Framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 15:21:02 (4241)

2000-02-10 15:21:02# 125. lþ. 61.94 fundur 304#B framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Mér finnst að við séum í raun að ræða um þrjú óskyld mál, þ.e. flutning Rafmagnsveitna ríkisins út á land, nánar tiltekið til Akureyrar, að tryggja rekstur fyrirtækisins og síðan breytingar á rekstrarformi. Þetta eru þrjú atriði og hvert þeirra má í raun afgreiða óháð hinum.

Það hefur verið harðlega gagnrýnt að tilkynningar um flutning ríkisfyrirtækja birtist í fjölmiðlum áður en hugmyndirnar eru kynntar fyrir starfsmönnum og jafnvel stjórnum fyrirtækja. Hér er um hugsanlegan flutning ríkisfyrirtækis að ræða en tilkynning hæstv. iðnrh. um málið í sjónvarpsviðtali fyrir viku var eftir sem áður ótímabær þar sem stjórn fyrirtækisins og starfsmönnum þess höfðu ekki borist neinar upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar.

Starfsöryggi er öllum mönnum mikilvægt og því ætti að virða þann samskiptamáta að koma skilaboðum fyrst til starfsmanna áður en tilkynningar um breytingar, hvort sem þær eru til athugunar eða þegar ákveðnar, eru gerðar opinberar. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð styður flutning ríkisfyrirtækja út á land en vill að farið sé að með gát þegar heilar stofnanir eru fluttar, að það sé gert með því að undirbúa málið vel en ekki með fjölmiðlafári.

Rafmagnsveitur ríkisins hafa sinnt því erfiða verkefni að byggja upp og reka raforkukerfi í dreifbýli. Jafnframt hefur Rarik reist og rekið nokkrar vatnsaflsvirkjanir og varaaflsstöðvar. Þróunin hefur orðið sú að Rarik hefur þurft að kaupa orku frá Landsvirkjun í síauknum mæli. Samkeppnisstaða Rariks á raforkuverði til dreifbýlis í samanburði við raforkusölu til þéttbýlis er veik. Rekstrarstaða fyrirtækisins er erfið. Það þarf að bæta rekstrarstöðuna og leita nýrra leiða. Það er ekki sjálfgefið að sú leið sem verið er að leita eftir núna sé rétt. Hugsanlega er hægt að styrkja reksturinn með því að fara í nýja sókn í að byggja upp ný raforkuver.