Fjármögnunarkerfi sjúkrahúsa

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:55:31 (4784)

2000-02-23 15:55:31# 125. lþ. 70.6 fundur 269. mál: #A fjármögnunarkerfi sjúkrahúsa# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur fyrir að koma með þessa fyrirspurn. Þetta er tímabær umræða sem hún vekur hér og í raun umræða sem við þyrftum að taka hérna, sérstaklega í ljósi þess hvað fram undan er í málefnum sjúkrahúsanna í Reykjavík. Það er mikilvægt að ríkið sem kaupandi þjónustu viti hvað hún kostar.

Auðvitað veit ég að heilmikil vinna hefur farið fram hjá sjúkrahúsunum við að meta kostnað við læknisverk, þ.e. hvað þau kosta, hvað aðgerð kostar og hvað þjónusta kostar. En ég hef ákveðnar efasemdir um að þessi umræða og vinna sé komin nógu langt til þess að menn verði færir um að meta kosti og galla sameiningar sjúkrahúsanna. Þó er ég ekki viss um það og þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við förum í þessa umræðu og að þingmenn taki hana áður en lengra verður gengið í sameiningaráformunum um sjúkrahúsin.

Ég tek því undir orð hæstv. ráðherra um að þessa umræðu þurfi að taka og vonast til þess að það verði gert fljótlega í þinginu.