Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 17:23:47 (4291)

2000-02-14 17:23:47# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[17:23]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að taka undir þessa hvatningu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að hæstv. umhvrh. komi hér og tali mjög skýrt um hvernig hún ætlar inn í þá framtíð sem hún var að draga upp áðan og sem skýtur skökku við frá málflutningnum fyrir jól.

Í framsöguræðu sinni nefndi hv. þm. Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, að það væri táknrænt að við værum að ræða breytingar á lögunum um umhverfismat sama dag og verið væri að færa forustumönnum þings og ríkisstjórnar undirskriftir nærri því 45 þúsund manna. Það er mjög athyglisvert að hlusta á hæstv. umhvrh. þegar hún í aðra röndina kemur til móts við Samfylkinguna í umfjöllun sinni á þeim gömlu heimildum sem liggja fyrir og sem hljóta að hafa komið nærri því öllum þingmönnum á óvart þegar þeir sáu svarið við fyrirspurn Sighvats Björgvinssonar um virkjunarleyfi og umhverfismat og hæstv. ráðherra tekur undir með okkur í því að æskilegt væri að meta umhverfisáhrif á þeim tíma sem framkvæmd er í gangi og hæstv. ráðherra tekur undir með okkur í því að leyfin sem liggi fyrir og geta verið allt að því hálfrar aldar gömul eigi að renna sitt skeið.

Það er auðvitað mjög áhugavert og ánægjulegt þegar ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem fór með offorsi fyrir jól kemur núna og tekur undir slík sjónarmið. En við hljótum þá að spyrja hvað það þýði? Hvað ætlar ráðherrann að gera?

Það er, herra forseti, fróðlegt að brjóta umræðuna um Fljótsdalsvirkjun fyrir jól til mergjar. Það er náttúrlega tvennt ólíkt að fyrir áratug, fyrir daga hugsunarinnar um mat á umhverfisáhrifum við framkvæmdir á víðernum landsins, fyrir áratug þótti það viðeigandi að byggja á átta til níu ára lagaheimild varðandi Fljótsdalsvirkjun. En það kom flestum á óvart að ríkisstjórn Íslands vildi hanga á heimild frá 1982 þegar hún í aldarlok vill fara af stað með svo umdeilda virkjun sem Fljótsdalsvirkjun reynist vera. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin hékk á heimild Landsvirkjunar að virkja í Fljótsdal eins og hundur á roði og ekki bara af engri ástæðu. Við höfum velt fyrir okkur hver ástæðan er. Var ástæðan ósveigjanleiki, ráðríki, valdníðsla eða var ástæðan ótti og vissa um það að ef þessi virkjun færi núna í mat á umhverfisáhrifum, þá yrði það mat óhagstætt þeirri framkvæmd? Við getum ekki svarað þessu í dag en ég er alveg sannfærð um að þetta svar mun liggja fyrir áður en langt um líður. Og það sem er líka merkilegt varðandi það hvernig haldið hefur verið á málum Fljótsdalsvirkjunar er að það er ómögulegt í dag, á þessari stundu, að sjá það fyrir hvernig Fljótsdalsvirkjuninni og þar með álveri við Reyðarfjörð reiðir af. Það er alls ekki ljóst á þessari stundu að ríkisstjórnin komist áfram með áform sín sem komu svo skýrt fram í umræðunum fyrir jól.

Ég hafði, herra forseti, frekar gaman af því að hlusta á hæstv. umhvrh. leggja út af rammaáætluninni sem heitir Maður, nýting, náttúra. Ekki veit ég hvort í heiti þessarar rammaáætlunar birtist það sem var svo ljóst í umfjöllun ríkisstjórnarinnar að náttúran kemur síðast. Ég ætla ekki að leggja dóm á það. En yfirskrift þeirrar umræðu sem var fyrir jól var eingöngu nýting, nýting og aftur nýting. Það var ekkert maður, náttúra. Það var nýting, nýting og aftur nýting.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson var að reyna að brýna hæstv. ráðherra til að bregðast við hvernig haldið yrði á málum miðað við ósk Norsk Hydro og umræður sem hafa verið að undanförnu um 480 þús. tonna álver við Reyðarfjörð. Við erum aldrei búin að fá umræðu í þessum sal um meira en 120 þús. tonna álver og virkjun í Fljótsdal og óljósar upplýsingar um hvað skuli koma síðast.

Hæstv. ráðherra hélt því fram í ræðu sinni að mjög æskilegt væri að meta umhverfisáhrif á þeim tíma sem framkvæmd væri í gangi. Leyfin ættu að renna sitt skeið og æskilegt væri að meta umhverfisáhrif á þeim tíma sem framkvæmdir væru í gangi. Þetta er hugsun þeirra þjóða sem vinna samkvæmt því sem liggur að baki því að fara með mannvirki í mat á umhverfisáhrifum. Í þessu mati liggur spurningin: Er ósnortið land verðmætara en nýtingin sem þarna á að verða? Og þegar ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hver af öðrum leyfa sér að koma hér og birtast í fjölmiðlum og halda því fram að þjóðin, þegar hún er spurð, viti ekki hverju hún sé að svara af því að hún viti ekki nákvæmlega hvernig útfærsla laganna um mat á umhverfisáhrifum sé, þá er það svo yfirgengileg framkoma við fólkið í landinu að ég er eiginlega alveg hissa að menn hafi komist upp með þetta, vegna þess að þetta er ekki spurning um hvort fólk þekki lögin og útfærslu þeirra, heldur um það hvort fólk er að ætlast til þess af okkur að þetta mat fari fram.

[17:30]

Þegar hæstv. ráðherra sagðist vera sammála meginhugsuninni í því að mat færi fram þegar framkvæmd á að fara í gang, þá tók hún til orða eitthvað á þessa leið, herra forseti: ,,Líka í Fljótsdalsvirkjun``, enda hefði afgreiðslan í haust verið í anda þessarar hugsunar. Þetta er alrangt og það er mjög mikilvægt að við höldum því til haga í umræðunni. Það er alrangt að afgreiðsla Alþingis hafi verið í anda laga um mat á umhverfisáhrifum vegna þess að ríkisstjórnin fól Alþingi að framkvæma umhverfismatið og það er ekki í anda laganna. Og það sem meira er, ríkisstjórnin gaf Alþingi ekki einu sinni svigrúm til þess að reyna að útfæra þessa skoðun í nokkrum takti við það sem lögin gera kröfu um. Umhvn. fékk innan við tvær vikur til þess að sinna þýðingarmiklum þætti sínum.

Það er hins vegar afskaplega ánægjulegt, herra forseti, að hæstv. umhvrh. vill nú viðhafa fagleg vinnubrögð og ráðherrann vill líta til framtíðar. Ég hafði hugsað mér að bera fram spurningu til hæstv. ráðherra sem mér finnst mjög mikilvægt að svar fáist við í þessari umræðu og þess vegna spyr ég forseta hvort ráðherrann sé enn í húsinu eða hvort hún hafi horfið á braut.

(Forseti (GÁS): Nú háttar þannig til að hæstv. ráðherra þurfti að sinna brýnum viðfangsefnum í húsinu. Hún er væntanleg fljótlega, innan nokkurra mínútna. Forseti getur því boðið hv. þm. upp á það að fresta ræðu sinni og koma með beinar fyrirspurnir til ráðherrans síðar í þessari umræðu.)

Herra forseti. Ég veit ekki hvað aðrir þingmenn á mælendaskrá hafa hugsað sér, þ.e. hvort þeir vilja ræða þetta mál að ráðherranum fjarverandi. Spurningar mínar eru tvær og ég ætla að setja þær fram hér og nú. Ef hæstv. ráðherra er í húsinu má gera ráð fyrir því að hún fylgist með umræðunni. Ef ráðherrann fær ekki spurningarnar þá get ég komið þeim til hennar þegar hún kemur í salinn aftur þannig að ráðherranum gefist ráðrúm til að svara spurningum mínum þegar hún tekur til máls.

Herra forseti. Mér fyndist mjög áhugavert að vita hvaða breytingar ríkisstjórnin ætlar að gera á lögunum um mat á umhverfisáhrifum. Það hefur komið fram að fljótlega mun stjfrv. koma hingað inn í þingið. Við ræddum það fyrir jól að lögunum væri ábótavant og ég er að vona að þær breytingar sem verða gerðar á lögunum séu breytingar sem við þingmenn getum almennt stutt. Það að slíkt stjfrv. um breytingar á lögunum kemur inn tryggir hins vegar að farið verður að skoða breytingar á lögunum í umhvn. og það þýðir að ekki er hægt að ganga fram hjá því frv. sem hér liggur fyrir frá Samfylkingunni í þeirri yfirferð. Umhvn. og meiri hluti umhvn. verður því að taka afstöðu til þess hvort þær breytingar verða teknar með sem við erum að leggja til samhliða þeim breytingum sem ríkisstjórnin ætlar að leggja til.

Spurningar mínar til ráðherrans eru um hvaða meginatriðum eigi að breyta í lögunum um mat á umhverfisáhrifum. En þar sem ráðherrann sagðist vilja líta til framtíðar og viðhafa fagleg vinnubrögð þá er mér eftirfarandi efst í huga: Ljóst er að ef stífluþilið við virkjun á Eyjabökkum verður hækkað áður en ráðist verður í framkvæmdir, þá verður virkjunin öll að fara í mat á umhverfisáhrifum. Við leiddum að því líkur í umræðunni fyrir jól að meiningin væri að sækja sér, eins og ríkisstjórnin gerði, heimild til að halda áfram með þessa virkjun og þegar menn væru komnir í gang með framkvæmdina, þá yrði stífluþilið hækkað þannig að ekki þyrfti að fara í aðra virkjun til að ná þeirri 120 þúsund tonna raforku sem þyrfti á að halda til álversins við Reyðarfjörð.

Nú kom það fram í iðnn., á síðasta fundi iðnn. um þetta mál, að Landsvirkjun ætlar að skoða það á sumri komanda hvort það borgi sig fyrir Landsvirkjun að hækka stífluþilið um þrjá metra til að komast hjá því að virkja annars staðar. Þess vegna er spurning mín til ráðherrans þessi: Hvað gerir ráðherrann ef niðurstaða Landsvirkjunar í sumar verður sú að það borgi sig að hækka stífluþilið um þrjá metra? Ráðherrann hefur nefnilega hér í þessari umræðu afdráttarlaust hafnað því að brtt. okkar í frv. því sem hér er til umræðu geti átt við Jökulsá í Fljótsdal. En ef það kemur til að ákveðið verði að hækka stífluþilið um þrjá metra, þá verður ráðherrann að svara hvernig hún ætlar að bregðast við. Þetta er spurning mín í umræðunni og hjá henni getur ráðherrann ekki komist, herra forseti. Ég mun leggja spurninguna skriflega á borð ráðherrans þannig að ljóst sé að við fáum hér að vita hvað ráðherrann gerir ef niðurstaða Landsvirkjunar í sumar verður sú að hækka stífluþilið í virkjuninni í Jökulsá í Fljótsdal um þrjá metra.