2000-02-22 13:42:32# 125. lþ. 68.92 fundur 333#B vinna við skýrslu um úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja á íslenskum markaði# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[13:42]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Sú niðurstaða sem hæstv. viðskrh. kynnir hér er algerlega óásættanleg. Það er ekkert nýtt að þessi úttekt sé bæði umfangsmikil og kostnaðarsöm. Vilji þingmanna liggur fyrir að þessi úttekt verði gerð, ekki bara frá því í haust að skýrslubeiðnin kom fram heldur eru tvö ár síðan ég lagði fram til viðskrh. skýrslu um að gerð yrði úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja í ákveðnum starfsgreinum. Svarið var þá að úttektin væri umfangsmikil og dýr og þess vegna gæfist ekki tími til að svara þessu. Vilji þingsins er því búinn að liggja fyrir í tvö ár. Það eru búið að afgreiða fjárlög tvisvar sinnum síðan það var þannig að hæstv. viðskrh. hafði, ef vilji hefði verið fyrir hendi, allan tíma og möguleika til þess að fá þetta samþykkt á fjárlögum. Ég held því að fyrst og fremst sé um að kenna viljaleysi ríkisstjórnarinnar til þess að úttektin fari fram en ekki peningaleysi. Ég held að það sé bara staðreynd þessa máls.

Við afgreiðum fjáraukalög árlega. Síðast voru fjáraukalög upp á 10 milljarða kr. þar sem ráðherrar eru að fara fram úr heimildum sem þingið hefur gefið þeim í fjárlögum til alls konar verkefna og þetta verkefni er það brýnt og aðkallandi að ég er alveg viss um að ráðherrarnir mundu ekki fá ákúrur frá þinginu þó að þessar 15 millj. sem hæstv. ráðherra segir að úttektin kosti komi á fjáraukalögin. Ég vil því biðja hæstv. ráðherra allra vinsamlegast með tilliti til þess hve vilji þingsins er ríkur í þessu máli að endurskoða afstöðu sína þannig að þessi úttekt geti hafist nú þegar en ekki þurfi að líða ár héðan í frá og síðan tvö ár þar til niðurstaðan liggur fyrir. Þetta er algjörlega fráleit afsökun sem ráðherrann er með og ekki boðleg þinginu.