Tollalög

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 16:18:10 (4273)

2000-02-14 16:18:10# 125. lþ. 62.12 fundur 196. mál: #A tollalög# (aðaltollhafnir) frv. 87/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[16:18]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt að hv. þm. væri í andsvari að svara andsvari mínu en ég nefndi hvorki jafnræði né samkeppnishæfni. Sá hluti andsvarsins hefur því átt við einhvern annan hv. þm. en mig. Það er alveg rétt að þetta ræðst ekki af skipakomum enda dettur engum manni í hug þegar verið er að ræða um tollhöfn að hér séu hv. þm. í ræðustól að ræða um þau skip sem koma inn til löndunar. Verið er að tala um þau skip sem koma með farm sem þarfnast þess að tollvörður sé á staðnum, um annars konar skipakomur hefur ekki verið rætt hér. Mér datt ekki í hug að hv. þm. rugluðu því saman að ég væri að tala um skipakomur almennt, einungis þær sem þarfnast þess að tollvörður sé á staðnum. Mér finnst þetta mjög mikilvægt fyrir þessa höfn og fyrir uppbyggingu hennar og til þess að treysta stöðu hennar. Þetta er réttlætismál í ljósi þess að miðað við þá birtu og yl sem þar er og hefur verið undanfarið ár og ekkert er verið að fara fram á meira í þeim efnum en miðað við stöðu hafnarinnar í dag og þá veðráttu sem þar ríkir, þá eru skipakomur með farm sem þarf að tollafgreiða mjög algengar í Þorlákshöfn. En þær yrðu auðvitað fleiri ef þar væri um tollafgreiðslu að ræða og það styrkir líka stöðu þessa byggðarlags gagnvart því að þarna verði staðsettur ýmiss konar iðnaður í framtíðinni.