Lausafjárkaup

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 10:32:28 (4181)

2000-02-10 10:32:28# 125. lþ. 61.1 fundur 110. mál: #A lausafjárkaup# (heildarlög) frv. 50/2000, viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[10:32]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til nýrra laga um lausafjárkaup á þskj. 119 og er þetta 110. mál þingins. Frv. er, ef að lögum verður, ætlað að leysa af hólmi gildandi lög um það efni, nr. 39/1922.

Frv. þetta var lagt fyrir á 123. löggjafarþingi en náði þá ekki fram að ganga vegna mikilla anna í þinginu í vor. Frv. er að mestu leyti óbreytt en þó hefur við undirbúning málsins að þessu sinni verið tekið tillit til ábendinga sem komu fram við meðferð málsins hjá efh.- og viðskn. þegar það var þar til umfjöllunar síðast eins og nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum við frv.

Aðdragandann að samningu frv. má rekja til þess að á árinu 1992 fól viðskiptaráðherra Magnúsi Þ. Torfasyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, að endurskoða lög nr. 39 frá 19. júní 1922, um lausafjárkaup. Skyldi endurskoðun laganna hafa það að markmiði að færa ákvæði þeirra til samnorræns horfs, en Íslendingar tóku um skeið, eins og síðar verður nánar rakið, þátt í störfum norræns vinnuhóps sem fékk það verkefni að endurskoða norrænu kaupalögin frá fyrri hluta þessarar aldar, og skilaði vinnuhópurinn áliti sínu á árinu 1984. Einnig skyldi Magnús kanna hvort og þá hvernig lögfestar yrðu hér á landi alþjóðlegar reglur um lausafjárkaup sem samdar voru að tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna árið 1980. Magnús Þ. Torfason lést á árinu 1993, og var endurskoðun hans á lögum nr. 39/1922 þá skammt á veg komin.

Eftir andlát Magnúsar Þ. Torfasonar fól iðnaðar- og viðskiptaráðherra þeim Stefáni Má Stefánssyni og Þorgeiri Örlygssyni, prófessorum við lagadeild Háskóla Íslands, að vinna að endurskoðun laga nr. 39/1922 í þeim anda sem að framan var lýst. Nánar segir í erindisbréfi þeirra að þeir skuli semja fyrir ráðuneytið ,,frumvarp til laga um lausafjárkaup, sem leysi af hólmi gildandi lög um það efni, nr. 39/1922. Skal frumvarpið hafa að fyrirmynd samnorrænt nefndarálit um sama efni frá árinu 1984.`` Þá kemur fram í erindisbréfinu að í þeim tilvikum þar sem nýleg löggjöf í Skandinavíu um lausafjárkaup sé ólík um einstök efnisatriði skuli frumvarpshöfundar meta í samráði við ráðuneytið hvaða leið sé heppilegast að fara í lagasetningu hér á landi. Einnig segir í erindisbréfinu að samhliða samningu frumvarps til nýrra kaupalaga skuli höfundar gera athugun á því hvort æskilegt sé að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um lausafjárkaup frá 1980 með tilliti til fullgildingar samningsins og lögleiðingar hans og hver áhrif EES-samningurinn komi til með að hafa á þá endurskoðun.

Að höfðu samráði við utanrrn. er gert ráð fyrir að utanrrh. leggi fram till. til þál. um öflun heimilda til að staðfesta þennan samning Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlega samninga í lausafjárkaupum.

Nýja kaupalagafrumvarpið hefur fimm meginmarkmið að leiðarljósi, þ.e. í fyrsta lagi að aðlaga íslenska viðskiptalöggjöf breyttum viðskiptaháttum og breyttri þjóðfélagsumgjörð, enda bráðum 80 ár frá lögfestingu gildandi kaupalaga, í öðru lagi að efla réttarstöðu neytenda, í þriðja lagi að tryggja norræna réttareiningu á sviði kauparéttar og í fjórða lagi að leiða í lög hér á landi efnisákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um sölu á vöru milli ríkja frá 1980, United Nations Convention for the International Sale of Goods (CISG). Æskilegt er að sem mest samræmi sé á milli þjóðlegra og alþjóðlegra reglna á sviði lausafjárkaupa. Ástæðan er m.a. sú að þeir sem viðskipti stunda geta þá fremur reitt sig á að svipaðar reglur gildi í megindráttum um sömu réttar\-atriðin, hvort sem kaupin gerast á innlendum eða erlendum vettvangi. Er hinu nýja frumvarpi ætlað að tryggja þetta. Í fimmta lagi hefur við undirbúning frumvarpsins verið litið til tilskipunar 99/44/EB um tilteknar hliðar á sölu vöru til neytenda og ábyrgðaryfirlýsingar í því sambandi, frá 25. maí 1999. Samkvæmt beinum ákvæðum tilskipunarinnar er aðildarríkjunum ekki skylt að leiða í lög ákvæði hennar fyrr en 1. janúar 2002, en þar sem efni hennar varðar frumvarp það sem hér er nú lagt fram þótti eðlilegt að tekið væri tillit til hennar nú þegar það er endurflutt á 125. löggjafarþingi.

Frumvarp það til laga um lausafjárkaup sem hér liggur fyrir byggist í meginatriðum á þeim tillögum til nýrra norrænna kaupalaga sem norræni vinnuhópurinn kom fram með á árinu 1984. Þó er rétt að hafa í huga að í ýmsum greinum er reynt að taka tillit til séríslenskra aðstæðna. Þá leiðir það af ákvæðum frumvarpsins, svo sem síðar verður rakið, að lagt er til að ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um sölu á vöru milli ríkja frá 1980 verði leidd í lög hér á landi með svokallaðri aðlögun. Í því felst að einstakar efnisreglur frumvarpsins, sem eins og fyrr segir byggjast að meginstefnu til á norræna nefndarálitinu frá 1984, hafa verið aðlagaðar samningi Sameinuðu þjóðanna.

Með gildistöku laga nr. 39/1922 má segja að komist hafi á réttareining milli Íslands og annarra þjóða á Norðurlöndum á sviði kauparéttar. Hélst svo allt þar til gerðar voru breytingar á kaupalögum Dana, Svía og Norðmanna á árunum 1973--1979 í átt til aukinnar neytendaverndar og í kjölfar þess setning nýrra kaupalaga í Finnlandi (1987), Noregi (1988) og Svíþjóð (1989) svo sem nánar verður rakið síðar.

Óhætt er að segja að þjóðfélagsaðstæður hér á landi hafa breyst mjög mikið á þeim tæpu 80 árum sem liðin eru frá því að gildandi lög um lausafjárkaup voru lögfest. Auk þess sem þjóðfélagsumgjörðin hefur öll breyst hafa hinar miklu framfarir í tæknisviði einnig haft umtalsverð áhrif á verslun og viðskipti manna í milli.

Segja má að gildandi kaupalög hafi að ákveðnu marki lagað sig að þeirri samfélagsþróun sem hér var lýst, m.a. vegna þess hve lögin eru sveigjanleg í uppbyggingu sinni. Þá eru lögin frávíkjanleg, en það hefur aftur leitt til þess að venjur hafa myndast á ákveðnum sviðum viðskipta, og hefur þannig verið vikið frá ýmsum ákvæðum laganna í framkvæmd þeirra. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því horft að tilvist samnings Sameinuðu þjóðanna hefur tvímælalaust aukið þörfina fyrir endurskoðun laganna, og áhrif í sömu átt hefur EES-samningurinn haft og reyndar einnig samningarnir um ESB. Þá verður einnig að telja að ný samnorræn kaupalög einfaldi mjög verslunarviðskipti milli ríkja á Norðurlöndum og að þau séu jafnframt til þess fallin að stuðla að því að gera Norðurlöndin að einsleitu markaðssvæði innan Evrópubandalagsins og hins Evrópska efnahagssvæðis.

Mikilvægur þáttur í endurskoðun íslenskra kaupalaga hlýtur jafnan að vera að varðveita norræna réttareiningu á þessu mikilvæga sviði réttarins, en fyrir slíkri réttareiningu er löng hefð.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í desember 1966 ályktun þess efnis að sett skyldi á laggirnar sérstök nefnd á vegum samtakanna sem hafa skyldi það hlutverk að efla og styrkja samræmingu alþjóðlegrar viðskiptalöggjafar. Nefndin sem tók til starfa skömmu síðar var kölluð The United Nations Commission on International Trade og hefur hún aðsetur í Vínarborg í Austurríki. Hún fékk það verkefni að undirbúa gerð áðurnefnds alþjóðasamnings um kaup, þ.e. samninginn frá árinu 1980. Gerð þess samnings tók tæpa tvo áratugi og hafði sú vinna það m.a. að markmiði að koma fram með nýjan samning á þessu réttarsviði sem leyst gæti af hólmi Haag-samningana frá 1964.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna boðaði til alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin var vorið 1980 í Vínarborg í Austurríki þar sem komu saman fulltrúar 62 ríkja og átta alþjóðastofnana. Á ráðstefnunni var gengið frá nýjum samningi um alþjóðleg lausafjárkaup, þ.e. CISG. Ráðstefnan hófst 10. mars 1980 og lauk henni 11. apríl sama ár.

Eftir samþykkt samnings Sameinuðu þjóðanna um alþjóðleg lausafjárkaup 11. apríl 1980 varð um það sammæli meðal norrænna ríkja að hefja skyldi á nýjan leik endurskoðun norrænu kaupalaganna. Á fundi norrænna dómsmálaráðherra sem haldinn var í Helsinki 10. júní 1980 var komið á laggirnar samnorrænum vinnuhópi sem fékk það verkefni að kanna möguleika þess að setja samræmd kaupalög fyrir Danmörku, Noreg, Svíþjóð og Finnland. Vinnuhópurinn fékk einnig það verkefni að kanna afstöðu norrænu landanna til sameinuðuþjóðasamningsins.

Vinnuhópurinn hélt síðasta fund sinn í Helsinki 29.--30. október 1984 og voru tillögur að nýjum kaupalögum eins og áður segir lagðar fram og kynntar í samnorrænu nefndaráliti, NU 1984:5.

Árangurinn varð síðan sá að í Finnlandi voru almenn kaupalög lögtekin á þessum grundvelli árið 1987, í Noregi árið 1988 og í Svíþjóð árið 1990, en Danmörk og Ísland hafa enn ekki gert breytingar á sínum kaupalögum.

Í tillögum sínum byggði norræni vinnuhópurinn sem skipaður var árið 1980 að hluta til á sameinuðuþjóðasamningnum og þeim tillögum til nýrra norrænna kaupalaga sem settar höfðu verið fram á árinu 1976. Eftir fremsta megni var reynt að ná samræmi í löggjöf þeirra ríkja sem aðild áttu að vinnuhópnum og varð samkomulag um öll helstu efnisatriði nýrra kaupalaga þótt ekki næðist það markmið að koma fram með tillögur um lagafrumvörp sem væru í öllu tilliti efnislega samræmd.

Frumvarp það sem hér liggur fyrir byggist í meginatriðum á þeim tillögum til nýrra norrænna kaupalaga sem birtar voru í hinu samnorræna nefndaráliti. Þar sem leiðir skildu í hinum norrænu tillögum með einstökum ríkjum hefur að meginstefnu til verið fylgt þeirri leið sem Norðmenn völdu. Það felur í aðalatriðum í sér tvennt: Í fyrsta lagi eru ákvæði um neytendavernd í kaupalögunum sjálfum, en ekki í sjálfstæðum lögum um það efni. Í öðru lagi felst í þessu að almennar kauparéttarreglur, byggðar á hinum samnorræna grundvelli, hafa verið aðlagaðar ákvæðum sameinuðuþjóðasamningsins eftir því sem kostur er þótt einnig sé að finna í frumvarpinu sérákvæði sem eingöngu eiga að gilda í alþjóðlegum kaupum.

[10:45]

Neytendaréttur hefur verið í örri þróun á síðustu árum jafnt á Íslandi sem í öðrum ríkjum á Norðurlöndum. Eins og ég gat um áður voru gerðar lagabreytingar í öðrum ríkjum á Norðurlöndum á áttunda áratugnum í þá átt að auka vernd neytenda, ýmist með setningu sérstakra laga um neytendakaup eða með því að gera ýmis ákvæði í kaupalögum þessara ríkja ófrávíkjanleg, ef um var að ræða neytendakaup. Á Íslandi varð niðurstaðan hins vegar sú að bíða átekta með lagasetningu á þessu réttarsviði enda var þá þegar hafin umræða um nauðsyn þess að endurskoða þyrfti gildandi lög um lausafjárkaup, m.a. með hliðsjón af réttarþróun á Norðurlöndum, svo og annars staðar.

Á undanförnum árum hefur mikil áhersla verið lögð á aukna vernd fyrir neytendur á öllum sviðum og hefur umfang neytendaverndar vaxið ört hér á landi. Í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var ákveðið að eitt svið samninganna skyldi vera um neytendavernd. Með aðild Íslands að EES skuldbundu stjórnvöld sig til þess að setja í innlendan rétt ýmsar tilskipanir Evrópusambandsins, þar á meðal á þessu réttarsviði. Í viðauka XIX, neytendavernd, í EES-samningnum er að finna upptalningu þeirra EB-gerða sem felldar hafa verið inn í EES-samninginn.

Nýlega hefur sameiginlega EES-nefndin fellt inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið tilskipun 99/44/EB um tilteknar hliðar á söluvöru til neytenda og ábyrgðaryfirlýsingar í því sambandi. Eins og ég gat um í upphafi hefur í frv. því sem liggur nú fyrir verið tekið tillit til ákvæða þessara nýju tilskipunar eins og sést í 17. gr. og athugasemdum við einstakar greinar frv.

Ný lagafyrirmæli hafa verið sett á undanförnum árum til þess að fullnægja framangreindum samningsskyldum Íslands og/eða gerðar nauðsynlegar breytingar á gildandi lögum til þess að innleiða ákvæði tilskipananna. Frá gildistöku EES-samningsins hafa því verið sett lög um vernd neytenda gegn villandi auglýsingum, lög um húsgöngu- og fjarsölu og lög um neytendalán, reglur settar um verðmerkingar og ótvírætt einingaverð á vöru, lög um alferðir, lög um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis svo dæmi séu nefnd af þessu réttarsviði. Auk þess hefur ákvæðum samningalaganna verið breytt í því skyni að styrkja réttarstöðu neytenda gagnvart óréttmætum samningsskilmálum í viðskiptum en spor í þá átt hafði áður verið stigið með setningu laga nr. 11/1986.

Jafnframt því að efnisréttur hér á landi hefur þróast samkvæmt framansögðu að mestu leyti til samræmis við efnisrétt annarra ríkja á Norðurlöndum hefur einnig verið lögð áhersla á annars konar samstarf um málefni neytenda, t.d. á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar, svo sem með þátttöku í ýmsum fastanefndum sem fjalla um neytendamál o.fl., enda rík hefð fyrir náinni samvinnu milli norrænu landanna á sviði kaupa- og neytendaréttar. Ísland tekur einnig þátt í samvinnu aðildarríkja ESB á sviði neytendamála en í bókun 31 við EES-samninginn er að finna ályktun ráðsins frá 13. júlí 1992 um mikilvægustu framtíðarverkefni við mótun stefnu um neytendavernd, sbr. 92/C 186/01.

Í frv. því sem hér liggur fyrir er sem fyrr segir að finna margvísleg ákvæði um neytendakaup sem verða nýmæli í íslenskri löggjöf ef frv. verður að lögum. Horfa ákvæði þessi öll tvímælalaust í þá átt að styrkja mjög og efla réttarstöðu neytenda. Lögfesting slíkra reglna mun því samkvæmt framansögðu fylla inn í þá eyðu sem myndast hefur hér á landi í annars heildstæðri löggjöf á sviði neytendaverndar. Vernd neytenda á Íslandi verður þá orðin sambærileg að lögum og tíðkast í nágrannaríkjum okkar. Framvegis mun því verða unnt að leggja áherslu á að innlend löggjöf fylgi réttarþróun í grannríkjum okkar og á fjölþjóðlegum vettvangi, auk þess sem áherslan mun í framtíðinni beinast að ýmsum atriðum sem varða framkvæmd neytendaverndar hér á landi.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til efh.- og viðskn. til frekari meðferðar og til 2. umr.