Viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:02:09 (4130)

2000-02-09 14:02:09# 125. lþ. 59.94 fundur 300#B viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 125. lþ.

[14:02]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu, mér finnst hún hafa verið málefnaleg. Eins og hefur komið fram er markaðurinn ungur og við höfum orðið vör við ákveðna vaxtaverki.

Það er verið að fara yfir þetta mál frá öllum hliðum, vil ég meina. Ég er ekkert frá því að þverpólitísk samstaða muni nást um þær breytingar sem þarf að gera. Það hefur verið talað um að hér ríki skortur á siðferði á verðbréfamarkaði og í verðbréfastarfsemi og þau orð hef ég látið falla sjálf.

Markaðurinn hefur sent Fjármálaeftirlitinu nýjar verklagsreglur sem eru þar til umfjöllunar og munu líta dagsins ljós áður en mjög langur tími líður. Um meint innherjaviðskipti í Búnaðarbanka sem hér voru nefnd vil ég segja það að Verðbréfaþing taldi skýringar bankans fullnægjandi og sendi málið því ekki áfram til Fjármálaeftirlitsins. Ég hef ekki haft svigrúm til þess að kynna mér það mál sem vitnað hefur verið til í umræðunni og var til umfjöllunar í hádegisfréttum. Ég tel að það mál sé í ákveðnum farvegi og samkvæmt fréttinni er málið til athugunar hjá Fjármálaeftirlitinu.

Ég vil að síðustu segja, hæstv. forseti, að fjármálafyrirtæki eiga allt sitt undir trausti viðskiptavina. Viðskiptavinir fyrirtækjanna verða að geta treyst því fullkomlega að hagsmunir þeirra sitji í fyrirrúmi en ekki hagsmunir fyrirtækisins sjálfs, starfsmanna þess eða aðrir hagsmunir. Á síðustu vikum hafa komið fram ámælisverð tilvik sem eru til þess fallin að grafa undan trausti almennings á fjármálafyrirtækjum. Lækningin á ekki aðeins að vera fólgin í bættu regluverki og eftirliti með því heldur ekki síður í breyttu hugarfari fjármálafyrirtækja og viðskiptamanna þeirra.