Notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 18:42:17 (4311)

2000-02-14 18:42:17# 125. lþ. 62.15 fundur 233. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands# þál., HBl
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[18:42]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er auðvitað í síðustu lög sem þess er freistað að flytja þá þáltill. sem hér liggur fyrir. Hún fjallar í stuttu máli um það að við Íslendingar hugum að móðurmáli okkar og að Veðurstofan og fjölmiðlar noti það tungutak sem þjóðinni er tamast þegar embættismönnum eða fjölmiðlum er falið að koma til skila hvernig horfur séu í veðráttu, við hverju megi búast.

Það er athyglisvert að lesa í Dagblaðinu í dag með hvaða hætti Magnús Jónsson veðurstofustjóri skýrir það hvernig á því skuli standa að fór fram hjá Veðurstofunni að óveður vofði yfir okkur Íslendingum. Hann segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í tilvikinu á föstudaginn gerist það um klukkan tvö að skip lætur vita af því að kominn sé vindur upp á 30 metra á sekúndu og þetta var víðsfjarri öllum tölvuspám þar sem gert hafði verið ráð fyrir suðvestanátt með vindhraða upp á 10--15 metra á sekúndu.``

Svo mörg eru þau orð. Nú vill svo til að almanakið hefur gefið út skrá um þá ráðgátu hvað þetta þýði, 30 metrar á sekúndu, 10--15 metrar á sekúndu. Það er nú einu sinni svo, herra forseti, að við Íslendingar erum vanir að miða hraðann við klukkustund, vitum nokkurn veginn hvað það þýðir ef bíll ekur t.d. á 50 kílómetra hraða. Hitt er öllu torveldara að átta sig á þessu sekúndutali. Er þá helst að maður reyni að rifja upp hversu fljótir Haukur Clausen eða Örn Clausen voru að hlaupa 100 og 200 metrana í gamla daga, kannski er það svo langt síðan að maður áttar sig ekki almennilega á þessu en í hvert sinn sem ég heyri þetta nýja metramál þá fer ég að velta fyrir mér stundum mínum á íþróttavellinum á Melunum þegar ég var lítið barn og var að velta fyrir mér hver yrði fljótastur hringinn. Síðan flettir maður upp, jú, 30 metrar á sekúndu er ofsaveður. 10--15 metrar á sekúndu er kaldi, stinningskaldi eða allhvass vindur. Þá skyndilega áttar maður sig á því að það vakir ekki fyrir veðurstofustjóra í þessu viðtali og ekki endranær þegar talað er um 10--15 metra á sekúndu að vera gleggri en áður, gefa nákvæmari upplýsingar en áður eins og þó hefur verið látið í veðri vaka, bæði í einkasamtölum og eins í opinberum viðtölum.

[18:45]

Staðreyndin er auðvitað líka sú að þetta nýja mælingarmál er ekki tekið upp vegna þess að sérfræðingarnir hafi það á tilfinningunni að þeir séu að koma til móts við fólk almennt heldur er þetta hugarleti þeirra sjálfra vegna þess að þeir eru önnum kafnir við tölvuborðið bíðandi eftir nýjum spám hafa ekki dug í sér til þess að snúa því á íslenska tungu sem út úr þessum tölvum kemur.

Nú varð ég fyrir vonbrigðum fyrr á þessu þingi þegar þessi mál bar á góma með það hversu litlar undirtektir það fékk þegar hv. þm. Kristján Pálsson vakti máls á því hvort ekki væri rétt að hverfa til hins fyrra horfs, taka upp gömlu nöfnin. Hann rifjaði þau upp hér áðan. Þá var svona látið í veðri vaka að ungt fólk í dag vissi ekki lengur hvað kul væri. Ég þekki ekki það unga fólk sem ekki veit hvað kul er. Ég hef reynt fyrir mér, spurt krakka. Jú, þeir hafa heyrt það nefnt en fáir hafa sagt mér að vísu að það sé tveir metrar á sekúndu.

Herra forseti. Ég hygg að það hljóti líka að valda nokkurri undrun hið mikla tómlæti sem fjölmiðlar, ég tala nú ekki um Ríkisútvarpið, sýnir í þessu máli. Nú er Ríkisútvarpinu ætlað lögum samkvæmt að standa vörð um íslenska tungu. Þar er sérstakur málskrafsráðunautur ef ég veit rétt (Gripið fram í.) sem ber að koma því á íslenska tungu sem talað er og fylgjast með því sem fréttamenn segja hverju sinni og hefur orðið nokkuð ágengt á sumum sviðum og stundum. En hann hefur greinilega ekki sinnt veðurfræðinni. A.m.k. er ekki annað að heyra en metratalið sé þar í fullum gangi og veldur það sinnuleysi útvarpsins vissulega vonbrigðum, hlýtur að gera það.

Sú mikla nákvæmni sem Veðurstofan vill viðhafa í sínum spám getur aldrei orðið meiri en sú glöggskyggni sem tölvur og veðurfræðingar hafa á framtíðina og skiptir þá ekki máli út frá því sjónarmiði hvort talað er í tölum eða orðum. En á hinn bóginn liggur fyrir og það vita allir sem komnir eru til ára sinna að við skiljum betur hugtök sem lýst er með orðum, vindi sem lýst er með orðum en í tölum. Það gefur auga leið. Það er ekki flókið vegna þess að við skynjum veðrið með öðrum hætti en við horfum á mæli eða mælistokk.

Ég hlýt að láta í ljós þá skoðun, herra forseti, að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar sýni þinginu og íslenskri tungu þá virðingu að afgreiða málið á þessu þingi þannig að alþingismenn geti greitt atkvæði um það hvaða skoðun þeir hafi á þessu sérstaka máli. Það kemur hvort sem er ekki svo oft fyrir að við höfum tækifæri til þess að lýsa hug okkar til tungunnar með áþreifanlegum hætti.

Á þessu sviði sem alls staðar annars staðar eigum við sem í þennan sal erum kjörnir að huga að uppruna okkar, huga að tungunni, að þeim arfi sem okkur hefur verið falið að varðveita til næstu kynslóðar. Það yrðu ömurleg eftirmæli eftir okkur ef við létum það sem vind um eyrun þjóta þegar sú aðför er gerð að íslenskri tungu að í einu vetfangi eigi að drepa niður og kæfa þessi gömlu fallegu orð sem hafa orðið til í harðri lífsbaráttu okkar í veðri og vindum, á sjónum og upp til fjalla. Logn, andvari, kul, gola, stinningsgola, kaldi, stinningskaldi, allhvass vindur, hvassviðri, stormur, rok, ofsaveður, fárviðri. Núll metri á sekúndu, einn metri á sekúndu, tveir metrar á sekúndu, fjórir metrar á sekúndu o.s.frv. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta, herra forseti.