Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 14:15:26 (4221)

2000-02-10 14:15:26# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[14:15]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. sagði í umræðum um þetta frv. til laga að allt orkaði tvímælis þá gert er. Mér finnst alveg nauðsynlegt að það komi skýrt fram hvaða skilning hæstv. ráðherra hefur á þeirri tillögu sem hér er lögð fram um breytingu á lögum um Landsvirkjun, vegna þess að í einu orðinu er talað um aðgengi sem sé þjóðarnauðsyn í kerfi sem fyrirtækið er búið að koma sér upp, en í hinu orðinu er talað um og hæstv. ráðherra gerði það í andsvari, stofnun fyrirtækis. Þetta eru tvö algjörlega ólík mál. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni þá ég held að öll þjóðin geti verið sammála um nauðsyn þess að nota slík kerfi til að stunda fjarskipti þar sem þau ná um, en það gildir allt öðru máli um að gera fyrirtækinu kleift að gerast aðili að fjarskiptafyrirtækjum, eins og stendur klárlega í textanum, það er allt annar handleggur.

Ég vil undirstrika það sem kom fram í ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að Landsvirkjun hefur mjög mikla sérstöðu fyrirtækja hér á landi, er undanþegið sköttum og skyldum og hefur þar af leiðandi yfirburðastöðu fyrir margra hluta sakir, ekki bara vegna markaðsstöðu sinnar. Það er því stórmál að nálgast hlutina með þeim hætti sem gert er hér og við verðum að ræða þessi mál miklu ítarlegar og fá fram vilja stjórnarmeirihlutans, hvað hann ætlast fyrir. Ég held að menn geri sér ekki grein fyrir því eða séu ekki samstiga í þessum efnum vegna þess að þeir fulltrúar stjórnarmeirihlutans sem hafa talað hér hafa mjög ólíkan skilning á þessu. Og ef á að stofna fyrirtæki, eins og allt bendir til samkvæmt tillögunni, þá á að segja svo. En ef menn ætla bara að nota þessar fjárfestingar til að auðvelda fjarskipti um hálendið og víðar, þá eiga menn að breyta textanum þannig að klárlega komi fram hver vilji manna er. Þetta er meginatriði.

Ég vil líka árétta það sem ég drap á í fyrri ræðu minni og hæstv. iðnrh. kom inn á að það eru mjög miklar bollaleggingar, mjög mikið hugsað í þessum geira innan Landsvirkjunar. Eignaraðilarnir, eins og fram hefur komið, hafa sett fram hugmyndir um og jafnvel óskað eftir viðræðum um sölu á sínum eignarhlutum, bæði Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, og hæstv. iðnrh. undirstrikaði það áðan. Ef menn ætla að fara í þetta stóra mál og veita fyrirtækinu leyfi eða gera fyrirtækinu kleift að stofna fyrirtæki er aldeilis brýnt í mínum huga að menn velti því fyrir sér hvert þeir ætla að stefna með þetta fyrirtæki, að stjórnarmeirihlutinn leggi það niður fyrir sér hvort hann sé tilbúinn t.d. að ganga til alvarlegra viðræðna við Akureyrarbæ eða Reykjavíkurborg eða báða, um hugsanleg kaup á Landsvirkjun og hvaða form menn ætla að hafa á því.

Réttindi hugsanlegra annarra orkuframleiðenda til að fara inn á dreifikerfið er líka mál sem liggur fyrir. Þetta er óafgreitt mál. Ef menn ætla að taka svo stórt upp í sig eins og hér er lagt til þarf það miklu meiri umfjöllun í nefndum og ég geri ráð fyrir að hv. iðnn. taki þetta mál og vinni og kalli til sín þá aðila sem til þarf til að leggja það niður fyrir sér. En það sem er himinklárt er að stjórnarmeirihlutinn verður að vita hvað hann vill. Og eins og fram hefur komið í máli hv. formanns iðnn., eins og hans hugsun er varðandi þetta mál, þá er sú hugsun ekki á móti mínu skapi, þ.e. aðgangur að þessum búnaði. En fyrirtækjadæmið, eins og fram kemur í textanum og heimild er veitt til ef frv. verður að lögum, er stóra málið sem þarf að fá ítarlega umfjöllun að mínu mati.