Gróðurvinjar á hálendinu

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:20:59 (4136)

2000-02-09 14:20:59# 125. lþ. 60.8 fundur 304. mál: #A gróðurvinjar á hálendinu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er athyglisvert mál á ferðinni og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnina. En ég verð að lýsa yfir örlitlum vonbrigðum með svar hæstv. ráðherra þar sem hún nefnir sannarlega rammaáætlun ríkisstjórnarinnar sem er í undirbúningi og náttúruverndaráætlun en nefnir ekki skyldur okkar samkvæmt Ríó-sáttmálanum um líffræðilega fjölbreytni. Við vitum að við höfum þar ákveðnar skuldbindingar og m.a. skuldbindingar er lúta að því að skrá búsvæðin á landinu. Hæstv. ráðherra hefur oft vakið athygli á því að kortagerð sé ekki í nægilega góðu horfi í landinu og er að gera átak í þeim efnum og ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. ráðherra tala um að undirbúningur fyrir flokkun og skráningu búsvæða í landinu væri í undirbúningi. Ég nefni það hér að Norðmenn, vinir okkar, eru að gera slíka kortlagningu hjá sér og þeir hafa nú þegar skráð 56 búsvæði og verða með þau fullskráð á árinu 2003.