Fæðingarorlof

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 15:19:02 (4161)

2000-02-09 15:19:02# 125. lþ. 60.2 fundur 153. mál: #A fæðingarorlof# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[15:19]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um er sérstakt ákvæði um þetta málefni í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og er það að ég hygg mjög í samræmi við þá stefnumótun sem stjórnmálaflokkarnir í landinu almennt hafa mótað sér.

Um er að ræða mikilvægt hagsmuna- og framfaramál fyrir foreldra í landinu og gríðarlega mikilvægt að vel takist til. Hins vegar er málið ekki jafneinfalt í gerðinni eins og margur kynni að halda vegna þess að hér er á ferðinni ákveðið samspil milli löggjafans og svo samninga sem gerðir eru á vinnumarkaði, bæði af hálfu ríkisins og opinberra starfsmanna en einnig á hinum almenna vinnumarkaði.

Markmiðin með þessu máli eru skýr. Þau eru eins og segir í stefnuyfirlýsingunni annars vegar þau að lengja fæðingarorlofið en hins vegar að jafna réttindin sem því fylgja milli karla og kvenna. Ég vil hins vegar gjarnan bæta því við að ég tel líka eðlilegt að jafna eða í það minnsta hnika í átt til jöfnunar réttindum þeim sem tengjast þessu máli og eru mismunandi eftir vinnuveitendum, þ.e. eftir því hvort menn vinna hjá því opinbera eða starfa á almennum vinnumarkaði. Ég tel að það sé líka ákveðið réttlætismál þó að auðvitað þurfi að gera það þannig að heildarréttindum þeirra sem hafa í dag meiri réttindi verði ekki raskað. Þetta er það sem málið snýst um.

Síðan er næsta spurning: Hvenær verður hægt að gera eitthvað í þessu? Um það er ekki hægt að fullyrða á þessu stigi þar sem margir aðilar koma að málinu. Þetta kostar auðvitað peninga og það þarf að tryggja fjármögnunarþáttinn í málinu áður en lengra er haldið. Því er er ekki hægt að fullyrða hvenær unnt verður að efna þetta ákvæði stjórnarsáttmálans eða hversu langt verður hægt að ganga í fyrstu. Auðvitað má hugsa sér að móta ákveðna stefnu og gefa ákveðna stefnumótun í því efni þó svo öll ákvæði hennar komi ekki til framkvæmda strax. En niðurstaðan er sem sagt ekki fyrir hendi og að þessu máli koma margir aðilar, mörg ráðuneyti og hinir ýmsu samningsaðilar á vinnumarkaðnum í landinu eins og ég gat um áðan.

Ég vona að þetta svari fyrirspurn hv. þm. Ég efast ekki um að í þingsalnum stendur almennt séð mjög eindreginn vilji til að ráðast í umbætur á þessu sviði og virðist um þetta ekki mikill pólitískur ágreiningur.