Tannréttingar barna og unglinga

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:05:25 (3845)

2000-02-02 14:05:25# 125. lþ. 55.2 fundur 179. mál: #A tannréttingar barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:05]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kemur að þetta er allt of stuttur tími til að ræða svo umfangsmikið mál. Fjórða spurning hv. þm. var: Er vitað hvort og þá í hve miklum mæli fólk sækir ekki þessa læknisþjónustu fyrir börn sín vegna mikils útlagðs kostnaðar umfram opinberan stuðning?

Það er alveg ljóst að það er samspil margra þátta í þessu máli og við höfum verið að auka verulega fjármagn til þessa málaflokks sem sést best á því ef við lítum á það hvað lagt var til tannréttinga 1999 þá voru það 55 millj. kr., 1994 eru það 72 millj., 1998 eru það 120 millj., þannig að við höfum verið að bæta verulega við þarna. Varðandi alvarleg tilvik sem hafa verið rædd eru það um 90% sem fólk getur fengið endurgreitt í alvarlegustu tilvikum.

Ég er alveg sammála því sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að þetta þarf að vera gagnsætt kerfi og ég held að einmitt með því greiðsluformi sem áðan var lýst verði þetta miklu gagnsærra og fólk leitar til þeirra tannréttingasérfræðinga sem eru með taxta sem eru bærilegir eins og maður segir. (ÁRJ: Hvernig veit fólk það?) Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir kallar fram í og spyr: Hvernig veit fólkið það? Þetta eru ekki margir aðilar, ætli það séu ekki tíu í það heila tekið, og menn spyrja áður en þeir fá þá þjónustu hvað hún muni kosta.