Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:26:30 (4520)

2000-02-17 16:26:30# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, GunnB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:26]

Gunnar Birgisson:

Virðulegur forseti. Hér er verið að ræða um vegáætlun til 2004. Mönnum hefur verið tíðrætt um Reykjanesbraut og höfuðborgarsvæðið og hins vegar landsbyggðina.

Það sem er merkilegast í þessu og hefur komið fram hjá sumum ræðumönnum er að hér eru íbúarnir flestir. Hér eru bílarnir flestir og fjölgun ökutækja á þessu svæði hefur orðið gífurleg. Við erum náttúrlega alls ekki að setja nægilega peninga inn á þetta svæði miðað við það sem þyrfti og þennan aukna bílafjölda.

Lykillinn að því að landsbyggðin lifi og viðskipti og atvinnulíf geti dafnað eru góðar samgöngur, það er lykilmálið. En svo merkilegt er það nú, og ég hef velt því fyrir mér, að aldrei hafa fleiri flutt á höfuðborgarsvæðið heldur en einmitt nú þegar samgöngurnar batna ár frá ári. Við ættum kannski að velta því fyrir okkur en ég er samt bjargfastur á þeirri skoðun að góðar samgöngur séu lykilmál til að landsmenn fái lifað.

En höfuðborgarsvæðið þarf langtum meira fjármagn. Ég mótmæli því sem hæstv. ráðherra á að hafa sagt hér áðan, að sveitarstjórnarmenn hefðu ekki unnið sína heimavinnu. Það vill svo til að ég er einn af sveitarstjórnarmönnunum á höfuðborgarsvæðinu og fyrir nokkrum árum, þremur eða fjórum árum, settumst við niður og sömdum um forgang framkvæmda, röðuðum þessu niður, herra forseti, á sem hagkvæmastan hátt. Ég vísa því slíkum fullyrðingum til föðurhúsanna.

Það hefur verið rætt um Reykjanesbraut sem fyrir löngu er orðið þjóðþrifamál að bæta. Reykjanesbrautin er kannski ekki eini vegurinn á þessu svæði sem þannig háttar með, einnig mætti nefna Vesturlandsveg og hina og þessa vegi í Reykjavík. Slysatíðnin hefur hins vegar kannski verið mest miðað við ekna kílómetra á Reykjanesbraut. Umræðan hefur þó skilað því að málið er nú farið að hreyfast og fyrirsjáanlegt að framkvæmdir fari í gang. Þingmenn hafa verið sem einn maður í þessu máli. Fyrst ber að nefna að 12 þingmenn kjördæmisins standa saman í þessu máli. Við höfum eðlilega fengið góðar undirtektir frá Reykvíkingum og öðrum því flestir keyra þessa braut.

Ljóst er að farið verður í umhverfismat og hönnun á þessum vegi nú þegar í ár. Síðan á eftir að ákveða um framhaldið en þó er ljóst að útboð getur farið fram árið 2002 og framkvæmdir upp úr því. Síðan er spurning um fjármagnið á langtímaáætlun árin 2007, 2008, 2009 og 2010. Einnig mætti bjóða þetta út þannig að verktakinn fái greitt seinna og fjármagni framkvæmdir í þrjú til fjögur ár. Sparnaðurinn sem næst fram bæði við að bjóða verkið út í stærri áföngum, þá er hægt að fá hagstæðara verð, fækkun slysa og aukin þjóðhagsleg hagkvæmni, ætti að vega upp á móti fjármagnskostnaði.

Um Reykjanesbraut fara 7 þúsund bílar á sólarhring. Ljóst er að ef brautin yrði tvöfölduð þá mundi umferðin aukast verulega því að margir veigra sér við að fara brautina eins og er. Umferðin er þannig á Reykjanesbraut að hún nær toppum. Það koma toppar þegar flugið er og þegar fólk er að fara í vinnu suður eftir, þá myndast langar lestir. Um brautina fara flutningabílar, bæði bensín- og olíuflutningar, gámaflutningar og fiskflutningar. Þá myndast biðraðirnar og framúraksturinn, þar með skapast hættan og þá verða slysin. Þannig gerist þetta og það er ljóst að með tvöfölduninni mundi hættan minnka og fleiri mundu fara um brautina. Við bættar samgöngur eykst umferðin. Það er bara regla sem gilt hefur í gegnum aldirnar.

Hinn vegurinn sem við höfum rætt um er Vesturlandsvegur, með 13 þús. bíla umferð á sólarhring, þ.e. á honum er gífurlega mikil umferð. Það er ljóst að það þarf að tvöfalda hann upp í Mosfellsbæ hvenær sem það verður gert. Síðan má nefna hinn partinn af Reykjanesbrautinni, þ.e. þann sem liggur í gegnum Reykjavík, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Þar er ákveðið prógramm í gangi þar sem farið verður í ákveðna áfanga á ákveðnum árum. Við sveitarstjórnarmenn höfum einmitt rætt um hvernig það skuli gert. Á næsta ári liggur fyrir að gera mislæg gatnamót við Reykjanesbraut, Breiðholtsbraut og Nýbýlaveg. Jafnframt skal á næsta ári ráðast í gerð mislægra gatnamóta á Lækjargötu í Hafnarfirði.

Það sem mér finnst heldur magurt í þessari þáltill. eru peningaupphæðirnar til þessara verkefna hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að þetta lendi í ógöngum ef við horfum til næsta árs eða þar næsta árs. Á næsta ári á t.d. að opna í Kópavogi 60 þúsund fermetra verslunarmiðstöð. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig umferðin verður. Menn munu náttúrlega koma af höfuðborgarsvæðinu og líka landsbyggðinni til að versla í þessari ágætu búð. Þegar þetta verður unnið áfram í nefndinni vona ég að samgn. og hæstv. ráðherra taki tillit til þeirra óska sem hér hafa komið fram. Ég vona að okkar fólk í nefndinni fari í þá vinnu sem á er þörf.

Það sem einnig hefur vakið athygli mína er að viðhald þjóðveganna hækkar lítið að raunvirði á milli ára í þessari áætlun. Slitlagið á þjóðvegunum lengist með hverju árinu og viðhaldið eykst. Mér finnst því mjög skrýtið hve þetta er lítið. Þetta eru örfá prósent á milli ára.

Síðan er eitt sem ég er mjög ósáttur við. Það er frestun þessara framkvæmda til að draga úr þenslu. Mér finnst það rangt. Það er allt í lagi að gera það við byggingarframkvæmdir en í jarðvinnuframkvæmdum er ekkert sem heitir frestun framkvæmda til að slá á þenslu. Ég gef ekkert fyrir slíkt mál. Ég held að á næstu þremur til fjórum árum, verði ekki gert verulegt átak, verði öngþveiti í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að menn verði að byrja strax að bæta úr og alltaf fjölgar bílunum. Við náum bráðum heimsmeti, við erum að öllum líkindum númer tvö í heiminum núna í bílafjölda á hvern íbúa. Við komumst líklega bráðum í fyrsta sæti.