Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 15:03:21 (4493)

2000-02-17 15:03:21# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að aftur kemur hér fram í ræðum og nú hjá hv. síðasta ræðumanni að skilyrt er að til þess að hægt sé að ráðast í þessar vegaframkvæmdir þurfi að selja ríkisfyrirtæki. Það þýðir, herra forseti, að sá listi sem hér er verið að leggja fram hangir gjörsamlega í lausu lofti. Það fer nú að verða nauðsynlegt, herra forseti, að hæstv. samgrh. upplýsi hvort samgöngumálin og átak í samgöngumálum sé alfarið háð því að ríkisfyrirtæki séu seld og landsmönnum þannig stillt upp við vegg --- annaðhvort þetta eða ekki neitt --- eins og nú er að verða tískan.

Ég lít á þetta sem aðskilin mál, herra forseti, og það er til minnkunar fyrir okkur að hugsa með þeim hætti að ekki sé hægt að ráðast í framkvæmdir og áætlanagerð á vegum íslenska ríkisins án þess að verða að skilyrða það sölum á eignum þess.