Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 15:29:59 (4500)

2000-02-17 15:29:59# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[15:29]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að það fjármagn sem hv. þm. Kristján Möller minntist á að þyrfti til hönnunar og undirbúningsframkvæmda liggur ekki fyrir. Það er búið að ganga frá fjárlögum þessa árs og því liggur það ekki fyrir. Hvernig samgrh. ætlar að koma með þá peninga utan fjárlaga er ekki gott að vita en ef það kemur til umræðu í þinginu þá er sjálfsagt að taka á því.

[15:30]

Ég vil benda á að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fluttum einmitt tillögu um það fyrir jól við afgreiðslu fjárlaga að settar yrðu 250 millj. kr. í undirbúning á jarðgangagerð til Siglufjarðar og á Austfjörðum og Vestfjörðum. En því miður var það fellt af stjórnarþingmönnum og aðrir sátu hjá. Það var bara stutt af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Þessa peninga vantar, þannig er staðan. En þarna er virkilega þörf á alvörusvörum.