Endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 11:02:53 (357)

1999-06-16 11:02:53# 124. lþ. 7.1 fundur 10. mál: #A endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða# fsp. (til munnl.) frá forsrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[11:02]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Vegna umræðu um þá nefnd sem hér var spurst fyrir um þá held ég að ástæða sé til þess að fram komi að þegar lögunum um stjórn fiskveiða var breytt í janúar sl. sem viðbragð við hæstaréttardómi frá því í desember, var tekin ákvörðun um að þessi nefnd yrði sett á. Ég met það þannig að ákvörðun hafi verið tekin um það í ljósi þeirra viðbragða sem ríkisstjórnin hafði í frammi og þeirrar umræðu sem varð um þau viðbrögð.

Þá hafði þessi nefnd, að því er virtist, fyrst og fremst það hlutverk að ná saman þessari löggjöf um stjórn fiskveiða vegna þess að öllum var ljóst eftir viðbrögð meiri hluta Alþingis að full ástæða var til þess að fara yfir löggjöfina í heild sinni.

Nú hefur þessi nefnd greinilega fengið víðtækara hlutverk. Hún á að verða hin mikla sáttanefnd og það er gleðiefni að heyra að menn ætla að fara í málið með þeim hætti. En þá verður líka sérstaklega tekið (Forseti hringir.) eftir því hvernig nefndin verður skipuð. Á því veltur hvort um sátt verður að ræða eða ekki og það mun koma í ljós um leið og við sjáum hverjir verða til verksins valdir.