Aukatekjur ríkissjóðs

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 16:36:23 (4059)

2000-02-07 16:36:23# 125. lþ. 57.8 fundur 258. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (gjaldtökuheimildir o.fl.) frv. 55/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[16:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að farið hafi verið eftir efni þessarar ályktunar 1993 og þessi lög hafa ítrekað verið endurskoðuð, m.a. og ekki síst í ljósi þeirrar samþykktar sem síðar var gerð með breytingu á stjórnarskránni 1995 þegar lögð var ákveðin lína í þetta mál og reglugerðaframsalið sem tíðkast hafði beinlínis bannað. Það er það sem við erum að vinna að með ótal lagabreytingum, m.a. þeirri sem hér er verið að fjalla um.

Markalínan milli skatta og þjónustugjalda getur verið óljós. Það er gott ef efh.- og viðskn. getur gefið sér tíma til þess að fara ofan í saumana á slíkum vafamálum og gert tillögur til okkar í þinginu um þau mál. En ég held að þetta frv. sé í eðli sínu svo einfalt að það kalli ekki á miklar vangaveltur eða fræðilegar útlistanir á eðli skattheimtunnar í landinu til þess að hljóta afgreiðslu í nefndinni. Nefndin verður auðvitað að meta það sjálf eins og venjulega.