegar barna- og unglingageðdeildin er í fullum rekstri.

Bæði hæstv. heilbrrh. og iðnrh. lofuðu bættu ástandi og öllu fögru fyrir kosningar. Hvað blasir nú við í byrjun sumars hjá þeim fjölskyldum sem ákölluðu stjórnvöld fyrir nokkrum vikum? Barna- og unglingageðdeildinni er gert að draga saman ekki síður en öðrum deildum. Helmingur rúma á barnadeild lokar í átta vikur. Þar verða þrjú rými fyrir geðveik börn. Unglingadeildin lokar í sex vikur, þar verða fjögur rými og framhaldsmeðferðardeildin lokar alveg í mánuð.

Bráðainnlagnir eru engar eins og gefur að skilja, aðeins allra veikustu einstaklingarnir sem er ekki hægt að útskrifa verða á deildinni. Í bráðatilvikum verður að leggja börnin inn á fullorðinsgeðdeildir sem verður reyndar einnig lokað um helming. Ástandið var hræðilegt fyrir lokanir en hvað er verið að kalla yfir þessi börn og fjölskyldur þeirra með þessu ástandi? Ætla hæstv. ráðherrar að svíkja kosningaloforðin gagnvart þessum sjúku börnum og fjölskyldum þeirra eða verður þessu alvarlega ástandi afstýrt?