Neyðarmóttaka fyrir geðsjúk börn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:29:00 (3856)

2000-02-02 14:29:00# 125. lþ. 55.4 fundur 216. mál: #A neyðarmóttaka fyrir geðsjúk börn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:29]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. heilbrrh. að þessar fyrirspurnir eru samtengdar, þær fjalla um fjárveitingar og þær fjalla um skipulag.

Þessi málaflokkur er erfiður viðfangs og flókinn. Þó ber að varast að gera hann flóknari en hann er. Það finnst mér stjórnvöld oft reyna að gera til að skjóta sér undan pólitískri ábyrgð. Mér fannst þetta henda hæstv. ráðherra hér í svari héðan.

Hæstv. ráðherra sagði að deildum væri lokað að ráði fagfólks, þetta væru faglegar ákvarðanir. En faglegar ákvarðanir eru teknar í ljósi þeirra fjárveitinga sem viðkomandi stofnun hefur úr að spila. Ég vil að þetta komi fram. Ég vil leggja áherslu á að endanlega er þessi málaflokkur og fjárveitingin til hans á ábyrgð stjórnvalda, í þessu tilviki ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.