Afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 10:34:27 (338)

1999-06-16 10:34:27# 124. lþ. 7.93 fundur 68#B afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun# (aths. um störf þingsins), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[10:34]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að þáltill. um mat á Fljótsdalsvirkjun kom til umræðu umhvn. í morgun. Þá féllst meiri hluti nefndarmanna á að eðlilegt væri að vinna þetta mál vel, hér væri um yfirgripsmikið mál að ræða, það þyrfti að afla nauðsynlegra gagna, bæði að fá umsagnir, skoða fræðileg og pólitísk gögn í málinu og fá gesti. Sérstaklega þótti mönnum þetta mikilvægt vegna þess að í nefndinni eru að langmestum hluta nýir þingmenn sem óskuðu eindregið eftir því að fá þetta tækifæri.

Á minnisblaði, sem ég hef fengið frá nefndadeildinni, vil ég láta það koma fram að málið hefur áður verið rætt í hv. umhvn. en fengið þar miklu takmarkaðri umfjöllun en nauðsynlegt er við svo umfangsmikið mál, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að það tekur stöðugt breytingum í umfjöllum og nýjar upplýsingar koma fram.

Ég vil láta koma fram að málið var lagt fram á 122. þingi en var ekki rætt. Á 123. þingi var málið rætt snemma og kom til umfjöllunar í umhvn. strax í október. Var það sent til umsagnar til 28 aðila með umsagnarfresti til 20. nóv. 14 umsagnir bárust.

Við umfjöllun í nefndinni komu örfáir gestir sem ég get talið upp ef óskað er en mun fleiri gesta er þörf. Á fundi nefndarinnar 10. des. 1998 var tillaga samþykkt um að óska eftir umsögn iðnn. og var hún samþykkt. Ekki barst umsögn frá iðnn. um málið. Af þessu má ráða að málið er hvergi nærri fullrætt, hvergi fullþroskað í nefndinni og ég hygg að það væri óráð að víkja frá hefðbundnu vinnuferli í þinginu hvað þetta mál varðar.