Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:51:13 (4531)

2000-02-17 16:51:13# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:51]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Það er með þessa þjóðflutninga. Mér fannst hálfpartinn eins og hv. þm. væri að rengja þær tölur sem hafa komið fram, 6--12 milljarða kostnað sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Hæstv. forsrh. landsins hefur notað þessar tölur og þetta eru tölur sem hafa verið notaðar í opinberum plöggum í sambandi við byggðamál.

Hluti af þjóðflutningunum er m.a. vegna þess að allar stórframkvæmdir undanfarandi ára hafa átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðin hefur fengið nokkra brauðmola sem hafa dottið út af borðinu. Þetta er ekkert flóknara en það. Það nægir að nefna stækkun álvers, byggingu álvers, virkjanir uppi á hálendinu o.s.frv. Allar þessar stórframkvæmdir hafa verið hér og þær soga til sín fólk og spenna upp verðlag og annað slíkt í landinu. Það vita það t.d. sennilega allir að ýmis launakostnaður hækkaði ekkert smáræði við framkvæmdir álversins á Grundartanga, þar var allt að 50% launaskrið. Þjóðflutninga eins og þá sem hér eru þekkjum við t.d. ekki á Norðurlöndum. Þar hafa þeir ekki átt sér stað í eins ríkum mæli og þeir hafa verið hér.