Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 17:08:46 (4538)

2000-02-17 17:08:46# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[17:08]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu um vegáætlun þakka fyrir ágætar umræður og gagnlegar, mjög mikilvægar umræður um þetta mikilvæga svið okkar þjóðlífs, þ.e. áform um framkvæmdir í vegamálum. Ég vil sérstaklega þakka fyrir undirtektir sem ég hef heyrt og fundið við áætlun um jarðgangaframkvæmdir en auðvitað er það aðeins hluti af því mikilvæga verkefni sem hér um ræðir.

Herra forseti. Ég vil minna á að vegáætlun er fyrst og fremst rammi að því sem við þurfum að gera í þinginu. Hv. samgn. fær það verkefni að líta yfir þau viðfangsefni sem þarf að setja inn í vegáætlunina og það er ærið verk.

Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið um frestun framkvæmda og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, þá vil ég minna á að ákvarðanir um frestun framkvæmda voru teknar vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir settu sér ákveðin markmið í efnahagsmálum. Þau snerust ekki aðeins um að draga úr framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu heldur voru það ekki síður efnahagsleg markmið sem gengu út á að skila afgangi af ríkissjóði. Til hvers? Til þess að hægja á framkvæmdum sérstaklega? Nei. Til þess að hafa þau áhrif á efnahagslífið, á peningamarkaðinn að það dragi úr eftirspurn og spennu á fjármagnsmarkaði.

Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar og markmið sett um afgang á ríkissjóði, þá eigum við ekki annarra kosta völ en ákvarða útgjöldin í samræmi við þann ramma sem við höfum sett okkur og þá kemur til þess að velja á milli þess að takmarka útgjöld til menntamála, til félags- og heilbrigðismála og framkvæmda í samgöngumálum o.s.frv. Allt þetta þekkjum við. Við höfum rætt þetta. Þetta beinist því ekki allt eingöngu að því að takmarka einstakar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Hér erum við að fást við miklu mikilvægari markmið. (Gripið fram í.) Síðan lendum við auðvitað í því þegar við erum búin að setja okkur þessa ramma að þurfa að ákvarða hvernig við deilum út framkvæmdafénu innan þeirra marka sem við höfum. Það er viðfangsefnið. Við lendum þá í því að hafa ekki nægjanlega fjármuni til þess að uppfylla þau framkvæmdaáform sem vegáætlun hafði gert ráð fyrir. Þetta vildi ég að kæmi fram þannig að það væri alveg skýrt.

Hins vegar er það fjarri lagi sem fram hefur komið hjá sveitarstjórnarmönnum á höfuðborgarsvæðinu að það hafi ekki áhrif á vinnumarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu ef farið yrði í stórfelldar brúarframkvæmdir hér þar sem þarf að kalla til leiks smiði sem eru ekki til, iðnaðarmenn og verkamenn sem eru ekki til á markaðnum á höfðborgarsvæðinu. Það er alveg fráleitt og mikið undrunarefni að forustumenn sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu skuli skrifa okkur beiðni um að auka á spennuna.

Það er ekki eingöngu um jarðvinnuverkefni að ræða þarna. Eins og hér hefur verið nefnt þá er verið að tala um annað og meira en eingöngu jarðvinnuverkefni. Þetta vildi ég hafa sem inngang en fara síðan yfir ágætar fyrirspurnir og athugasemdir sem komu fram í kjölfar ræðu minnar.

Ég vil eins og ég sagði áðan þakka fyrir ágætar undirtektir og vekja um leið athygli á því að það var nefnt að takmarkaðir fjármunir eru til nauðsynlegra verkefna á höfuðborgarsvæðinu og athugasemdir þar um hafa komið bæði frá þingmönnum Reykjavíkursvæðisins og þingmönnum utan af landi. Allt er það rétt. En ég vil samt vekja athygli á því að framkvæmdaáform eða framlög samkvæmt vegáætlun eru veruleg til höfuðborgarsvæðisins, 1,1 milljarður á ári á meðan það eru um það bil 1,8 milljarðar í önnur verkefni svo ég taki nú bara stórverkefni þannig að það fer auðvitað verulega stór partur af framkvæmdafjármagninu í vegagerð hingað á höfuðborgarsvæðið svo að allrar sanngirni sé gætt í þessari umræðu.

Hv. þm. Jón Bjarnason vakti athygli á því, og þá komum við að allt annarri hlið þessa máls, að fjármunir væru takmarkaðir til tengivega og vega innan svonefndra jaðarbyggða og spurðist fyrir um hvað liði áformum sem mátti draga ályktun af að væru í bígerð í tengslum við byggðaáætlun. Það liggur ekkert endanlegt fyrir um það en við meðferð vegáætlunar þarf að líta til þess hvort hægt sé að færa til þannig að tengivegaframkvæmdir verði meiri en gert er ráð fyrir samkvæmt þessari tillögu og þá einnig fara yfir það hvort hægt verði að ráðast í meiri framkvæmdir á vegum á svokölluðum jaðarsvæðum, vegum sem ekki eru inn á vegáætlun eða langtímaáætlun. Þetta þarf að skoða og ég tek undir það að við þurfum að finna einhverjar leiðir þarna þó þær séu kannski ekki mjög einfaldar eða auðveldar.

[17:15]

Hér komu nokkrir hv. þm. af Austurlandi og ræddu eins og við var að búast um jarðgöng. Af því tilefni vil ég segja að vilji minn er sá að hægt verði að setja af stað framkvæmdir við Reyðarfjarðargöngin eins og ég hef greint frá og auðvitað þarf að líta til þess hvort önnur áform um jarðgöng komi þá í framhaldi af því. Ég vil að gefnu tilefni, þar eð talað var um að takmarkaðir fjármunir færu í þann landshluta, benda á að ljóst er að við munum þurfa að setja mikla fjármuni, vonandi segi ég, til framkvæmda við vegagerð á Austurlandi þegar framkvæmdir hefjast við stóriðju og virkjanir á Austurlandi. Þá þarf að leggja vegi um Fljótsdalinn, veg milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar o.s.frv. Þannig eru fram undan heilmiklar framkvæmdir þarna og auðvitað þarf að líta til þess.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson kvartaði undan því að óeðlilegt væri að flokka ekki önnur framkvæmdaáform í jarðgöngum, þ.e. þau sem eru utan forgangshópsins. Ég met það svo að hér sé valin skynsamleg leið sem Vegagerðin hefur skrifað inn í skýrslu sína. Ég tel það langt í að hægt verði að ráðast í framkvæmdir, þegar rannsóknir hafa ekki verið gerðar á fyrirhuguðum göngum eða á þessum svæðum, að ekki sé vert að raða. Hins vegar hafa komið fram ábendingar um hvaða framkvæmdir væri eðlilegt að skoða en ég tel skynsamlegt að fara svona að.

Ég get tekið undir það, eins og kom fram hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur, að ljúka þarf tengingu Austur- og Norðurlands en það er eitt af mörgum verkefnum sem fást þarf við.

Hv. þm. Kristján Pálsson ræddi eðlilega um Reykjanesbraut eins og fleiri þingmenn Reyknesinga. Hann spurðist fyrir um það eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson og fleiri hv. þm. hvort hægt væri að hraða þar framkvæmdum. Ég hef átt viðræður við hv. 1. þm. Reykn., Árna M. Mathiesen, um þessi mál. Hann hefur fyrir hönd þingmannahóps síns haft forustu um að leggja á ráðin um lausn þessara mála. Ég vil skoða alla kosti þess að finna leiðir til að flýta þessari mikilvægu framkvæmd. En ég tel að við eigum fyrst og fremst að líta til þess á almennum nótum fremur en sækja lán til verktaka. Það er ekki víst að það sé hagkvæmasta leiðin. Það getur vel verið, ef tekin yrði ákvörðun um það og fundin leið til þess að flýta framkvæmdum við Reykjanesbrautina, að eðlilegra væri að hafa það inni í hinum almenna lánapakka ríkisins. Þar með fengjust auðvitað hagkvæmustu kostirnir í lántöku fremur en að verktakinn stæði í lánastarfseminni. En þetta tel ég að eigi að skoða allt saman. Ég vil ekki slá á neinar góðar hugmyndir eða lausnir í þessu máli. Við þurfum að átta okkur á því, eins og hefur komið fram hjá hv. þm., að það þarf að vinna þetta verk, ljúka umhverfismati og undirbúningi og það er allt á eðlilegum nótum að ég tel. Ég vil bara þakka fyrir mjög svo málefnalega umræðu um æskilegar og nauðsynlegar framkvæmdir við Reykjanesbrautina.

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason lýsti því yfir að hann vildi selja ríkisfyrirtæki og nýta til vegagerðar afraksturinn af því. Ég fagna þeirri yfirlýsingu, tel sjálfsagt að skoða það og hef ekkert nema gott um það að segja.

Hvað varðar hins vegar útboð á ferjusiglingunum þá gerði ég grein fyrir því í framsöguræðu hvers vegna þau áform eru uppi. Ég vænti góðs samstarfs um það.

Hv. 1. þm. Norðurl. e., Halldór Blöndal, vakti athygli á viðfangsefnum sem við þurfum vissulega að skoða og hv. samgn. þarf að líta til. Það eru svæði þar sem er snjóflóðahætta. Vegagerðin hefur verið að skoða þau mál eins og fram kom hjá hv. þm. og menn þurfa að gera sér grein fyrir því að að ýmsu þarf að hyggja í þeim efnum.

Hv. þm. Hjálmar Árnason lagði fyrir mig nokkrar spurningar sem ég vil svara. Hann spurðist fyrst fyrir um þál. um skipun nefndar sem átti að vinna að undirbúningi þess að samræma samgönguáætlanir. Ég tel ekki ástæðu til þess að skipa sérstaka nefnd um þetta. Ég hef tekið ákvörðun um að hrinda þessu í framkvæmd og tel það afskaplega mikilvægt. Ég gerði grein fyrir því í framsöguræðu minni en tek undir það með hv. þm. að þetta er mjög mikilvægt mál. Ég hef tekið ákvörðun um að hefja þennan undirbúning og það er komið á fulla ferð.

Í öðru lagi spurðist hann fyrir um aðgerðir til að auka almenningssamgöngur sem drægju úr slysahættu og mengun. Í ráðuneytinu er unnið að því að finna þarna leiðir og lausnir. Ég veit að hv. þm. hefur mikinn áhuga á því máli og ég mun vonandi áður en langt um líður hafa eitthvað meira um það að segja. En ég tel að það sé eðlilegt að hv. samgn. fari yfir þetta vegna þess að það gæti þurft að gera einhverjar brtt. eða tilfærslur á milli liða ef þarna yrði um sérstakar aðgerðir að ræða gagnvart sérleyfishöfunum. Það þyrfti þá meiri fjármuni en ekki er af öðru að taka en því sem er innan ramma vegáætlunar.

Vegna fyrirspurnar frá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni vil ég segja að það eru engin áform um að draga úr framlögum til strætisvagnafyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Hv. þm. spurðist fyrir um hvort ég mundi beita mér fyrir því að skipulag höfuðborgarsvæðisins yrði skilvirkara. Vegagerðin vinnur þar með sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins að þeirri vinnu. Ég tel að á henni þurfi að herða eins og komið hefur fram í þessari umræðu.

Varðandi áherslur á Suðurstrandarveginn, sem hv. þm. spurði um, þá tel ég vart mikið svigrúm fyrir Suðurstrandarveginn innan fjögurra ára áætlunarinnar, miðað við þær væntingar sem menn hafa þar en auðvitað verður að líta til hans þegar kemur að meðferð langtímaætlunarinnar.

Herra forseti. Ég á eftir að svara fjölmörgum spurningum en hef ekki meiri tíma.