Rekstur nýs hjúkrunarheimilis við Sóltún

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 16:10:28 (4791)

2000-02-23 16:10:28# 125. lþ. 70.7 fundur 345. mál: #A rekstur nýs hjúkrunarheimilis við Sóltún# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[16:10]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég vil þakka svör ráðherra. Í þeim svörum kemur fram að þetta eru 90 rúma hjúkrunarheimili, að þarna verði sjúklingar sem þarfnist meiri umönnunar en gert var ráð fyrir í upphafi og það eigi að skýra þennan mun á daggjöldum. En það skýrir ekki að ekki var hægt að fara þá leið að nýta hagkvæmni í uppbyggingu hjúkrunarheimilis á Hrafnistu.

Með því að bjóða út rekstur og byggingu á almennum markaði mátti vera ljóst að einkafyrirtæki sem tækju þátt í slíku útboði mundu krefjast a.m.k. 10--12% arðsemi fjárfestingarinnar. Menn eru ekki í bisness af hugsjónum. Nú þegar heilbrrh. hefur tekið stefnu á útboðsleiðina við byggingu nýrra hjúkrunarheimila þá vaknar spurning um hvort það sé ekki siðferðileg skylda ráðuneytisins að tryggja öðrum hjúkrunarheimilum a.m.k. jafnvægi í rekstri þegar litið er til þess að rekstur nýja heimilisins kostar allt að 67% meira á legudag en hjá þeim hjúkrunarheimilum sem fyrir eru og mörg þeirra hafa mjög þunga sjúklinga. Eða eiga önnur hjúkrunarheimili að halda áfram að berjast í bökkum og taka því lengur að viðvarandi taprekstur gangi jafnvel á eigið fé þeirra? Eins mætti minna á vanda hjúkrunarheimila úti á landsbyggðinni sem þurfa auk þess að standa undir kostnaði við sjúkraflutninga um langan veg.