Framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 15:25:41 (4243)

2000-02-10 15:25:41# 125. lþ. 61.94 fundur 304#B framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)# (umræður utan dagskrár), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[15:25]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég met mikils frumkvæði hæstv. iðnrh. í að taka á málefnum Rariks eins og ráðherrann hefur gert grein fyrir. Rekstrarform, rekstrarhagkvæmni og þjónusta við neytendur eru að sjálfsögðu aðalatriði þessa máls. Staðsetning fyrirtækisins er annar handleggur.

Vitað er að mjög miklar rekstrarendurbætur hafa farið fram hjá Rarik nú þegar. Halli á rekstri fyrirtækisins er ekki vegna þess að fyrirtækið sé illa rekið heldur þarf fyrirtækið að þjóna ýmsum verkefnum af byggðar- og félagslegum ástæðum svo nemur hundruðum milljóna.

Nú er fyrirsjáanlegt að ef fram fer sem horfir mun fyrirtækið lenda í samkeppni við stóra og sterka aðila á borð við Orkuveitu Reykjavíkur og Suðurnesja. Rarik verður að vera tilbúið að taka þátt í þessari samkeppni. Ein veigamesta breyting sem gæti hjálpað Rarik er að sameina fyrirtækið öðrum veitum. Því fagna ég að ráðherrann hefur haft frumkvæði um þetta mál. Allt tog á milli landshluta mun ekki aðeins skaða starfsemina í Reykjavík heldur munu aðrir landshlutar sem ekki fá fyrirtækið að öllum líkindum bregðast við. Þá munu hugsanlega rísa önnur fyrirtæki og koma sér út úr samstarfinu ef það gengur ekki vel.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar. Það er óhjákvæmilegt að horfa til þeirra fjölskyldna og þeirrar góðu starfsemi sem þegar hefur verið rekin í Reykjavík. Það er ekki hægt að tala um flutning frá Reykjavík öðruvísi en að líta á atvinnuhagsmuni Reykvíkinga, þær fjölskyldur sem hér er um að tefla, búa í Reykjavík og hafa unnið hér mjög gott starf fyrir fyrirtækið.