Vörugjald af ökutækjum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 12:20:18 (4820)

2000-02-24 12:20:18# 125. lþ. 71.6 fundur 385. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (metangas- eða rafmagnsbílar) frv. 38/2000, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[12:20]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Í frv. er lagt til að lögfest verði tímabundin heimild til að lækka vörugjald af bifreiðum með vélar sem geta nýtt metangas eða rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu. Slíkar bifreiðar eru í daglegu tali gjarnan kallaðar tvíorkubifreiðar. Þar sem innflutningsverð slíkra bifreiða er alla jafna nokkru hærra en hefðbundinna ökutækja eru þær illa samkeppnisfærar gagnvart hefðbundnum bifreiðum. Með frv. þessu er stefnt að því að tvíorkubifreiðar verði betur samkeppnisfærar á almennum markaði.

Markmiðið með breytingunni er að styðja við öra þróun í hönnun og framleiðslu ökutækja sem geta nýtt rafmagn og metangas, enda eru skaðleg áhrif þeirra orkugjafa á umhverfið mun minni en eldsneytis úr olíum. Einnig hefur verið bent á að notkun tvíorkubifreiða sé nauðsynlegt skref í frekari þróun í framleiðslu bifreiða sem eingöngu verða knúnar öðrum orkugjöfum en bensíni eða dísilolíu. Það byggist meðal annars á því að dreifikerfi fyrir aðra orkugjafa er enn svo gisið að ekki er unnt að reikna með almennri notkun slíkra bifreiða strax. Enn fremur eru ýmsar aðrar tæknilegar hindranir því til fyrirstöðu. Síðast en ekki síst er aukin notkun tvíorkubifreiða í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og þá stefnu stjórnvalda að auka hlut innlendra orkugjafa. Samráð hefur verið haft við umhverfisráðuneytið um þessa stefnumörkun.

Í frv. sem er ekki mikið að vöxtum heldur aðeins ein efnisgrein er lagt til að vörugjald af svokölluðum tvíorkubifreiðum verði 120.000 kr. lægra en af venjulegum bifreiðum sem eingöngu nota bensín eða dísilolíu sem orkugjafa. Þessi lækkun svarar til vörugjalds af 300.000 kr. tollverði bifreiðar sem bæri 40% vörugjald. Þannig yrði greidd sama krónutala í vörugjöld af bifreið sem fellur undir lækkunarheimildina og kostar 1.000.000 kr. í innkaupum, þ.e. af tollverði, sama krónutala í vörugjald og af venjulegri bifreið sem kostar 700.000 kr. í innkaupum, þ.e. af tollverði.

Aukakostnaður við hverja bifreið sem hefur búnað til að nýta metangas eða rafmagn er nokkuð breytilegur en þó lætur nærri að hann nemi í mörgum tilvikum um það bil 300.000 kr. af tollverði bifreiðar. Örðugt er að áætla með sæmilegri vissu áhrif þessarar breytingar á tekjur ríkissjóðs. Sem fyrr segir eru tvíorkubifreiðar almennt dýrari en venjulegar bifreiðar og því ekki líklegt að hreint tekjutap ríkisins verði verulegt ef þá nokkurt.

Að lokum má geta þess að tilefni þessa frv. eru ákveðin erindi og tilmæli sem borist hafa frá tveimur aðilum sem hyggjast flytja inn svokallaðar tvíorkubifreiðar. Annars vegar er þar um að ræða Sorpu sem hyggst nýta metangas sem hún framleiðir á svona bíla. Hins vegar er einn hefðbundinn bílainnflytjandi sem hefur uppi áform um að flytja inn bíla sem einnig geti nýtt sér rafmagn samhliða bensíni. Í báðum tilfellum eru bílarnir ekki eingöngu ætlaðir fyrir annaðhvort bensín, metangas eða rafmagn heldur hvort tveggja, hefðbundið eldsneyti annars vegar og hins vegar metangas eða rafmagn. Með öðrum orðum geta þeir skipt á milli orkugjafa. Þeir geta stundum verið á hefðbundnum orkugjafa og stundum þessum óhefðbundna. Þess vegna er óeðlilegt að fella niður öll gjöld af þessu en það er eðlilegt að bílarnir gjaldi þess ekki í verði að hafa þessa óhefðbundnu möguleika. Þetta frv. er flutt til að greiða fyrir því að slíkir bílar komist hér í gagnið og sú einfalda leið valin að veita fastan krónutöluafslátt frá vörugjaldinu í stað þess að fara út í alla þá möguleika og smáatriði sem fylgja því að reyna að ná utan um hverja einustu bíltegund. Það er einfaldlega veittur sami afslátturinn í krónutölu og hann er reiknaður þannig út að hann geti jafnað muninn sem hér um ræðir.

Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.