Réttarstaða örorku- og ellilífeyrisþega

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 18:47:37 (4705)

2000-02-22 18:47:37# 125. lþ. 68.9 fundur 259. mál: #A réttarstaða örorku- og ellilífeyrisþega# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[18:47]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég tek til máls til þess að styðja þessa till. til þál. um réttarstöðu örorku- og ellilífeyrisþega. Ég fagna því að hún skuli koma fram og ég fagna orðum síðasta ræðumanns og þeirri réttlætiskennd sem hefur einkennt málflutning flutningsmanna, bæði þeirra sem tala fyrir þáltill. og eins í umræðunni í vetur þegar við vorum að ræða fjárlögin. Þetta er mannréttindamál að mínu mati og eins og hér hefur komið fram taka þessar tryggingabætur til ákveðins hóps í okkar þjóðfélagi, eldra fólks og ungs fólks sem hefur orðið undir í lífsbaráttunni af ýmsum ástæðum. Með þeirri upphæð sem tekjutryggingin er í dag, 68 þús. kr., nær fólk því miður ekki að rétta úr kútnum og lifa eins og aðrir þjóðfélagsþegnar. Við höfum efni á því núna að bæta stöðu þessara hópa.

Varðandi b-liðinn, þ.e. að fella niður allar tengingar lögbundins lífeyrisréttar við tekjur maka, þá er það bara orðin spurning um mánuði en ekki ár að koma því í framkvæmd því að ég tek undir þau orð að það er brot á mannréttindum að hafa þetta í almannatryggingalöggjöfinni.