Rekstur nýs hjúkrunarheimilis við Sóltún

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 16:00:04 (4787)

2000-02-23 16:00:04# 125. lþ. 70.7 fundur 345. mál: #A rekstur nýs hjúkrunarheimilis við Sóltún# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[16:00]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Þau nýmæli hafa verið tekin upp hjá heilbrrn. að bjóða út byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis. Þessi nýmæli eru í anda þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar að koma sem mestu af opinberri þjónustu í hendur einkaaðila. Sjómannadagsráð á og hefur rekið Hrafnistuheimilin til margra ára, á daggjöldum sem hafa átt að standa undir rekstri en ekki skilað neinum arði eða gróða til eigendanna. Fyrir ári síðan, þegar auglýst var eftir aðilum sem taka vildu þátt í forvali vegna útboðs á byggingu og rekstri 60 rúma hjúkrunarheimilis í Reykjavík, lýstu Hrafnistumenn yfir vilja til þátttöku í þessum nýja rekstri enda hafði staðið til að fara út í byggingu 60 rúma hjúkrunarálmu á lóð Hrafnistu í Laugarási til að auka þjónustuna og ná fram betri nýtingu á þeim stoðdeildum sem fyrir eru, t.d. eldhúsi, þvottahúsi, sjúkraþjálfun, auk þess að nýta það starfsfólk sem fyrir var í stjórnunarstörfum.

Þessi hagkvæmi rekstur kom ekki til greina því að keppa þurfti á jafnréttisgrundvelli og hafa allan rekstur nýs hjúkrunarheimilis afmarkaðan við rekstur þessarar 60 rúma hjúkrunardeildar. Því gengu Hrafnistumenn frá útboðinu. Miðað við daggjöld undanfarinna ára þótti þeim ekki vera rekstrargrundvöllur fyrir sérrekstri á nýju hjúkrunarheimili.

En jafnræðisreglan er ekki alls staðar fyrir hendi og nú hefur verið samið við Securitas/Verkafl um að byggja og reka hjúkrunarheimili við Sóltún á mun hærri daggjöldum en Hrafnistu er ætlað til að reka sína þjónustu. Daggjöld Hrafnistu eru nú um 8.440 kr. á sólarhring og eiga eingöngu að standa undir rekstri. Daggjöld til Securitas verða, miðað við vísitölu frá því ágúst 1990, 11.880 kr. vegna rekstrar og 2.420 kr. vegna húsnæðis eða 14.300 kr. samtals. Það eru um 67% hærri daggjöld hvern legudag. Því ber ég fram svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

Hvers vegna var tilboði Securitas/Verkafls um að reisa og reka nýtt hjúkrunarheimili við Sóltún tekið í ljósi staðhæfinga um að aðrir hagkvæmari kostir kunni að hafa verið í boði?