Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 15:25:54 (301)

1999-06-15 15:25:54# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[15:25]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að þetta er meginmarkmið okkar og á að vera sameiginlegt markmið okkar. Ég held hins vegar að hæstv. ríkisstjórn hafi sofið á verðinum. Það eru í rauninni þrjú úrræði sem ég sé í stöðunni. Það eru vaxtahækkanir, skattahækkanir eða niðurskurður í rekstri hins opinbera, nema ef vera skyldi allt þetta þrennt.

Ég held að mjög erfitt sé að beita skattahækkunum við þessar kringumstæður. Sama er að segja um vaxtahækkanir, eins og ég mun nú ræða síðar í dag, ef ég kemst einhvern tíma að. Ég held að þær dugi ekki heldur. Ég tel að það sé röð mistaka --- ég kalla það mistök --- í efnahagsstjórnun sem geri það að verkum að ef við ætlum að framlengja þetta hagsældarskeið þá verði að grípa til ansi erfiðra ráða.

Ég segi fyrir mig, herra forseti, af því að mér þótti hæstv. ráðherra fara með nokkurt flím og sprok í garð okkar og spurði okkur: Ætla menn þá að takmarka fjármagn til Vegagerðar svo hún geti ekki borgað skuldir sínar? Svarið er nei. Ég segi hins vegar að ég hef kjark til að koma hingað og segja: Ég legg til, með aðild minni að þeirri tillögu sem hér er rædd, að Vegagerðin framkvæmi ekki jafnmikið á næstu árum.

Ég held því miður að niðurstaðan verði þegar upp er staðið að á næstu tveimur árum sé nauðsynlegt að fara í ansi harðar aðgerðir á sviði opinbers rekstrar til að ná utan um þetta vandamál.

Af því að hæstv. ráðherra talar dálítið digurbarkalega um að í raun sé allt í góðu lagi hjá honum, og ég vona að það sé rétt, og hann vísar í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þá gæti ég nú líka komið með ýmislegt sem ekki kom fram í fréttatilkynningunni góðu. Ég ætla að leyfa mér að vísa í álit Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu frá því í síðasta mánuði þar sem sagt er að ofþenslu gæti í efnahagslífinu, hætta sé á að verðbólga aukist meira og hraðar en íslensk stjórnvöld hafi gert ráð fyrir. Talin er hætta á að þetta geti valdið stigmagnandi hækkun verðlags og launa. Vegna þessa, segir stofnunin, gæti reynst erfitt að hafa stjórn á gengi krónunnar. Fróðlegt er að stofnunin fullyrðir að aðhaldssemi í efnahagsstjórn hafi verið fremur lítil.

Bíðum við, herra forseti, er það vegna þessa sem hæstv. ráðherra kemur hér og lemur sér á brjóst eins og górilla í frumskóginum og segir: Sjáið hvað ég hef gert. Þetta er einkunnin.