Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


124. löggjafarþing 1999.
Þskj. 9  —  9. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Jóhann Ársælsson,


Guðmundur Árni Stefánsson, Lúðvík Bergvinsson.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 16. gr. er ráðherra óheimilt að hækka bensíngjald á árinu 1999.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.


    Frumvarp þetta er þáttur í aðgerðum sem þingflokkur Samfylkingarinnar beitir sér nú fyrir til að sporna við verðbólgu.
    Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., er ráðherra veitt heimild til að hækka bensíngjald í hlutfalli við breytingu á vísitölu byggingarkostnaðar. Grunngjaldið er ákveðið í 15. gr. laganna en hækkanir eru útfærðar með reglugerð. Bensíngjald var hækkað 19. júní 1998 með reglugerð nr. 339/1998. Hinn 1. júní sl. hækkaði ráðherra enn bensíngjald með reglugerð nr. 356/1999 og tekur hækkunin einnig til óseldra birgða af eldsneyti í landinu. Verði frumvarp þetta að lögum fellur lagastoð síðastnefndrar reglugerðar brott og verður því óheimilt að beita henni frá og með gildistökudegi laganna. Þar með verður að lækka bensíngjald til fyrra horfs eins og það var ákveðið með reglugerð nr. 339/1998.
    Í forsendum fjárlaga fyrir árið 1999 (þskj. 1 á 123. löggjafarþingi, bls. 239) er gert ráð fyrir hækkun bensíngjalds miðað við verðlag auk 2% viðbótarhækkunar til að standa undir auknum framkvæmdum í vegagerð fyrir 400 millj. kr. Í gildandi vegáætlun er einnig gert ráð fyrir þessari hækkun en einnig áætluð endurgreiðsla lánsfjár að fjárhæð 420 millj. kr. Með því að fresta endurgreiðslum má komast hjá því að draga úr framkvæmdum þrátt fyrir að hækkun bensíngjalds verði slegið á frest.
    Í fylgiskjali er samþykkt þingflokks Samfylkingarinnar þar sem fram kemur frekari rökstuðningur fyrir þeirri breytingu sem hér er lögð til ásamt fleiri aðgerðum sem Samfylkingin vill ná samstöðu um til að sporna við verðbólgu og auknum skuldum heimilanna.
    

Fylgiskjal I.


Ályktun þingflokks Samfylkingarinnar
um viðnámsaðgerðir gegn verðbólgu.

(9. júní 1999.)


    Í ljósi aðvarana innlendra og erlendra stofnana á sviði efnahagsmála um nauðsyn þess að slá á þenslu í efnahagslífinu telur þingflokkur Samfylkingarinnar óhjákvæmilegt að stjórnvöld og Alþingi sameinist um aðgerðir til að draga til baka eða fresta boðuðum hækkunum á bensíngjaldi og gjaldskrá Landsvirkjunar og öðrum liðum. Þingflokkurinn vekur athygli á að þær hækkanir sem nú dynja yfir rýra ekki aðeins ráðstöfunarfé almennings heldur veldur vísitölutenging lána því að skuldir heimilanna aukast í takt við aukna verðbólgu.
    Til að fylgja þessu eftir hefur þingflokkurinn ákveðið að leggja fram frumvarp til laga um að hætt verði við hækkun bensíngjalds. Jafnframt beinir hann þeim eindregnu tilmælum til iðnaðarráðherra að hann beiti sér þegar í stað fyrir því að gjaldskrárhækkunum Landsvirkjunar verði frestað. Þingflokkurinn hefur enn fremur ákveðið að fela fulltrúum sínum í iðnaðarnefnd að fylgja málinu eftir.
    Þingflokkurinn ítrekar mótmæli sín við fráleitri hækkun tryggingafélaganna á iðgjöldum bifreiðatrygginga. Það er skoðun hans að í krafti þeirra miklu og vaxandi bótasjóða sem félögin hafa í vörslu sinni geti þau mætt þeim breytingum sem gerðar voru á skaðabótalögum á síðasta þingi án óhóflegra hækkana á iðgjöldum. Þingflokkur Samfylkingarinnar krefst þess einnig að fjármálaeftirlitið hraði athugun sinni á forsendum iðgjaldahækkunar tryggingafélaganna þannig að Alþingi gefist ráðrúm til að fjalla ítarlega um þær á yfirstandandi þingi. Þingflokkurinn beinir jafnframt þeim eindregnu tilmælum til viðskiptaráðherra að á grundvelli laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi setji hann þegar í stað reglugerð sem heimilar Fjármálaeftirlitinu að grípa til aðgerða ef tryggingafélögin fara ekki að kröfum eða athugasemdum Fjármálaeftirlitsins um úrbætur, geri eftirlitið athugasemdir við ósanngjörn iðgjöld sem ekki eru í samræmi við áhættu sem í vátryggingunum felst. Þótt ár sé liðið frá því ráðherrann fékk slíka heimild hefur hann enn ekki sett reglugerðina og á meðan er óljóst hvort hið opinbera hefur tök á því að knýja tryggingafélögin til að fylgja tilmælum Fjármálaeftirlitsins, komi í ljós að um slíkar hækkanir sé að ræða.
    Vinnubrögð tryggingafélaganna í aðdraganda hækkunarinnar gefa enn fremur fullt tilefni til að kannað verði af hálfu Samkeppnisstofnunar hvort félögin hafi beitt ólögmætu samráði um hækkunina. Þingflokkurinn hefur því falið fulltrúum sínum í efnahags- og viðskiptanefnd að fylgja eftir ósk um slíka könnun jafnframt því sem fulltrúum Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd verður falið að óska eftir því að fulltrúar Fjármálaeftirlitsins og tryggingafélaganna verði kallaðir fyrir nefndina til að gera grein fyrir afstöðu sinni til hækkunar á iðgjöldum bifreiðatrygginga.