Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 14:52:42 (3776)

2000-02-01 14:52:42# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[14:52]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil fyrst segja að það er afskaplega góð tímasetning á þessu frv. að það skuli koma fram á afmælisdegi Kvenfélagasambands Íslands. Gleðilegt er til þess að vita að hæstv. félmrh. skuli hafa haft það í huga þegar þessu máli er komið á dagskrá því að hér er mjög mikilvægt og öflugt mál á ferðinni. Eðli málsins samkvæmt er eðlilegt að um það fari fram miklar umræður og fjörugar en ég verð að segja við hæstv. félmrh. að ég hefði kosið að sjá svolítið meira hrist upp í þessu frv. en gert er hér. Ég verð að segja að það veldur mér vonbrigðum árið 2000 að orðalag og stíll á frv. af þessu tagi skuli vera svona þurr og óaðlaðandi eins og raun ber vitni í þessu plaggi. Ég ætla að hafa það hvatningu mína til hv. félmn. að hún geri allt sem hægt er til þess að hrista upp í þeim orðaforða sem hér er notaður og þeim hugmyndum sem hér liggja að baki og þar með getum við átt von á að út úr þessu komi á endanum löggjöf sem getur skipt sköpum í málaflokki sem þarf að breyta frá grunni yst sem innst.

Þetta er auðvitað spurning um mannréttindi. Jafnréttismál eru mannréttindamál. En það drepur málinu kannski örlítið á dreif að fara að ræða um kvenfrelsi sem mannréttindamál. Ég hef t.d. tilhneigingu til að ræða frekar um kvenfrelsi en jafnrétti. Mér finnst kvenfrelsi sem jafnréttismál vera einhver loðmulla sem hefur ekki fært okkur neitt. Jafnréttismálin hafa enn ekki fært okkur konum nema lítið brot af því sem við vorum kannski að vona, þær konur sem hófu baráttuna fyrir 25--30 árum voru að vona þær yrðu komnar lengra árið 2000. Það hefur því miður gengið afskaplega hægt. Kannski eigum við bara að kalla þennan málaflokk oftar en við gerum málaflokk kvenfrelsis því enn þá eru það konur sem reyna að sækja sama rétt til lífs eins og karlar.

Ótal grundvallaratriði hafa verið nefnd eins og launamisréttið. Það vex. Þátttaka kvenna í fjölmiðlum, í fréttum er enn þá sáralítil miðað við þátttöku karla. Enn þá eru það karlar sem segja flest orð í fréttum sjónvarps. Enn þá eru það konur sem eru í minni hluta í stjórnum fyrirtækja eða í forstjórastöðum. Enn þá eru það konur sem bera umtalsvert meiri ábyrgð á uppeldi barna og umönnun barna inni á heimilunum og umtalsvert meiri ábyrgð á öllum heimilisstörfum. Enn þá eru konur að standa undir tvöföldu vinnuálagi. Konur eru enn í meiri hluta þeirra sem leita réttar síns fyrir kærunefnd jafnréttismála og jafnvel þó svo þær séu að leita réttar síns fyrir kærunefndinni, hverju eru þær þá bættari? Það er allt of sjaldan sem einhverjar úrlausnir finnast og það er alltaf of seint að grípa um rassinn þegar allt er komið í buxurnar og það er allt of oft sem konur þurfa að sætta sig við orðinn hlut af því að jafnréttis eða kvenfrelsis hefur ekki verið gætt í meðferð mála.

Enn er ekki farið eftir t.d. þeim ákvæðum að störf skuli opin jafnt báðum kynjum. Alltaf er verið að auglýsa eftir körlum eða konum í ákveðin störf þannig að enn leyfum við þessar flokkanir starfa jafnvel þó að löggjöf okkar geri ráð fyrir því að öll störf eigi að vera opin körlum jafnt sem konum.

Mig langar, herra forseti, að vitna til greinarinnar sem fjallar um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs sem er 16. gr. í frv. Vissulega lýsir hún göfugri hugsun og hugsun sem við verðum öll að gefa gaum og ekki bara gefa gaum, heldur finna leiðir til að hún geti orðið að veruleika í samfélagi okkar. Mig langar til að spyrja hæstv. félmrh.: Hvernig sér hann þessa hugsun geta orðið að veruleika í samfélaginu sem við búum við í dag miðað við það ástand sem við þekkjum í dag? Greinin er svohljóðandi, herra forseti:

,,Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu. Ráðstafanir þær skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að tekið sé tillit til þarfa atvinnulífs og fjölskylduaðstæðna starfsmanna, þar með talið að þeim sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- eða foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.``

Við vitum að þetta hefur verið markmið okkar í mörg ár. Um þetta hefur verið talað í áratugi og sáralítið hefur rekið í átt til betra lífs hvað þetta varðar. Hvernig sér hæstv. félmrh. að hægt sé að gera atvinnurekendum það skylt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að konur og karlar geti samræmt starfsskyldur sínar?

[15:00]

Ég sé ekki annað en að við verðum að skera upp herör gegn þeim þröngu og neikvæðu hugsunum er ríkja í samfélaginu í garð kvenfrelsis. Það gerum við í gegnum uppeldi, það gerum við í gegnum áróður og stöðugar hvatningar til fólks, karla og kvenna. Við þurfum stöðugt að minna sjálf okkur á. Förum við eftir þeim sjálfsögðu hugmyndum að allir menn séu jafnir, að allir geti notið sama réttar? Ég held að það sé oftar en ekki sem við erum málsvarar misréttis. Við hv. alþm. erum ekki nægilega vakandi með lagasetningum okkar gagnvart því hvaða áhrif þær hafa á jafnrétti eða kvenfrelsi. Við hristum okkur ekki nægilega oft. Í frv. er tekið fram að menntun og skólastarf skipti miklu máli en kannanir sýna að stúlkur búa við mikið misrétti í menntakerfinu. Nefnum einfalt dæmi. Sýnt hefur verið fram á það í könnunum að stúlkur þurfa að lúta því að þær séu sjaldnar ávarpaðar með nafni en drengir af kennurum sínum, jafnvel af foreldrum sínum. Stúlkan er alltaf ,,vinkona`` eða ,,ljúfa`` eða ,,vina`` á meðan drengurinn fær að heita nafninu sínu. Við áttum okkur ekki alltaf á svona einföldum hlutum. Við þurfum að ná að vekja hvert annað. Við þurfum að ná að vekja þá í samfélaginu sem mest áhrif hafa á uppeldi barna, þ.e. foreldra, kennara og heilsugæslufólk, það eru stórar starfsstéttir sem móta þau áhrif sem við höfum --- sem samfélagið hefur á börnin. Það er þar sem við þurfum að taka best og kannski fyrst skarpast á málum.

Í 14. gr. frv. er sagt að konum og körlum sem starfa hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Við vitum, herra forseti, að þetta hefur verið markmið okkar lengi og það gengur afskaplega hægt að þoka nokkru til í þessum efnum. Í þeim heimi sem við lifum í núna er rætt um fyrirtækjasamninga og markaðssamninga. Hvers konar samningar eru það? Það eru leynisamningar þar sem launatölurnar eru ekki opinberar. Hvernig eiga konur að geta gætt réttar síns í þeim heimi sem þær lifa í í sambandi við launamál? Við erum að stuðla að því að launakerfin verði lokuð þannig að enginn komist að því hve mikil mismununin er í raun og veru og hvernig hún fer fram. Á þennan hátt stuðlum við ekki að kvenfrelsi eða jafnréttismálum.

Ég er sannfærð um að gaman verður að takast á um þetta mál í félmn. og að í félmn. eigi eftir að fara fram hressileg umræða. Ég vona svo sannarlega að nefndarmenn verði óragir við að draga fram nýja sýn í jafnréttismálum, í kvenfrelsismálum, búi til ný hugtök, finni ný orð til að lýsa því sem hér um ræðir. Ekki þýðir að hanga áfram í sama farinu, við finnum að þetta skilar okkur ekki nægum árangri. Reynum nýjar leiðir, hreyfum nýjum hugmyndum, hefjum okkur upp fyrir þá bragðdaufu umræðu sem hefur einkennt þennan málaflokk síðasta áratug.