Tollalög

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 16:14:49 (4271)

2000-02-14 16:14:49# 125. lþ. 62.12 fundur 196. mál: #A tollalög# (aðaltollhafnir) frv. 87/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[16:14]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson talaði um að það væru nú ekki endilega rök í málinu að þetta væri í þriðja sinn sem það væri lagt fram og það væri ekki endilega það sem gilti um afgreiðslu Alþingis á málum, þ.e. hversu oft þau væru flutt.

Aðalatriðið er að þetta er í þriðja sinn sem frv. er lagt fram. Í hvert sinn hafa fylgt ítarlegar greinargerðir og ég býst við að allir flutningsmenn sem standa að þessu frv. hafi talið rökin að baki mjög skýr orðin í hugum hv. þm. Árið 1994 var eftir mikla umræðu um þetta mál tekin sú ákvörðun að búa til embætti tollvarða við embætti sýslumanns á Selfossi. Þar er tollhöfn sem afgreiðir á þriðja þúsund mál, auk tollafgreiðslu skipa í Þorlákshöfn. Þetta er verulegur fjöldi afgreiðslna á hverju ári. Ég tel eðlilegt að þær flytjist allar í tollhöfn í Þorlákshöfn. Ég tel að þannig væri eðlilega staðið að málum. Ef um tollhöfn í Þorlákshöfn væri að ræða þá mætti reikna með því að þessar afgreiðslur yrðu enn fleiri en þær eru í dag. Einmitt þess vegna, til að styrkja stöðu þessara hafna, fjölga þar skipakomum og auðvelda allan vöruflutning inn- og útflutning, er þetta mál flutt hér í þriðja sinn.