Rafræn eignarskráning á verðbréfum

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 12:18:24 (4196)

2000-02-10 12:18:24# 125. lþ. 61.3 fundur 163. mál: #A rafræn eignarskráning á verðbréfum# (breyting ýmissa laga) frv. 32/2000, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[12:18]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir mál hennar. Ég vil að það komi fram að rafræn eignaskráning á verðbréfum er u.þ.b. að hefjast og tilraunaútgáfa í ríkisvíxlum er að hefjast mjög fljótlega. Reglugerð er í smíðum þannig að allt er þetta í ágætis farvegi að mínu mati, þ.e. verði það frv. að lögum sem er til umfjöllunar. Hv. þm. spurði um tíma í því sambandi. Samkvæmt reynslu minni er alltaf viðkvæmt mál að ráðherrar séu að setja nefndum mjög nákvæm tímamörk en auðvitað væri æskilegt að þetta frv. gæti fengið greiðan gang í gegnum þingið.

Ég tel að með því að þetta frv. verði að lögum séu lagaákvæði orðin mjög viðunandi og í nokkuð góðu lagi hvað varðar það að taka upp rafræna skráningu. En ég vil þó nefna að alltaf er ástæða til að endurskoða ýmis lög sem skipta máli í þessu sambandi og verður unnið að því á næstu missirum en ég sé ekki að þar sé neitt sem kalli á skjót viðbrögð. Vissulega eru miklar breytingar sem við erum að tala um í þessu sambandi. Verklagsreglur þurfa að miðast við breytta og nútímalegri viðskiptahætti og ég hef enga trú á öðru en að það muni allt saman ganga eftir.

Hvernig þetta verði kynnt og almennt um það hvort það verði kynnt er það sjálfsagt mál að svo verði. Ég get alveg hugsað mér að gefið verði út einhvers konar upplýsingarit um það þegar frv. hefur öðlast lagagildi.