Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 11:00:59 (4801)

2000-02-24 11:00:59# 125. lþ. 71.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[11:00]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði með réttu að lífeyrissjóðirnir hefðu að geyma miklar eignir, 500 milljarða, og hefðu mikið fé til ráðstöfunar. Ég hygg að það séu um 150 milljarðar sem þeir ráðstafa á ári. Hins vegar hef ég mikið orðið var við að sjóðfélagar telja sig lítil áhrif hafa á stjórnir lífeyrissjóðanna og ráðstöfun þessa fjár. Það er t.d. svo með hv. þm. sem gert er skylt að greiða iðgjald í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins að þeir hafa engin áhrif á stjórn þess sjóðs sem sjóðfélagar. Reyndar er hv. þm. Ögmundur Jónasson í stjórn þess sjóðs en hann er ekki kosinn af þingmönnum sem fulltrúi þeirra.

Spurning mín til hv. þm. er: Hver telur hv. þm. að eigi þessa 500 milljarða lífeyrissjóðanna? Önnur spurning: Telur hv. þm. að sjóðfélagar, sem eiga allt undir lífeyrissjóðunum í ellinni eða sem öryrkjar, hafi nægileg áhrif á stjórnir þessara sjóða?